Færslur: 2014 Nóvember

30.11.2014 20:49

Vaskur kallar Svan,- skipti.

 Þetta var farið að líkjast þriðju gráðu yfirheyrslu. 

En ótrúlegt hvað ferlið rifjaðist upp eftir því sem leið á símtalið. 

 Yfirheyrslan snerist um talstöðvarnotkun á smalahunda og það sem ekki endurræstist í samtalinu kom smám saman næstu dagana.

 Árið var 2001. 

 Ég hafði í þó  nokkurn tíma gengið með þá flugu í höfðinu að nota talstöð til að halda samskiptunum við hundana mína á lægri nótum en ég þurfti, þegar verið var að stjórna þeim í vinnunni og fjarlægðin í þá var orðin hundruði metra , - og ekki alltaf logn á Nesinu.

 Hafði ekki lagt í flautukennslu og afsakaði mig með því að svo lítill hluti notkunarinnar væri í þessum vegalengdum að það tæki því ekki. 

Þarna var Vaskur að verða aðalhundurinn minn ungur að árum og ekki sérlega samvinnuþýður, ef hugmyndir okkar í aðferðafræðinni gengu ekki saman. 

 Ég var mikið búinn að leita að hentugri stöð til að hafa á hundinum, fljótur  að átta mig á að hnjaskið sem fylgdi því að hafa græjuna í örtösku í hundahálsbandi hafði hin margvíslegustu áhrif í tæknilegum samskiptum. 

Öll til verris.


 Talstöðin var pökkuð í plast og sett í sérstaka tösku á hálsbandi sem ekki var notað í annað. Það kom alltaf alveg sérstakur svipur á Vask þegar ég teygði mig eftir ólinni sem hékk á vegg hjá honum. Brosti útað eyrum í orðsins fyllstu merkingu, spratt á fætur  settist fyrir framan mig og haggaðist ekki fyrr en ólin var komin á hann.


 Hækkun eða lækkun í talinu hjá kappanum nú eða rásaskipti þegar síst skyldi slógu öll vopn úr höndunum á mér, kannski orðinn km. milli okkar eins og kom ítrekað fyrir þegar best lét, voru helstu vandamálin.. 

Vaskur var í nokkrum sérflokki í tæknimálum af þeim þrem smaladýrum sem voru á bænum þessi árin og var ákaflega samstarfsfús þegar græjan virkaði .

 Það var rétt eins og ég stæði við hliðina á honum  þegar hann tók hægri eða vinstri beygjur, hægði á eða stoppaði. Og stundum þurfti ég að taka upp sjónaukann þegar hann var kannski kominn inn í göngu hjá öðrum  eða þriðja manni frá mér til að stoppa af hóp sem var á góðri leið að sleppa. 

 Sjaldan að liði leit, án þess að ég fengi fyrirspurn í talstöðinni frá einhverjum félaganum.
 
Hvar er Vaskur ?

  Fljótlega komst í gagnið pínulítil stöð sem var lítil hætta á að breytti sér.  Þau voru síðan  þrjú haustin sem talstöðvarsambandið hjá okkur félögunum var aðallega í notkun. 
 Þá var Vaskur komin með þetta alltsaman, búinn að læra á landið, rollurnar og mig .
Það kom margt spaugilegt upp þessi haust. Í aðalleitum voru félagar mínir oft með stöðvar og þá skipti ég  um rásir milli þeirra og hundsins.

 Þegar mikið gekk á hjá okkur Vask kom það fyrir að félagarnir laumuðu sér inn á rásina okkar og síðar fékk ég gjarnan að heyra endurtekningu á einkaviðræðum okkar félaganna en það gat alveg komið fyrir að hann fengi  að heyra hreina íslensku, sérstaklega fyrsta haustið. 



 Stundum kom fyrir ef eitthvað kom snögglega uppá, að ég gleymdi að svissa yfir á Vask svo félagarnir fengu fyrirmælin.
 Sérlega minnistætt þegar við Vaskur vorum efstir í hlíð þar sem ég sá yfir stórt svæði, bæði upp og niður  fyrir mig. 

  Neðar voru tveir smalar á hestum en sáu ekki hvor til annars. Vaskur tók gönguna ofan við mig í hlíðinni . Þá kem ég auga á kindahóp fyrir framan okkur og taldi rétt  að hækka hann til að vera öruggur með að ná þeim. 

Hægri ,farðu til hægri skipaði ég lágri, mjög ákveðinni röddu. 

  Vaskur hafði þetta að engu svo ég endurtók skipunina. Þegar ekkert gerðist áttaði ég mig á  að gleymst hafði að skipta um rás. Það var eins og við manninn ,mælt að Vaskur hækkaði sig , kom skömmu seinna auga á kindurnar og setti þær beint niður hlíðina eftir nánari fyrirmælum. 

  Þá fer ég að huga að félögum mínum og skil ekkert í því að þeir höfðu báðir tekið 90 ° beygju til hægri . Skipti í snatri um rás og komst að því að báðir höfðu tekið hægri skipunina til sín og að sjálfsögðu hlýtt henni.



 Hér var erfið eftirleit í kortinu og það verður að viðurkennast að Vaskur var ekki alveg svona kampakátur daginn eftir.

 Ég er gallharður á því að Vaskur sálugi var fyrsti hundur í heimi til að vinna flókna vinnu eftir skipunum í gegnum talstöð.

