Færslur: 2009 Nóvember

24.11.2009 23:38

Fauskáskelda, steinar, Vikur eða Nykurtjörn?

 Ég var mættur  á slaginu 10 í morgun í Landlínum að setja landamerki Dalsmynnis inná kort  og ákveða hvar þörf væri á hnitsetningum til öryggis.

 Það reyndist nú bara vera á einum stað þar sem sjónlínur mætast í stein í austanverðu Dalsmynnisfellinu sem talin var þörf á hnitsetningu, hitt væri allt nokkuð ljóst.

 Þó manni hafi verið bent á landamerkin í bernsku hafði nú aldrei verið legið yfir landamerkjabréfum og örnefnum tengdum þeim og ekki laust við að manni þætti orðalagið stundum skrýtið  á sumum bréfanna sem legið var yfir í dag.


 Landamerkjabréf fjallajarðanna hér í sveitinni lokuðust alltaf með línum í einhverja fjallstoppa  og síðan " eftir fjallseggjum " eins og sagði gjarnan í bréfunum.

 
Eftir að hafa lokið minni hlið á merkjum  Dalsmynnis heimsótti ég gamlan sveitunga, því ég hafði tekið að mér að koma inn landamerkjum á aðalskipulagstillögurnar, fyrir 4 eyðijarðir í austurhluta sveitarinnar. Ég hafði áður verið fullvissaður um að slík landamerki á aðalskipulagi hefðu ekkert lagalegt gildi gagnvart seinni tíma kynslóðum.

 Eftir að hafa farið yfir landamerkjabréfin ákvað ég að fá fyrrverandi Höfðabónda, Sigga Odds í lið með mér frekar en fara um svæðið og dýrka upp gömul örnefni sem ég vissi ekki nákvæmlega hvar voru.

 Enda varð okkur ekki skotaskuld úr því að strika nokkrar línur á kort þrautreyndir í því frá gamalli tíð,  ýmist að búa til vandamál eða leysa þau.

 Og ég held að línurnar hafi flestar verið býsna nærri lagi hjá okkur.



 Hér í lægðinni í hrauninu rennur Fannáin sem skiptir landi milli Y. Rauðamels og Gerðubergs.
Samkvæmt landamerkjabréfinu kemur hún úr Vikurtjörn. Það er held ég óumdeilt að hún kemur úr Nykurtjörn.

Lang - lang stærst þessara jarða er Ytri - Rauðimelur sem er ein af landstærstu jörðum  á Vesturlandi og blóðugt að hún skuli hafa verið lögð í eyði.
  Á landamerkjabréfi fyrir vesturhlið Rauðmels var syðsta örnefnið Fauskáskelda, norðar var svo vitnað í Skálmarkeldu sem lá frá  Miklholti og uppundir  "þjóðveg" .

 Við Siggi vorum nú  harðir á því að Skálmarkeldan og Miklholtið lægi ofar , norðar þjóðvegar og skildum ekkert í þessu, fyrr en lesin var dagsetningin á landamerkjabréfinu sem var frá 1885. Samkvæmt því hefur þjóðleiðin meðfram Gerðuberginu á þeim tíma verið kallaður þjóðvegur.

Og flóinn sem núverandi þjóðvegur liggur um var náttúrulega ósnortið votlendi á þeim tíma.,

 Já það er öruggast fyrir landeigendur að drífa í því að hnitsetja
landamerki áður en örnefnin týnast.emoticon

22.11.2009 23:39

Hundalíf og h....... rok.

Sem betur fer hefur hitastigið haldið sig yfir frostmarki að deginum í þessu hávaðaroki sem er að hamast á okkur  sem búum í sælunni á sunnanverðu Nesinu,  þessa dagana.

 Næsta vika á svo að verða síðasta stressvikan í haust enda hefur mörgu verið komið í verk, aldrei þessu vant. Svo er góðu tíðinni fyrir að þakka.

