29.02.2008 21:13

Afadagur.

 Það var hrollur í manni í morgunsárið á leiðinni í fjósið í skafrenningi og þæfingi og  þá er alltaf gott koma í róleg- og notalegheitin í fjósinu . Að morgunverkunum gengnum var rennt í hestamiðstöðina og þar settust niður hrossaræktendurnir í Dalsmynni ,Hrossholti og Söðulsholti og gengu frá lokaplönum að vali á stóðhestum á hryssurnar. Þetta voru miklar pælingar sem reyndar hafa staðið yfir í langan tíma um hvað hentaði hverju og að niðurstöðu fenginni var Einari falið að kanna hvort væri laust undir þá hesta sem átti eftir að panta undir. Hryssurnar sem verið er að temja og áætlað er að sýna í ár voru settar í biðstöðu hvað þetta varðar. Að þessu loknu greip ég dótturdóttirina með mér heim því nú er afadagur í dag. Eftir að hafa komið henni fyrir í dótahrúgunni sinni fór ég með kaffibollann að renna yfir fréttirna í tölvunni. Fyrr en varði var sú stutta komin ákveðin til augnanna, tók í mig og teymdi mig að sófanum , sló hendinni ákveðið í sætið og sagði "dedu" sem útleggst sestu. Þetta var sami tónninn og ég nota við hundana mína en henni lá nú samt töluvert lægra rómur. Að þessu loknu sótti hún bókina" víst kann Lotta að hjóla" og rétti mér hana . Þetta er sama bókin og ég las fyrir tvíburana,  móður hennar og móðubróðirr fyrir svo sem eins og 25 árum. Sem betur fer hafði hún ekki þolinmæði til að hlusta á lestur, svo það var rennt í gegnum myndirnar og dugðu 3 umferðir, þá gat ég laumað henni aftur í dótahrúguna. Þó kaffið væri orðið kalt var samt vaðið yfir fréttirna en það gafst ekki mikill tími því enn var hnippt í mig og augnsvipurinn var nú öllu ákveðnari. Enn var ég teymdur inn en nú að dótahrúgunni þar sem sú litla settist, leit íbyggin á afann sló í gólfið við hliðina á sér og sagði "dedu". Þá fór ég að velta fyrir mér hvað hefði verið í gangi fyrir 25 árum þegar tvíburunum var skutlað upp í efra hús "til ömmu".
Flettingar í dag: 374
Gestir í dag: 31
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417493
Samtals gestir: 37876
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 18:16:09
clockhere