Færslur: 2008 Nóvember

11.11.2008 23:07

Túnin lituð í svörtu!


  Við feðgarnir bitum á jaxlinn og bölvuðum bæði hátt og í hljóði rokinu í gær. Við létum okkur samt hafa það að dreifa mykjunni enda gert ráð fyrir nýtingarleysi á köfnunarefninu á þessum árstíma.  Austur á Selfossi stóð alvörudót til niðurfellingar á mykju sem hefði virkað vel og okkur stóð til boða,( hefði  kostað alveg fullt af tíuþúsund köllum) en það hefði orðið dálítið mikið fyrirtæki að koma því í kring. Miðað við áburðarverðið og toppnýtingu mykjunnar verður þetta samt áhugaverður kostur í framtíðnni.



  Við notuðum því gömlu aðferðina og keyrðum út með litla dreifaranum okkar
Jóns (5 t.) og leigugræjunni frá Magga í Ásgarði ( 15 tonna).

    Það er talsverður afkastamunur á þessum tækjum. Það er svo alveg ótrúlega magnað að 150 ha. vélin með 15.000 l. í tanknum fer betur með grasrótina á túnunum en sá 60 ha. með 5000 lítra mykjutankinn. Enda er fyrrnefnda samstæðan á stærstu dekkjum sem hægt er að troða undir hana.
  Í kvöld var svo komið á milli 5-600 tonn af dökku litarefni á megnið af túnunum og nú eru allar stórrigningar illa séðar í bráð.

   Túnflötin sem hentar fyrir fjárhundakeppnir var samt skilin eftir ólituð, ef Þóra skyldi skella á keppni næsta laugardag. 



  Og þarna erum við Vaskur að velta fyrir okkur hvernig eigi að landa íslandsmeistaranum 2007.
 

09.11.2008 20:09

Annasöm helgi.


  Það er nokkuð ljóst að helgarnar eru alltof fáar og ótrúlegt hvað allskonar verkefni hlaðast á þær.

  Yngri bóndinn brá sér með mági sínum vestur/norður í Bitrufjörð í gær að elta hænsfugla upp um fjöll og hálsa.


Þar hlýtur að hafa verið krökkt af fugli því 24 lágu eftir daginn. Þar bættist að vísu sá þriðji í hópinn svo 10 fugla kvótinn var ekki fylltur.
  Þó þessar séu í felulitunum voru það ekki þær, heldur frænkur þeirra sem lenti í eldlínunni í gær.

  Meðan  þeir soguðu að sér tært fjallaloftið mátti ég dunda mér við að hræra upp í aðalhaughúsi búgarðssins og það var býsna fátt sem minnti á hreinleika fjallanna í því starfi.

  Já nú er stress í gangi að tæma haughús fyrir veturinn. Ef það tekst, eiga þau síðan að duga fyrir úrgang búpeningsins fram á vor en þá endurtekur stressið sig, með að koma mykjunni á túnin á réttum tíma. Og nú er búfjáráburðurinn alltíeinu orðinn mikils virði og mikilvægt að hann komist á tún á hárréttum tíma á vorin.
  Í dag var síðan valsað bygg fyrir næstu 2 vikur( yngri bóndinn) og sóttur 15 tonna mykjudreifari suður í Borgarfjörð (ég) sem leigður er í verkið. 
Smalahundakeppnin sem átti að vera hjá mér í dag, frestaðist (eða féll niður) og mann bæði sveið og klæjaði, með þær málalyktir.

  Það verður síðan tekið rækilega á því á morgun og mikil peningalykt í loftinu.emoticon

08.11.2008 20:11

" Dulin verðmæti."


  Já, það var erfiður dagur hjá okkur feðgunum þegar við tókum á okkur rögg og fórum í stórtiltekt í vélageymslunni.
  Þegar vélageymslan og verkstæðið var byggt fyrir um 15 árum fannst mér þetta vel ílagt og trúði því að meðfædd framsýni og spádómshæfileikar sæju til þess að þetta myndi nú duga  mér út búskapinn. Nú er staðan sú að sá ofvöxtur sem hljóp í vélar og tæki urðu til þess að dyrnar hefðu þurft að vera metranum hærri og breiðari. Sama á við um vegghæðina. Þrátt fyrir þetta hefur nýtingin á vélageymslunni verið svo góð að ákveðið var að fara gaumgæfilega í gegnum öll dýrmætin sem þar hafa lent í tímans rás og reyna að úrelda endanlega sem mest.
 Þarna kom satt að segja margt fróðlegt í ljós og ljóst varð, að kannski hefði húsnæðið betur verið nýtt í upphaflegan tilgangi þess heldur en að gera það að heimildarsafni um genginn vélaflota.

 Viðhorfin hjá okkur feðgunum voru svo nokkuð ólík til þessarra verðmæta. Ég hafði nokkrar taugar til þess sem hinn leit á sem algjört drasl, meðan hann handlék afganginn úr bílasmíðinni í vetur með tregablöndnu augnaráði. Já sem betur fer var stutt í járnagáminn.

 Þegar við náðum svo inn í hornið hægra megin í skemmunni komum við að Deutzinum sem þar hafði staðið hreyfingarlaus í 3 ár. Hann er ekki nema 40 ára gamall. Það rifjaðist margt uppfyrir mér þegar hann hrökk í gang rétt eins og honum hefði verið lagt þarna í gær.
 Þessi 40 ha. vél var engin smásmíði þegar hún kom í sveitina og mikið er búið að bjóða henni gegnum tíðina.

    Áburðurinn kominn inn og járna og ruslagámarnir búnir að fá sitt. Gamli minn er nú ekki á leiðinni þangað.

         Þegar ég barmaði mér sáran yfir þessum tjónadegi við nágrannann vottaði ekki fyrir samúð hjá honum.

  
Þrátt fyrir að yngri bóndinn hefði leitt hann í gegnum þessa sömu aðgerð fyrir tveimur dögum og þurft að beita mikilli harðfylgni til að ná ásættanlegum árangri.

  Ég er ekki frá því að hafa goldið þess að núna var vanur maður á ferðinni
.
.emoticon 


      

 
Flettingar í dag: 43
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403257
Samtals gestir: 36640
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 02:53:12
clockhere