08.11.2008 20:11

" Dulin verðmæti."


  Já, það var erfiður dagur hjá okkur feðgunum þegar við tókum á okkur rögg og fórum í stórtiltekt í vélageymslunni.
  Þegar vélageymslan og verkstæðið var byggt fyrir um 15 árum fannst mér þetta vel ílagt og trúði því að meðfædd framsýni og spádómshæfileikar sæju til þess að þetta myndi nú duga  mér út búskapinn. Nú er staðan sú að sá ofvöxtur sem hljóp í vélar og tæki urðu til þess að dyrnar hefðu þurft að vera metranum hærri og breiðari. Sama á við um vegghæðina. Þrátt fyrir þetta hefur nýtingin á vélageymslunni verið svo góð að ákveðið var að fara gaumgæfilega í gegnum öll dýrmætin sem þar hafa lent í tímans rás og reyna að úrelda endanlega sem mest.
 Þarna kom satt að segja margt fróðlegt í ljós og ljóst varð, að kannski hefði húsnæðið betur verið nýtt í upphaflegan tilgangi þess heldur en að gera það að heimildarsafni um genginn vélaflota.

 Viðhorfin hjá okkur feðgunum voru svo nokkuð ólík til þessarra verðmæta. Ég hafði nokkrar taugar til þess sem hinn leit á sem algjört drasl, meðan hann handlék afganginn úr bílasmíðinni í vetur með tregablöndnu augnaráði. Já sem betur fer var stutt í járnagáminn.

 Þegar við náðum svo inn í hornið hægra megin í skemmunni komum við að Deutzinum sem þar hafði staðið hreyfingarlaus í 3 ár. Hann er ekki nema 40 ára gamall. Það rifjaðist margt uppfyrir mér þegar hann hrökk í gang rétt eins og honum hefði verið lagt þarna í gær.
 Þessi 40 ha. vél var engin smásmíði þegar hún kom í sveitina og mikið er búið að bjóða henni gegnum tíðina.

    Áburðurinn kominn inn og járna og ruslagámarnir búnir að fá sitt. Gamli minn er nú ekki á leiðinni þangað.

         Þegar ég barmaði mér sáran yfir þessum tjónadegi við nágrannann vottaði ekki fyrir samúð hjá honum.

  
Þrátt fyrir að yngri bóndinn hefði leitt hann í gegnum þessa sömu aðgerð fyrir tveimur dögum og þurft að beita mikilli harðfylgni til að ná ásættanlegum árangri.

  Ég er ekki frá því að hafa goldið þess að núna var vanur maður á ferðinni
.
.emoticon 


      

 
Flettingar í dag: 58
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 788
Gestir í gær: 126
Samtals flettingar: 419803
Samtals gestir: 38209
Tölur uppfærðar: 28.4.2024 11:07:15
clockhere