 Og hundarnir sem oft væru búnir að svitna í haust ef þeir á annað borð gætu það, sjá líka fram á rólegri daga.



 :Þó Vaskur megi ekki taka þátt í að smala kúnum í biðplássið fylgist hann alltaf vel með því ef eitthvað skyldi nú bjáta á. 

 Alltaf jafn áhugasamur þó skrokkurinn sé ekki til jafn mikilla afreka og fyrrum.



 Og þrátt fyrir að Snilld sé vel af guði gerð hvað fótagerð varðar ( Dalsmynnisræktunin) og verður aldrei sárfætt hvað sem á gengur, tjónaðist hún í dag.



 Hún lenti í því að koma vitinu fyrir heilaskert fyrirbrigði af Austurbakkanum og er það hvorki í fyrsta né síðasta sinn sem þess gerist þörf.

 Þetta kostaði allnokkur átök og  nú er farið um á þremur og gott að eigandinn á hunda til skiptanna í lokasprett fjárragsins.



 Og hérna sjáið þið alvöru fótagerð sem aldrei verður sárfætt þrátt fyrir óhugnanleg átök sem þessum fótum hefur verið boðið upp á gegnum tíðina.



 Ég ætla svo engu að spá um hvernigi fótagerðin hér fyrir ofan á eftir að reynast en margt bendir til  þess að það eigi eftir að reyna duglega á þessa fætur  áður en lýkur.


 Kannski verður svo júgurgerð landnámskúnna tekin fyrir fljótlega.emoticon



19.11.2009 23:35

Allt að róast í sveitinni - bráðum.

 Já, tíðarfarið er búið að vera virkilega fínt undanfarið og þó lognið hafi verið á ákaflega góðri siglingu undanfarna daga lygndi í gær. Það kom sér vel,  því loksins var plægingu lokið þetta haustið og plógurinn því þrifinn og smurður . Hann fær síðan vetrarvist í upphitaðri vélageymslu enda snilldarverkfæri sem á bara það besta skilið.


 Pöttingerinn er meiriháttar skemmtilegur í plægingunni en þar sem mýrarakrarnir  verða stundum mjúkir yfirferðar var valin extra léttbyggður og meðfærilegur  vendiplógur. Vökvaskekkingunni og öllu óþarfa prjáli sleppt þó vökvaútslættinum væri haldið.

 Haughúsdælan var tekin upp í leiðinni, og þrifin .  Nú ákváðum við að setja örflóru í haughúsið og verðum gaman að sjá hvort það hefur einhver áhrif þegar kemur að því að hræra upp í apríl.

 Plæginguna endaði ég á um 5 ha. túni sem væntanlega verður í byggrækt næstu tvö árin .

 Nú er loksins verið að ýta út ruðningum á spildum sem verið er að taka undir bygg til að byrja með en munu enda sem tún. Það verk hefur átt að vinnast síðustu tvö haust.



 Ef tekst að ljúka því í haust munu bætast við akrana um níu ha. Það gæti þýtt verulega aukningu í byggrækt næsta árs.

 Ef áætlanirnar ganga upp með afsetninguna á umframhálminum í vetur, munu hálmurinn og gæsaveiðin skjóta styrkari stoðum undir þessa ræktun og auka verulega líkurnar á bærilegri afkomu.

 Já, þó mesta hauststressið sé búið hefur dregist of lengi að kippa ullinni af lömbum og veturgömlum.
 Hópurinn er ekki stór en þegar kemur að rúningnum verða bændurnir aumir í baki og öxlum og nefndu það bara.
 
Enda frestur á illu bestur eins og allir sannir bændur vita. 

  En allir frestir taka enda og nú styttist í að reifin fjúki af fénu og allt verði tekið á hús, enda  fengitíð og sæðingar að bresta á.

 En ekki fyrr en eftir helgi því nú er endalaus gleði framundan.emoticon

Flettingar í dag: 294
Gestir í dag: 54
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418141
Samtals gestir: 37984
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 19:58:50
clockhere