Færslur: 2008 Febrúar

26.02.2008 23:13

Að líta um öxl.


 Já það var haldið námskeið í reiðmennsku um helgina í Söðulsholti. Meðal þess sem Maggi Lár fór yfir var það sem félagi minn kallaði skíðahreyfinguna. Ef höfði og öxlum er snúið t.d. til hægri þá beygja skíðin/hrossin til hægri o.sv.frv. Þetta gekk vel þar til kom að einum nemandanna þá bauð hreyfigetan illa upp á snúninginn og þegar Magnús jók brýninguna byrjaði að braka í öllu. Við félagarnir kunnum óðara skýringuna á þessu, því viðkomandi er mikill ferðagarpur á hrossum og er búinn að flengjast um landið þvert og endilangt í hrossaferðum. í þessum ferðum er hann jafnan fremstur í forreiðinni og markast ferðahraðinn af því hversu vel ríðandi hann er. Hann hefur það fyrir grundvallareglu að líta aldrei um öxl og þegar vandræði verða í eftirreiðinni sem kemur oft fyrir bætir hann í ferðina frekar en hitt.Séu veruleg vandræði í uppsiglingu og ámátleg neyðaróp rekstrarmanna gerast úr hófi hávær herðir hann reiðina sem mest hann má, þar til hann stoppar  í áætluðum áningarstað.

 Þessi stirðleiki minnir mig á söguna af Trausta vini mínum í Skógarnesi sem er að dunda við það á efri árum að gæda ferðamenn um fjörurnar. Hann er eftirsóttur í það enda mikill öðlingur heim að sækja. Hann tók eitt sinn sem oftar að sér að leiðsaga hóp frá Skógarnesi að Stakkhamri .Fjaran bíður ekki segir máltækið og ekki hollt að slugsa mikið í áningum í fjöruferðum. Hópurinn sem var seint fyrir og þurfti að hvíla hestana eftir innreksturinn og hvíla þá enn betur á áningastöðunum og þegar lagt var á fjöruna undan Laxárbakkavíkunum sýndist mönnum álarnir eitthvað hafa breikkað. Að sögn heimildarmanns míns sem er ákaflega traustur sem slíkur, þegar kemur að frásögnum af svaðilförum, var samt látið vaða og skipti engum togum að allt fór á hrokasund. Kom sér nú vel hversu vel hvíld hrossin voru. Fannst mönnum um tíma að þeir væru komnir út á Faxaflóa og leist þeim ekki á blikuna. Trausti sem var fremstur vildi nú fylgjast með hvernig samreiðarmönnunum farnaðist á sundinu en þá kom í ljós að þessi stirðleiki í snúningnum á hálsi og hrygg þjakaði hann líka. Hann gerði sér þá lítið fyrir og sneri klárnum á sundinu , leit rannsakandi yfir hópinn sneri síðan aftur við og leiddi þá farsællega til lands. Þótti malbiksmönnunum þetta firn mikil . Óþarft er að taka fram að þegar landi var náð voru hrossin hvíld mjög rækilega.

25.02.2008 23:34

Vantalin framleiðsla.

