30.11.2014 20:49

Vaskur kallar Svan,- skipti.

 Þetta var farið að líkjast þriðju gráðu yfirheyrslu. 

En ótrúlegt hvað ferlið rifjaðist upp eftir því sem leið á símtalið. 

 Yfirheyrslan snerist um talstöðvarnotkun á smalahunda og það sem ekki endurræstist í samtalinu kom smám saman næstu dagana.

 Árið var 2001. 

 Ég hafði í þó  nokkurn tíma gengið með þá flugu í höfðinu að nota talstöð til að halda samskiptunum við hundana mína á lægri nótum en ég þurfti, þegar verið var að stjórna þeim í vinnunni og fjarlægðin í þá var orðin hundruði metra , - og ekki alltaf logn á Nesinu.

 Hafði ekki lagt í flautukennslu og afsakaði mig með því að svo lítill hluti notkunarinnar væri í þessum vegalengdum að það tæki því ekki. 

Þarna var Vaskur að verða aðalhundurinn minn ungur að árum og ekki sérlega samvinnuþýður, ef hugmyndir okkar í aðferðafræðinni gengu ekki saman. 

 Ég var mikið búinn að leita að hentugri stöð til að hafa á hundinum, fljótur  að átta mig á að hnjaskið sem fylgdi því að hafa græjuna í örtösku í hundahálsbandi hafði hin margvíslegustu áhrif í tæknilegum samskiptum. 

Öll til verris.


 Talstöðin var pökkuð í plast og sett í sérstaka tösku á hálsbandi sem ekki var notað í annað. Það kom alltaf alveg sérstakur svipur á Vask þegar ég teygði mig eftir ólinni sem hékk á vegg hjá honum. Brosti útað eyrum í orðsins fyllstu merkingu, spratt á fætur  settist fyrir framan mig og haggaðist ekki fyrr en ólin var komin á hann.


 Hækkun eða lækkun í talinu hjá kappanum nú eða rásaskipti þegar síst skyldi slógu öll vopn úr höndunum á mér, kannski orðinn km. milli okkar eins og kom ítrekað fyrir þegar best lét, voru helstu vandamálin.. 

Vaskur var í nokkrum sérflokki í tæknimálum af þeim þrem smaladýrum sem voru á bænum þessi árin og var ákaflega samstarfsfús þegar græjan virkaði .

 Það var rétt eins og ég stæði við hliðina á honum  þegar hann tók hægri eða vinstri beygjur, hægði á eða stoppaði. Og stundum þurfti ég að taka upp sjónaukann þegar hann var kannski kominn inn í göngu hjá öðrum  eða þriðja manni frá mér til að stoppa af hóp sem var á góðri leið að sleppa. 

 Sjaldan að liði leit, án þess að ég fengi fyrirspurn í talstöðinni frá einhverjum félaganum.
 
Hvar er Vaskur ?

  Fljótlega komst í gagnið pínulítil stöð sem var lítil hætta á að breytti sér.  Þau voru síðan  þrjú haustin sem talstöðvarsambandið hjá okkur félögunum var aðallega í notkun. 
 Þá var Vaskur komin með þetta alltsaman, búinn að læra á landið, rollurnar og mig .
Það kom margt spaugilegt upp þessi haust. Í aðalleitum voru félagar mínir oft með stöðvar og þá skipti ég  um rásir milli þeirra og hundsins.

 Þegar mikið gekk á hjá okkur Vask kom það fyrir að félagarnir laumuðu sér inn á rásina okkar og síðar fékk ég gjarnan að heyra endurtekningu á einkaviðræðum okkar félaganna en það gat alveg komið fyrir að hann fengi  að heyra hreina íslensku, sérstaklega fyrsta haustið. 



 Stundum kom fyrir ef eitthvað kom snögglega uppá, að ég gleymdi að svissa yfir á Vask svo félagarnir fengu fyrirmælin.
 Sérlega minnistætt þegar við Vaskur vorum efstir í hlíð þar sem ég sá yfir stórt svæði, bæði upp og niður  fyrir mig. 

  Neðar voru tveir smalar á hestum en sáu ekki hvor til annars. Vaskur tók gönguna ofan við mig í hlíðinni . Þá kem ég auga á kindahóp fyrir framan okkur og taldi rétt  að hækka hann til að vera öruggur með að ná þeim. 

Hægri ,farðu til hægri skipaði ég lágri, mjög ákveðinni röddu. 

  Vaskur hafði þetta að engu svo ég endurtók skipunina. Þegar ekkert gerðist áttaði ég mig á  að gleymst hafði að skipta um rás. Það var eins og við manninn ,mælt að Vaskur hækkaði sig , kom skömmu seinna auga á kindurnar og setti þær beint niður hlíðina eftir nánari fyrirmælum. 

  Þá fer ég að huga að félögum mínum og skil ekkert í því að þeir höfðu báðir tekið 90 ° beygju til hægri . Skipti í snatri um rás og komst að því að báðir höfðu tekið hægri skipunina til sín og að sjálfsögðu hlýtt henni.



 Hér var erfið eftirleit í kortinu og það verður að viðurkennast að Vaskur var ekki alveg svona kampakátur daginn eftir.

 Ég er gallharður á því að Vaskur sálugi var fyrsti hundur í heimi til að vinna flókna vinnu eftir skipunum í gegnum talstöð.

 Og það hefur ekki verið hrakið enn. emoticon


 Skessa ( mamman ), Assa ( litla systir) og Vaskur. Og ekkert nema fjör framundan.
Flettingar í dag: 209
Gestir í dag: 44
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418872
Samtals gestir: 38055
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 17:28:20
clockhere