Færslur: 2010 Mars

07.03.2010 23:11

Fræðasetur, byggið og andleg heilsa bloggarans.

  Ég heyrði það útundan mér að mín heittelskaða var eitthvað að ræða andlegt heilsufar undirritaðs í áhyggjutón við dóttirina.

 Orsök þess að hún skyldi venju fremur hafa áhyggjur af óstöðugri geðheilsu minni var sú, að ég hef setið löngum stundum við tölvuna um helgina og horft og hlustað á margvíslega fyrirlestra frá nýafstöðnu Fræðaþingi Landbúnaðarins. Sjá hér 

 Upphaflega var ætlunin að sjá fyrirlestrana um nýtingu búfjáráburðar, en það endaði nú með því að ég sökkti mér niður í flesta fyrirlestrana og á eflaust eftir að fara aftur yfir suma.

 Ekki er ólíklegt að sumir fyrirlesaranna fái símtal í framhaldinu enda er þetta nú nokkurskonar skotleyfi á þá.

 Það er algjör snilld hjá bændasamtökunum að gera þetta svona.

 Þegar ég byrjaði í byggræktinni komst ég fljótt að því að þetta yrði enginn dans á rósum, og eftir fyrsta árið gaf  ég mér 4 ár til að ná tökum á ræktuninni svo hún skilaði einhverju.


Söðulsholtsdbóndinn kampakátur í Pilvíakrinumsínum sem gaf toppuppskeru bæði í byggi og hálmi.

 Þegar þau voru liðin var mér orðið ljóst að ég yrði seint ríkur á byggræktinni en hélt áfram að bíða eftir metárinu sem myndi rétta af meðaltalið.

 Það kom s.l. haust en þá var mér hinsvegar hinsvegar löngu orðið ljóst að það þyrfti fleiri og styrkari stoðir undir þessa ræktun ef hún ætti að lifa af á þessum veraldarhjara hér.

 Hrunið breytti mörgu og m.a. varð hálmurinn allt í einu orðinn því verðmætari sem innflutti spænirinn hækkaði í verði.

 Það kom reyndar á óvart að það þurfti að hafa nokkuð fyrir því að koma á viðskiptum með hálminn.

 Menn höfðu lent í allskonar hremmingum við hálmnotkunina fyrst og fremst fyrir það að gæðin voru afar misjöfn.

 En þolinmæðin þrautir vinnur allar og nú stefnir í að við séum komnir með viðskiptasambönd sem duga okkur þennan veturinn.



Við böggum hálminn úr rúllunum og hendum öllu vafasömu frá enda eru þetta kvörtunarlaus viðskipti.


  Á góðu hálmhausti stefnir í að hálmuppskeran muni verða verðmætari en bygguppskeran.

Gæsaveiðin kemur líka til með að vigta í dæminu og nú er stefnt að útleigu á ökrunum sem gæti jafnast á við leigu á lítilli bleikjuá.

                                  Svona hópur kemur blóðinu á hreyfingu í gæsaskyttunum.

 Gangi þetta eftir kemur áhættan til með að jafnast skemmtilega út.

Fjúki allt byggið niður verður góð gæsaveiði og hálmurinn ætti líka að nást.

 Náist þetta allt þá kemur góð uppsveifla á meðaltalið.emoticon

Það þarf að vísu nokkurra ára uppsveiflu til að rétta dæmið af.emoticon

En hvað eru nokkur ár á milli vina?emoticon

05.03.2010 22:15

Vorboðarnir, sáðbyggið, áburðurinn og prúttið.

Nú er kominn sá tími að mann er farið að hungra og þyrsta eftir vorinu og sumrinu.

 Og hverjum vorboða er tekið fagnandi og stundum gert mikið úr litlu.

Lægðin sem er að bögga okkur núna gæti t.d. verið fyrsta vorlægðin o.sv.frv.

 Einn af þessum pottþéttu vorboðum er hann Elías hjá Líflandi sem hringdi í mig í dag, svona til að minna á frækaupin fyrir vorið.

 Við félagarnir í byggræktinni erum trúlega góðir viðskiptavinir enda oft að versla okkur um 20 tonn af sáðbyggi sem er tekið í einum sameiginlegum  pakka.

Því miður er sænska gengið að stríða okkur og hækka fræið um 12-15 % frá fyrra ári sem er a.m.k. 12- 15  % of mikil hækkun því nú hefðum við viljað sjá lækkandi tölur bæði í fræi og áburði. 


