Færslur: 2010 Mars

23.03.2010 21:45

Sindri frá Keldudal.

   Tamningarliðið sem hefur verið frekar fámált þegar spurt er um ganginn í tamningunni á Sindra frá Keldudal, brosti út í bæði þegar ég heimtaði úttekt á honum, í rokinu í dag.

http://www.youtube.com:80/watch?v=Wu7iIxqQ2c0


 Ég brosti a.m.k. út í annað í úttektarlokin.emoticon

21.03.2010 23:12

Áfangi í fjárhundatamningu. Flottar myndir.

 Stundum kemur til mín fólk til að sýna mér mér hvolpinn sinn sem er gjarnan kominn á tamningaraldur.

 Ástæða heimsóknarinnar er sú að það heldur að ég viti eitthvað meira en það,  um hundatamningar og geti eitthvað spáð fyrir um framtíð hvolpsins sem fjárhundsefni.

  Þá geri ég mig eins gáfulegan og mér framast er unnt og verð mjög spámannslegur í röddinni þegar ég legg eitthvað út af framkomu hundsins við kindurnar.


Ég hef eflaust  haldið langar ræður um væntanlegt ágæti þessarra hvolpa á þeim tíma sem myndin var tekin.

  Eitt af þeim ráðum sem ég gef viðkomandi er að þau skuli í upphafi tamningarinnar setja sér
ákveðin markmið með hvað fjárhundurinn þeirra eigi að kunna áður en lýkur.
Það fer svo eftir bæði upplagi hundsins en þó oftar eftir ástundun eigandans við kennsluna, hvort markmiðin nást.

 Ég tilheyri þeim stóra og sem betur fer sístækkandi hóps fjárhundseigenda sem gera mjög ákveðnar kröfur til hundanna sinna og eru til búnir að leggja á sig þá vinnu sem þarf, til að ganga þá leið til enda.

 Það var tamningin á henni Dáð frá Móskógum sem ég var að taka út á laugardagsmorguninn og Iðunn var að sjálfsögðu mætt með myndavélina.



 Dáð er ársgömul síðan í júní.  Foreldrarnir, Mac í Eyrarlandi og Dot í Móskógum, eru bæði flutt inn mikið tamin svo segja má að hún sé alveg óskyld öðrum BC landsins nema þeim sem útaf foreldrunum hafa komið síðan. 

 Þó tamningin hefði farið mjög seint af stað vegna þess að mér fannst hún ekki vera tilbúin fyrr en um 10 mán gömul hefur þetta gengið vel.

 BC-hundar eru ákaflega misjafnir í tamningunni og mjög misjafnt hversu hratt námið gengur þó því sé vel sinnt.

 Dáð er ákaflega, fljót og auðtamin og alveg yfirgengilega hlýðin svo ég hef bara einu sinni áður kynnst öðru eins.



 Það var byrjað á að kenna henni að fara fyrir og koma síðan með kindurnar í lágu gírunum.
Þá er betra að hún fari hæfilegan sveig framfyrir hópinn og sé síðan ekki að vinna alltof nálægt honum og þetta hafði hún allt í genunum.



 Fagurkerarnir í hundafræðunum leggja síðan mikið uppúr því að hundarnir skríði við ákveðnar aðstæður og þó ég sé nú ekki mikill bókstafstrúarmaður í því, er ég samt ekki jafn forstokkaður og skagfirðingurinn sem gerði bara þær kröfur til hundanna sinna að þeir væru nógu dj. fljótir að komast fyrir rollurnar. Og kæmu svo nógu helv. hratt með þær.



 Henni var síðan kennt að hlýða hægri og vinstri skipunum í blindni og að snarstoppa þegar hún var beðin um það.



 Hún verður að sjálfsögðu að kunna að reka hópinn þráðbeint í þá átt sem hausinn á henni vísar þegar skipun um það er gefin, og allt verður þetta að gerast á hæfilegum hraða .



 Ef hundarnir ráða ekki við að koma stöðum kindum af stað eru þeir lítils virði í harkinu og Dáð ætlar að standa vel undir væntingum hvað það snertir.



 Þessar rollur eru að vísu ekki staðar en þarna fékk hún skipun um að " taka í ". Ég hef reyndar aldrei séð það fyrr, en hún leitast við að fara yfir hornin á þeim og taka í hnakkann eða ofan í hálsinn en vonandi áttar hún sig á því, að það er heillavænlegra að fara bara beint í sviðin á þeim forhertustu.


Hér skellir hún sér niður við skipun, í miðjum snúning og það er allt í fínu lagi með framlöppina á henni.

 Já þessi tík sem verður tveggja ára í sumar er komin ágætlega á veg og verður góður fjárhundur ef henni endist líf og heilsa. Ég held svo að ég hafi aldrei eytt jafn litlum tíma í jafn mikinn árangur í hundatamningum og hjá þessu dýri. 

Það er þó talsverð vinna eftir en það er enginn verkkvíði fyrir henni.

Já , kannski á Hilmar í Móskógum eitthvað eftir af hvolpum úr síðasta goti?emoticon 

20.03.2010 22:46

Rúningi lokið.

 Það er alltaf jafnmikill léttir þegar rúningi er lokið hvort heldur er að haustinu eða snoðhreinsunin miðsvetrar.

 Þó féð sé fátt þá er ég of gamall og sá yngri of latur til að rýja.

Þessvegna reynum við að níðast á einhverjum bóngóðum, til að klippa rollurnar fyrir okkur.

Þar sem við förum aldrei af stað að leita að rúningsmönnum fyrr en allt er komið í óefni, verða þetta árvissar skelfingar með magasárum og andvökunóttum þar til málin leysast einu sinni enn.

 Það var Þórður í Mýrdal sem bjargaði okkur í þetta sinn. Hann var svo snöggur að þessu, að það tók því varla fyrir hann að byrja og Dalsmynnisbóndinn ( sá yngri) hafði varla við að leggja rollurnar fyrir hann.

          Hann þurfti að hægja sérstaklega á sér svo klippurnar næðust á mynd.

 Enda var gerður við hann 10 ára rúningssamningur, en þá má gera ráð fyrir að  Tumi bróðir hans taki þetta yfir.


                   Tumi og Þórður í rokkinu og rólinu að safna árum og kröftum fyrir rúninginn.
 

 Þá verður kannski búið að fjölga fénu svo, að Þórður Már fái vinnu líka við þetta skemmtilega og gefandi starf.


        Þessi ætlaði að fá byggskammtinn sinn og skyldi ekkert í þessum ljósagangi.


 Það er skilið aðeins eftir aftaná fullorðna fénu svo þær og bóndinn haldi heilsu þó vorið verði eitthvað kalsamt. Hér er átt við geðheilsu bóndans sem má ekki við miklu eins og vitað er.

 Flestar ærnar ná að hreinsa þetta af sér yfir sumarið. Hinar fá sérsnyrtingu fyrir haustrúninginn.



 Gemlingarnir voru hinir ánægðustu, sérstaklega sú gráa  afastelpunnar, sem er frá henni Hefu-ömmu í Kolviðarnesi.

 Og Þórður er svo bókaður í rúninginn 26 nóv. nk.emoticon

Flettingar í dag: 260
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418107
Samtals gestir: 37974
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 16:47:43
clockhere