   Rúnar dýralæknir kom í dag. Ekki til að kíkja á Atla sem er óvinnufær,  heldur á kú sem í þriðja sinn er að fá "bráðasúrdoða" sem hefur verið svo til óþekkt fyrirbrigði hér.
 Hinn hefðbundi súrdoði heldur sér sem betur fer algjörlega til hlés enn.7-9-13..
Þessi ágæta þrautræktaða kú er neðarlega í goggunarröðinni og leikur grunur á að hún fái ekki matfrið í kjarnfóðurbásnum. Þeir sem alltaf eru að finna eitthvað nýtt upp af dóti fyrir bændurnar ættu að drífa í því að betrumbæta kjarnfóðurbásinn þannig að sú sem inní hann fer, sé varin fyrir frekjudósunum. Stundum tek ég rögg á mig og veð í uppsafnaðan letivanda og í dag var mjaltabásinn tekinn í gegn og spúlaður en það á að gerast vikulega samkvæmt skipuritinu.
 Þá barst í dag ákaflega merkilegt bréf frá Búvest . Þar kom fram að innlögð mjólk á siðasta verðlagsári var um 6.000,l. meiri en mæld mjólk hjá búinu. Við þennan mismun bætist síðan  mjólk til heimanota (kálfar og fólk) ásamt júgurbólgumjólk sem hellt er niður o.sv.frv. Já annaðhvort eru mælarnir á búinu eða á bílnum eitthvað dularfullir. Það var nú munur í gömlu góðu dagana þegar bætt var 5-10 % ofan á handvirku mælingarnar við skráninguna ,þá komu nú ekki upp svona vandamál.
 Rétt til að vera skemmtilegur í lokin er aftur kominn vetur og lausi snjórinn hefur verið á góðu skriði framhjá í dag á leið til sjávar.

24.02.2008 22:55

Töfradrykkurinn.

 Alltaf þegar ég kemst upp fyrir túngirðinguna hjá mér er einsog tilveran breytist aðeins og einhver tilfinning sem ekki er hægt að lýsa hellist yfir mann. Ég skynjaði þetta sterkt í dag þegar ég brunaði yfir girðinguna þar sem hún lá undir 2 m. skafli, á alvörusleðanum hans Atla sem var svo veikur ( helv. hálsbólgan)  að hann lagði ekki í snjósleðaferð. Og það verður að viðurkennast að viðbrögðin á benzíngjöfinni á sleðanum og olíugjöfinni á fjórhjólinu sem ég hafði verið að þvælast á um morguninn eru ,ja, svona dálítið ólík. Núpáin var alauð frá upptökum og skar í sundur snjósleðalandið en það var í lagi. Það var damlað á nokkrum mínútum upp að Svörtufjöllum og inn með þeim að vestanverðu. Stoppað á Sjónarhæðinni og horft yfir Tungurnar. Ég var ekki hár í loftinu þegar ég smalaði fyrst þarna með systkinunum.  Seinna þegar ábyrgðin og hlaupin færðust yfir á mig af auknum þunga fann ég þarna uppsprettu í gili sem hafði undraverð áhrif. Það var sama hvað ég var þreyttur, eftir að hafa svolgrað í mig uppsprettuvatnið fyllist ég orku og krafti sem entust mér til loka leitarinnar. Mörgum, mörgum árum seinna þegar ég las myndasögurnar um Gallana þá ,Andrík ,Sjóðrík,Steinrík og alla hina uppgötvaði ég hvað rann uppúr lindinni góðu. Nú er allri leitartilhögun breytt í Tungunum, ég smala þær einn í stað þriggja áður og hef ekki komið að lindinni árum saman. Kannski væri rétt að sækja  svosem eins og 50 lítra í hana að ári og gefa Austurbakkamönnum til að auka úthald þeirra á þorrablótinu.
 Eftir þessar uppflettingar á harða diskinum var dólað austur fyrir Svörtufjöllin og innundir Hest. Þar þveraði ég refaslóð, þá fyrstu eftir að ég fór uppúr dalnum.
 Þar var aftur stoppað athugað í hvora áttina rebbinn fór. Það var þungt færi og óskiljanlegt hvað hann er að þvælast þarna uppi á fjallgarðinum þar sem ekki sést einu sinni hrafn á flugi. Trúlega veit hann ekki hvað uppnám ríkir í röðum ljósaveiðimanna.  Fyrir mig var það hinsvegar ólýsanleg upplifun að vera þarna aleinn í algjörri auðn, logni og sól. Pínulítið mannkerti milli Þrífjallanna og Hestsins og göngufærið vonlaust ef sleðinn færi ekki í gang.

  Sem sagt stórfínn dagur.

 
Flettingar í dag: 1746
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806879
Samtals gestir: 65286
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 10:14:41
clockhere