Færslur: 2014 Nóvember

04.11.2014 21:50

Adrenalínflæði, magahnútar og afreksverkin í fjallinu heima.

Ég horfði á kindurnar fjórar hoppa úr kerrunni, en í stað þess að hlaupa til vinstri að sleppistaurnum fóru þær í hina áttina  og stoppuðu svona 20 - 30 m. úr braut.

Ég hafði ætlað að senda Korku út á hægri hönd en skipti um skoðun við þetta , steig niður af smalapallinum og færði Korku vinstra megin við mig , kom mér uppá pallinn, leit á tíkina, af henni á kindurnar og sagði lágt við hana . Vinstri SÆKJA. 

 Korka  spólaði af stað og þó ég vissi að vegna hæðarbungu á sléttum melnum milli okkar og kindanna sæi hún þær ekki, vissi ég líka að það kæmi ekki að sök.

  Þó hún sé ekki nema 3 ára er fullur skilningur milli okkar í þeim málum. Adrenalínið var farið að flæða en hnúturinn í maganum sem fylgdi þessu fyrstu árin er hættur að gera vart við sig. 

 Það er svo  alltaf sama lottóið hvernig kindurnar eru sem úr kerrunni koma. 

 Reyndar held ég því allajafna fram að góðir hundar eigi að ráða við allt sem kemur upp í brautinni .

 Sé það rétt eru hundarnir okkar ekki alltaf nógu góðir . 

  Og þó þeir ráði við þetta allt gera erfiðar kindur það að verkum að dýrmæt stig eru að tapast hér og þar. 
 Við Korka vorum þarna með fyrsta rennslið í A . flokknum. Það er bæði gott og slæmt. Alltaf gott að vera búinn, en slæmt að geta ekki horft á nokkur rennsli til að átta sig á hverju sé von þegar kæmi að mínu rennsli.  J

  Já þetta leit bara vel út til að byrja með og mér sýndist að við værum með nánast fullt hús stiga þegar kindurnar komu til mín að pallinum.
 En í stað þess að taka sveig afturfyrir mig og byrja á þríhyrningnum, snarstoppuðu þær til hliðar við mig. 


 Hér er Ronja með þetta á hreinu og kemur hárrétt inn í  þríhyrningninn.


  Og ekki nóg með það heldur skiptu þær sér í 2 + 2 . Ég áttaði mig strax á því að nú stefndi í óefni, hikaði og íhugaði aðeins áður en ég ákvað að senda Korku aðeins til baka til að ná kindunum saman og af stað í rétta átt. - En hikið reyndist okkur Korku dýrt.. 

  Í nánast sömu andrá tóku tvær kindanna sprettinn til baka og spöruðu sig hvergi. Þó þær kæmust ekki nema nokkra tugi m. vissi ég að nú væri ég kominn í alvarleg vandræði. Það gekk eftir og þó kindurnar næðust saman og þríhyrningurinn kláraðist voru kindurnar orðnar strekktar og erfiðar . Það gekk illa að skipta hópnum og inn í réttina fóru þær ekki fyrr en 1/2 mín eftir að ég féll á tíma.


 Hér smella Dóri og Smali sínu rennsli inn í réttina vafningalaust.

 Ég gaf mér að þarna hefði ég trúlega  fengið milli 30 - 40 refsistig og þó vel gengi daginn eftir, yrði það þungur róður að komast á pall í þetta sinn. Landsmótið er tveggja daga keppni og samanlagður stigafjöldi ræður röðun keppenda í sæti.

  Undantekningarlítið gengur mönnum mjög misjafnlega milli daga.  
 
 Oft eru kindurnar misjafnar og síðan eiga smalarnir og ekki síður hundarnir, sína góðu og slæmu daga. Þessvegna er þetta alltaf jafn rosalega spennandi og keppendur yfirleitt löngu búnir að læra að taka þetta alltsaman ekki of hátíðlega. 

 Vegna veðurs á sunnudeginum var seinni dagurinn svo blásinn af og fyrra rennslið látið  ráða úrslitum í þetta sinn.


 Frá Dalsmynni var mætt með 3 hunda í keppnina. Ronju frá Dalsmynni í Unghunda, Smala frá Miðhrauni í B fl. og systir hans Korka í A.fl. 


 Hér skyrpir Ronja út úr sér ullarlagði eftir að hafa þurft að taka aðeins í þær til að koma þeim úr kyrrstöðu.


 Ronja vann unghundana með 66 stigum en þar voru 6 keppendur. Smali vann B fl. með 85 st. sem var frábær frammistaða ekki síst vegna þess að þarna var eigandinn Dóri tengdasonur að taka þátt í sinni fyrstu keppni með hann. Korka lenti svo í 4 sæti  af 10 keppendum í Afl. með 60 stig . 


 Á landskeppnina mæta  undantekningarlítið mjög öflugir smalahundar þó gengi þeirra í brautinni sé misjafnt. Ég reikna með að það eigi við alla keppendurna það sama og með mig að verðlaunasæti, jafnvel efsta sætið skilar ekki jafn mikilli og eftirminnilegri minningu og mestu kraftaverkin sem þessir hundar eru að vinna í smalamennskum á heimaslóðum. Sum þeirra eru svo ótrúleg að menn leggja ekki í að segja frá þeim nema hafa einhver vitni þeim til staðfestingar.

 Og eins og alltaf kemur maður heim af landsmóti hokinn af reynslu og veit alveg nákvæmlega hvernig á að tækla þetta næsta ár emoticon .

 Sýnishorn af keppnisbraut . Langa brautin er oft um 500 m.+ fyrir þyngsta flokkinn.




Flettingar í dag: 69
Gestir í dag: 13
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414630
Samtals gestir: 37275
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 04:51:33
clockhere