Færslur: 2008 Janúar
07.01.2008 12:03
Sæla og hamingja.
Ég er oft spurður að því hvað ég segi eða hvað sé að frétta o.sv.frv.
Oftast er ég skjótur til svars og segi allt fínt eða í sveitinni sé tóm sæla og hamingja og allt fullt af peningum eða eitthvað í þeim dúr.
Með um tveggja vikna millibili hafa tveir kunningjar mínir, þungaviktarmenn í landbúnaðargeiranum hinsvegar spurt mig nánast sömu spurningarinnar.Hvernig hljóðið væri nú í okkur bændunum með tilliti til framtíðarinnar.Þeim fyrri svaraði ég með einhverju í anda þess sem ofar er ritað,menn væru bara nokkuð hressir o.sv.frv. Þegar því samtali lauk fór ég að fá bakþanka yfir svarinu sem ég vissi að var kannski ekki allskostar rétt.Ég var því nokkuð vel undirbúinn þegar hinn kunninginn hringdi í mig á dögunum og færði þetta m.a. í mál fljótlega í samtalinu. Ég hugsaði mig því vel um í símanum og reyndi að gera mig eins gáfulegan og mögulegt var (það er dálítið erfitt eins og menn vita) og fór síðan yfir málið.
Jú það væri búin að vera góð sigling á okkur og bjartsýni í landbúnaðinum í nokkur ár en nú væri róðurinn að þyngjast. Það sem væri að slá á bjartsýnina væru fyrst og fremst hækkanir á þeim rekstrarkostnaði sem viktar mest.Hækkanir á áburði , fóðurbæti og blessaðri olíunni væru að þyngja reksturinn verulega og sér alls ekki fyrir endann á því. 40 - 50 % boðuð hækkun á áburði þýddi t.d. um 400.000 kr. viðbótarútgjöld fyrir grundvallarbú í mjólkurframleiðslu. Mjólkurframleiðslan mun væntanlega ná einhverju af þessu til
baka með hærra mjólkurverði í framtíðinni en það verður erfiðara í sauðfénu.
Ég gætti þess að minnast ekkert á skuldir og vaxtaokur því þá væri ég trúlega að tala við hann ennþá. Til að koma bjartsýninni aðeins að bætti ég við að margur bóndinn ætti aðeins innistæðu í því að auka hagræðinguna og bæta
reksturinn til að mæta þessum aukna rekstrarkostnaði.Hinir sem hafa þá þætti í lagi yrðu hinsvegar að taka þetta af laununum sínum.
Þannig að nú stend ég klár með tvær útgáfur þegar ég er spurður "gáfulegra" spurninga. Tóm sæla og hamingja eða allt í skelfingu.
Skrifað af Svanur
06.01.2008 11:03
Þrettándanum þjófstartað
Hér renna framhjá hver góðviðrisdagurinn á fætur öðrum öllum til mikillar ánægju en það er samt eins og sumir séu hálffeimnir við þetta tíðarfar eftir það sem á undan er gengið.
Um miðjan daginn fékk "viðhaldsdeild" hitaveitunnar ágæta æfingu þegar lögnin til undirritaðs fór í sundur þar sem hún liggur í nokkurra metra fjarlægð frá bálkestinum sem verið var að snyrta til fyrir brennuna. Að fenginni reynslu var þess nú gætt að koma öllum hrossum í gerði eða hús fyrir kvöldið enda búið að fjárfesta í alvöru púðursýningu hjá björgunarsveitinni.
Um kvöldið í stafalogni að sjálfsögðu var kveikt í en þarna var kominn sá stærsti bálköstur sem sést hefur í Eyjarhreppnum fyrr og síðar,Meðal annars innvols úr fjárhúsum sem nú eru að verða hesthús og það sem hefur fallið til við framkvæmdirnar í Söðulsholti en þar er refahúsið horfið en vélageymsla(dótakassi) risið á sama stað.Í enda dótakassans er síðan gestahestahús fyrir 10 (plús) hross m.a. fyrir væntanleg námskeið sem koma til með að verða haldin í reiðhöllinni.
Það var meiriháttar að sjá tíuþúsundkallana springa í háloftunum og kostunaraðila og björgunarsveit var klappað lof í lófa að sýningu lokinni.

Að lokum var þeim sem slúksuðu sem lengst við brennuna boðið í kakó og ja já m.a. rjóma á Rauðkollstöðum hjá Auðun og Önnu Margréti.
Í kvöld brenna síðan Kolhreppingur út jólin en það er ljóst að þeir fá bara afgangsdótið hjá björgunarsveitarmönnum þetta árið sem ég persónulega tek að sjálfsögðu ákaflega nærri mér en svona er lífið.

04.01.2008 22:30
Klakalaus jörð!
Eftir að hafa sinnt gegningum,föðurhlutverki og afahlutverki fram á hádegi var lagt á fjóhjólið og tekinn rúntur um akrana. Og viti menn þeir voru að langmestu leyti klakalausir. Þar sem frosið höfðu pollar var smáskán sem hægt var að stinga niður úr með stunguskóflu. Hinsvegar voru þeir sem fyrr of blautir til plægingar svo plógurinn var ekki settur fyrir í dag.
Að þessari niðurstöðu fenginni var rúntað áfram niður í hitaveitu og hlustað á malið í dælunni þar sem hún dældi um 5 sek.l. útá 15 km lagnirnar en það samsvarar 400 og eitthvað kw. orku. Til fróðleiks skal upplýst að við þetta er notuð um 5-6 kw. orka frá landsneti. Hringnum var síðan lokað með viðkomu í í Söðulsholti þar sem folöldin ásamt upprennandi stóðhestum þremur að tölu stóðu úti í grænni töðunni voru skoðuð sérstaklega. Til þess að fullkomna daginn tók Funi sig útúr hópnum og tók hring um flötina á eftir Vask sem löngu er búinn að læra það að hann má ekkert vera að abbast uppá hrossin nema hann fái skýr fyrirmæli um það..
Í hesthúsinu var allt á fullu, 26 hross á járnum eða rétt ójárnuð og verið að leggja á brúnskjóttan stóðhest ásamt snillingnum honum Vestra úr Ólafsvík.
Já reiðhöllin fékk víst frí í dag í góða veðrinu..
Skrifað af Svanur