 Já, já , það styttist óðfluga í sáninguna þó ekki sé búið að ákveða endanlega hektarfjöldann sem sáð verður í.

 Stærsti gallinn sem ég hef fundið við hann Elías er, að það er ekki fyrir fj. sjálfan að hagga honum í prúttinu, enda komst  Einar lítið  með hann þegar við ætluðum að þjarma að honum í upphafi viðskipta.

  Svo eru áburðarverðin komin fram í dagsljósið og gengur mönnum alveg þokkalega að halda aftur af gleði sinni yfir þeim tölum.

 Hafi upplýsingarnar um lækkandi áburðarverð erlendis átt við rök að styðjast er ljóst að sú lækkun hefur horfið í hafi. Enda alltaf vitað að margt getur gerst á langri leið.
 
 Ef ég væri aðeins yngri og sprækari myndi ég safna saman nokkur hundruð tonna pöntun og gera áburðarsölunum lífið leitt, því ýmislegt bendir til þess, að þar sé innistæða til einhverrar lækkunar.

 Ég verð allavega mun verri við þá í komandi prútti, en hann Elías í Líflandi þó hans tími muni koma áður en lýkur.

  Nú er bara að loka áburðaráætluninni, ákveða hektarafjöldann í bygginu og svitna aðeins við að skoða kostnaðartölurnar við þetta ævintýri.

Já, mikið held ég nú að það sé skemmtilegt sumar framundan.emoticon  

03.03.2010 21:15

" Þróttmikið " Búnaðarþing og ímyndin.

 Nú er Búnaðarþingi lokið, búið að hressa upp á stjórnina og örugglega verið samþykkt fullt af skynsamlegum ályktunum og tillögum. 

Mér varð hugsað til þess þegar verið var að vasast í bændapólitíkinni í gamla daga, þegar kom að stjórnarkjöri upphófst mikið púsluspil.

 Það þurfti að gæta þess að landshlutarnir ættu sína fulltrúa í stjórn  Stéttarsambandsins.
Það þurfti  svo að gæta þess vandlega að stjórnarmenn skiptust í rétta pólitíska flokka.

 Ég minnist þess nú reyndar ekki að hagsmuna kratanna væri gætt á þessum vettvangi.

 Á þeim tíma þurftu menn hinsvegar ekkert að hafa áhyggjur af kynjaskiptingu í stjórninni því betri helmingar okkar fulltrúanna voru að sjálfsögðu heima að sinna búinu með einni eða tveimur undantekningum .

 Gaman væri að vita hvernig stórnarkjörið er dílað í dag.

 Gamli kúabóndinn í Dalsmynni er himinlifandi yfir því að kúabændur eiga 5 fulltrúa af 7 í stjórninni.

Það er ljóst að sólin sest ekki hjá okkur kúabændum fyrr en um 23 des. n.k. í fyrsta lagi.

 Gamli rollubóndinn í Dalsmynni er hinsvegar alveg arfavitlaus yfir því að sauðfjárbændur eiga ekki nema einn fulltrúa í þessari 7 manna stjórn.

 Þetta gengur náttúrulega ekki.

Reyndar var mér bent  á það, að þetta yrði nú kannski til þess að rollubændurnir myndu frekar lifa af komandi hörmungar í landbúnaðinum en ég tek náttúrulega ekki undir slíka vantrú á þessari þróttmiklu forystusveit okkar.

 Og formaðurinn okkar stóð sig bara nokkuð vel í kastljósinu í gærkveldi og ég trúði því oft, að hann tryði mestöllu sem hann hélt fram þar.

 Viðtalið við þær Lárusdætur fyrrverandi heimasætur í Kirkjubæjarklaustri í útvarpinu í dag, var svo ekki síður öflugt fyrir brothætta ímynd bændastéttarinnar.

 En ekki orð um þingið meira. emoticon 

 Ég fékk póst frá góðum kunningja í gær með ávítum fyrir slaka frammistöðu í bloggafköstum síðustu daga.

 Þar sem þessi ágæti lesandi minn hefur hvorki commentað né skráð sig í gestabók frá upphafi eyddi ég póstinum hans með brosi á vör.emoticon
Flettingar í dag: 1459
Gestir í dag: 142
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 403200
Samtals gestir: 36639
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 23:21:17
clockhere