Færslur: 2008 Febrúar

14.02.2008 11:23

Hálsbólga- ekki kvef!

Svanur bullar bara, kannski vegna kvefsins. Ég er sko ekki kvefuð, ég er með hálsbólgu og það er ekki gaman að kenna þannig. Hálsinn sár og röddin svona djúp viský rödd. Svo fæ ég hóstakast og nemendur horfa með vorkunnarsvip og segja mjúkum rómi:" Halla, mér finnst þú eigir bara að vera heima." Sem betur fer er allt skólastarf í upplausn vegna árshátíðar svo hefðbundin kennsla er í lágmarki. Þá er meira verið að vinna verkefnavinnu svo ég þarf ekki að tala eins mikið. Halla Sif er líka að koma heim núna um hádegi, einhverjir lagningardagar í MH sem hún er búin að afgreiða. Þá leggst ég bara undir sæng og læt hana sjá um það sem gera þarf.
Það má alveg senda mér broskalla eða hjörtu í tilefni dagsins.

13.02.2008 22:40

Hlýindi og kvef.


 Já það gerðist jafnhliða að það brustu á hlýindi  með vor í lofti (eða þannig) og gömlu hjónin kvefuðust hvort í kapp við annað.Þar sem frúin er alvön þessu kippti engin sér upp við það(vinnur í skólanum)  en ég er óvanur því að meðtaka einhverjar umgangspestir og er voða lítill í mér þessa dagana.Ég mokaði samt alveg obboð af snjó í gær í gerðinu í Söðulsholti, þó reyndar sæi ekki högg á vatni og það rifjaðist upp fyrir mér sú skoðun frá oddvitaárunum í gamla daga að versta fjárfesting sem til væri er að setja peninga í snjómokstur þegar allt fylltist umsvifalaust aftur.
  Við gömlu refirnir í bændastétt sem þekkjum kalhættuna síðan í gamla daga og vitum að undir snjónum leynist klakaskán á túnunum, biðjum nú bæði Allah og alla hina guðina, um að þessi hlýindi dugi nú til þess að allt þiðni nú af túnunum okkar svo dýri áburðurinn nýtist nú sem best í sumar. Ég er ekki viss um að ungu bændurnir blandi sér í bænakórinn því þarna eru ákveðnir hagsmunaárekstrar í gangi sem blandast vélsleðaeigninni. Reyndar átti ég eftir að bruna yfir fjallið og kíkja í Stóra Langadalinn sem mér er sagt að sé fjárlaus núna. Það vildi ég gjarnan sjá, því mig rekur ekki minni til þess að hafa komið í hann fjárlausan á þessum árstíma og væri gaman að upplifa það. En nú ætla ég að fá mér eitthvað krassandi í hálsinn svo ég verði þorrablótsfær um helgina.

12.02.2008 23:03

Bráðum kemur betri tíð....

Ef veðurfræðingar eru hættir að ljúga þá er von á hlýindum og rigningu næstu daga svo það er ekki seinna vænna að setja inn snjóamyndir.  Það gekk vægast sagt hægt að hlaða inn myndum og Svanur orðinn pirraður svo hann dreif sig í pottinn. Ég laumast á meðan og skrifa smá klausu.  Það eru allir í sjöunda himni eftir hundanámskeiðið síðustu helgi og ætla auðvitað að byrja æfingar af miklum krafti. Mér heyrðist Svanur vera að reyna að semja um að fá eina stíu í hesthúsinu undir nokkrar ær, þannig að hann gæti æft sig á kvöldin. Ekki fannst mér viðbrögð Söðulsholtstemjara mjög jákvæð, alla vega ekki í fyrstu atrennu. Dóri og Iðunn sóttu sænska aðstoðartemjara um helgina, sú heitir jessika og mér skilst að það eigi að fara með hana á þorrablót Kolhreppinga um næstu helgi og kynna hana fyrir þorramat og íslenskum strákum. Þar sem hún er grænmetisæta hugsa ég að íslensku strákarnir hafi vinninginn.
Í skólanum er undirbúningur árshátíðar að hefjast. Nú á að sýna valda kafla úr Bugsy Malone og miðað við frábærar sýningar hjá krökkunum undanfarin ár, verður þetta örugglega flott hjá þeim. Mér skilst að nú sé leitað alls staðar að derhúfum og vestum.

ps. Komnar inn myndir af snjó og námskeiði.
Flettingar í dag: 361
Gestir í dag: 25
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417480
Samtals gestir: 37870
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 16:09:28
clockhere