 Og það hefur ekki verið hrakið enn. emoticon


 Skessa ( mamman ), Assa ( litla systir) og Vaskur. Og ekkert nema fjör framundan.

18.11.2014 22:51

Sýnishorn af eftirleit.


 Það fylgir þeim kindum sem verið er að tína til byggða á þessum árstíma að þær eru oftast vel hreyfanlegar til að byrja með, enda  vanar því að sleppa úr smölun.

 Þetta stutta og ófullkomna myndbrot sýnir eðlileg viðbrögð þeirra við áreitinu.

Rétt er að taka fram að í brotakenndum endi eru hundarnir komnir framfyrir fremstu kindina þó þeir sjáist ekki. Annar með því að fara fyrir neðan hópinn . Hinn fyrir ofan.

 Og þar með var allt loft úr þeim.

   Sjá  Hér

Þessar myndir voru teknar síðar í leitinni.


         Rauðgilið t.v. Þyrlarnir fyrir miðri mynd og brekkurnar uppaf þeim.

 Hér er búið að ná öðrum hóp og verið að sameina þá fyrir heimrekstur, ekki alltaf sem það tekst.



 Allt að smella saman, bara eftir að snúa hausunum á þeim í rétta átt en hér stefna þær innúr aftur..



 Allt orðið klárt fyrir heimferðina . Nú er það bara spurningin hvort einhverjar gefist upp á leiðinni.



 Síðasta ferðin yfir Núpána, Dalsmynnisfellið í baksýn.

9 kindur frá 4 bæjum sem er útaf fyrir sig umhugsunarvert.



  Það eru systkinin þau Smali og Korka sem sjá alfarið um þetta. Ég dingla svona með til uppfyllingar.



 Það var  svo ekki slæmt að fá svo senda kippu af úrvals bjór frá einni húsfreyjunni, fyrir að ná tvílembunni hennar. emoticon

11.11.2014 20:14

Tíkur , hundar og - geldingar. !

Ég velti því stundum fyrir mér hversvegna svo margir vilja tíkur frekar en hunda þegar ákveðið hefur verið að kaupa hvolp í smalið.

 Er sjálfur  með tíkur í ræktuninni sem er þó ekki umsvifamikil.      

 Einfaldara að finna hund í pörun en öfugt, þegar verið er að prufukeyra ættarlínurnar saman. emoticon

 Ég er hinsvegar ekki viss um að flest þeirra sem leita sem ákafast að tíkarhvolpi séu endilega að stefna að ræktun.

 Menn trúðu því á tímabili að ekkert mál væri að losna við lóðaríin og það sem þeim fylgdi með sprautu tvisvar á ári.  Þetta er auðvitað hægt en ég held nú samt að þetta sprautudæmi sé á útleið vegna ýmissa aukaverkana sem menn vilja rekja til þess.

 Margir trúa því að tíkurnar séu auðveldari í umgengni og tamningu sem er nú að mínu mati ekki rétt. 
Þegar svo ótímabær og óvænt gotin  koma í heiminn þá er því tekið sem hverjum öðrum húskross.
          

                      Þetta var nú samt útpælt
                    
 Dálítið spennandi samt og skemmtileg svona á ákveðnum tíma, þó sú ánægja geti orðið dálítið súr ef illa gengur að losna við skemmtilegheitin.
  
 Þó nokkrir vilja að vísu hafA það í bakhöndinni að geta slegið í eitt og kannski tvö got ef tíkin kemur til með að virka við það sem hún á að gera .

  Ég hef fullan skilning á þeirri hugsun.
 

     Já , kominn smá hvolpafiðringur enda kannski spennandi got í kortunum.emoticon


 Ef ég væri hinsvegar ekkert í ræktun, þá er alveg kristaltært að ég myndi láta tíkurnar eiga sig þegar kæmi að því að endurnýja smaladýrin.

 Allra hluta vegna.

 En það yrði þá grundvallaratriði að láta það sama yfir hundana ganga og smalahestana mína.

 Láta fjarlægja úr þeim kúlurnar, svona um eins og hálfsárs aldurinn.

 Breytingin á þeim vinnulega séð verður engin, En allt hormónastressið og  merkingar á mönnum og málleysingjum og dekkjunum náttúrulega, hverfur.

 Bara átakalaust og skemmtilegt líf.

 Og ekki nokkur einasta hætta á ótímabæru goti. emoticon



 Félagi Vaskur er gott dæmi um gelding sem svínvirkaði án kúlnanna og afsannaði kenninguna um óeðlilega holdasöfnun þeirra kúlnalausu.

 Þetta var virkilega erfiður hundur í tamningu og notkun framanaf. Fram úr hófi sjálfstæður og fólgrimmur bæði við menn og málleysingja.

  Svo erfiður að ég treysti mér ekki til að selja hann sem þó var ætlunin í upphafi.

Svo kúlurnar voru fjarlægðar og Vaskur varð með tíð og tíma aðalsmalinn.

En hafi ég látið mig dreyma um að lundin blíðkaðist eitthvað eða  hann yrði meðfærilegri við geldinguna gekk það alls ekki eftir.

 Samt ekki frá því að hann hafi róast í daglegri umgengni.

Bara svona til umhugsunar fyrir  tíkarleitendurnar emoticon
Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere