Færslur: 2011 Janúar

11.01.2011 10:03

Búskaparbaslið og " velgengnin".

 Ég fer ekki oft inná heimasíðuna hjá þér sagði vinur minn úr Húnaþingi.

Hvers vegna, spurði ég hneykslaður yfir þessu tómlæti gagnvart svona frábærri síðu?

 Það gengur allt svo vel hjá þér, engin vandamál svo manni fer að líða illa með sjálfan sig, svaraði vinur minn glottandi.

 Ég játti því að ef hann gæti ekki lesið milli línanna á blogginu hjá mér og dregið hæfilega frá því sem þar komi fram, væri trúlega best fyrir hann að lágmarka heimsókirnar.

 Nú er búið að ganga á ýmsu í búskapnum síðustu vikurnar.

Um jólin fór vökvarör í flórsköfukerfinu  sem hefur nú reyndar aldrei virkað fullkomlega síðan það var sett upp  2004.
 Býsna langt síðan maður hefur komist í að moka flór og trúlega í fyrsta sinn á ævinni sem yngri bóndinn kynnist þessu þroskandi starfi.

  Í kuldahvellinum í síðustu viku fraus svo allt sem frosið gat í gamla fjósinu þar sem kvíguuppeldið er til húsa:  Það hefur ekki gerst svona verklega síðan kýrnar fluttu út.
 Það slapp nú samt allt til án þess að rörin tjónuðust.

 Snigillinn úr fóðursílóinu sveik okkur svo á dögunum og mun fyrst komast í lag í dag.
Það er að vísu ágætt að fá svona líkamsræktandi bilanir samhliða og uppúr  jóladekrinu.

 Og nú er norðanbelgingurinn að byrja að taka á taugarnar en ég þoli hann nú ekki með góðu móti nema svona í rúma viku.
 Ég hefði svo gjarnan viljað hafa eitthvað af snjónum sem norðlendingum er boðið uppá þessa dagana því þessi frostakafli á auða jörð gæti sett strik í reikninginn við akuryrkjuna í vor.



 Ég og mín heittelskaða brugðum okkur svo í borg óttans á föstudaginn. Viðvaranir útvarpsins um
 " ekkert "  ferðaveður höfðu mjög góð áhrif á umferðarþungann til og frá höfuðstaðnum og hafa væntanlega sett mark sitt á útsölurnar , en á röltinu gegnum Kringluna fannst mér traffíkin vera minni en á venjulegum  degi.

En nú lengir daginn hratt og allt að komast á fullt hjá mér í ýmsum málaflokkum.


08.01.2011 22:04

Smalasaga, glæný- ( Myndasaga)

 Það kom bráðaútkall úr Snæfellsbæ um tvöleytið dag.

 Beðið um 1 - 2 hunda og ágætt að fá 1 smala með.



 Þetta var smalasvæðið en kindurnar voru ofarlega í hlíðinni fyrir miðri mynd.
Þarna var stærsti hlutinn af fjárstofninum á bænum sem hafði lent í afleitum félagsskap
 "aðkomukinda" snemma í des. og látið sig hverfa uppfyrir brúnir. Síðan hafði ekkert til þeirra spurst fyrr en þær birtust í hlíðinni í dag, Trúlega ekki líkað við veðrið síðustu dagana.



 Þarna voru þær á beit hinar rólegustu.  Myndirnar hér eru teknar heiman frá bænum og dálítið hraustlega súmmaðar.



 Það átti að reyna að laumast að þeim með því að keyra upp fyrir túnið talsvert fyrir vestan þær en þarna voru með lífsreyndar ær sem voru snöggar að koma sér af stað.



 Vaskur var því sendur af stað í flýti og þó hann sæi nú engar rollur til að byrja með  sá hann þær að lokum, þurfti þá að vísu að hækka sig talsvert til að komast upp fyrir þær en þarna er allt komið í kontrol.



 Hér er Dáð komin honum til fulltyngis og skipun gefin um að koma hópnum af stað.


Þær styggu tóku sprettinn í vestur en hinar vildu í austur en tveir hundar vinna létt verk.


 Hér er allt sameinað á ný og rollurnar að átta sig á að nú er ekki við Staðsveitunga að eiga.( Eða þannig).


 Best að koma sér bara í hús og láta sig svo dreyma um næsta sumar.



 Og þessi svarti hér, hefur væntanlega séð til þess að hér byrjar sauðburður uppúr miðjum apríl.

Bara þokkaleg byrjun á árinu svona smalalega séð.
 

04.01.2011 22:58

Móalingur. - Víða um fjöllin drýgðum dáð/djöfull góðir saman.


 Það var um 1960 sem Móalingur kom í heiminn. Hann var dökkur til að byrja með. siðar steingrár og endaði hvítur.

 Hann var nokkurra daga gamall þegar önnur hryssa á bænum missti nýkastað folald og þetta endaði þannig að hann gekk undir báðum hryssunum.

 Þær gerðu ekki endasleppt við hann því undir þeim báðum gekk hann næstu tvö árin.

Þrátt fyrir þetta varð hann ekki nema meðalhestur að stærð, frekar stuttur og bolmikill, hálsstuttur en fangreistur í reið.

 Það var farið að leggja við hann fjögurra vetra því margt benti til þess að hann yrði öflugur og erfiður í tamningu.
 Móalingur var skapharður, ákaflega ör/kvikur og varð strax mjög viljugur. Hann var samt alveg hrekklaus og mesta furða hvað hann hlýddi taumhaldinu enda mikið teymdur í upphafi tamningar eins og löngum var gert heima , sérstaklega ef eitthvað þurfti að hafa fyrir tryppunum.

 Hann var mikill brokkari að upplagi , ferðmikill og mjúkur á brokkinu þegar hann hamdist á því.
 Þegar móðurinn var sem mestur á honum hamdist hann samt ekki á neinum gangi, heldur víxlaðist áfram með miklum gusugangi með makkann í fangi knapans og stutt í rokuna ef taumhaldið var gefið eftir.
 Ég var ekki hestvandur á þessum árum og þó faðir minn ætti þann steingráa kom að því að
ég lagði hann undir mig að mestu.


 Móalingur t.v. Glaumur t.h.                                                                    mynd Elín Þorsteinsd.

 Þessum mikla vilja fylgdi svo alveg óhemju þrek og úthald og hefur hann væntanlega búið að uppeldinu fyrstu 2 árin.
 Þrátt fyrir ýmsa annmarka og skort á reiðhestshæfileikum sem ég geri kröfu um í dag fannst mér nokkuð til hans koma.
Hann var algjörlega hiklaus að fara allt sem ég beindi honum að og ekki þurfti að hvetja hann, aðeins að slaka á taum og það var vaðið út í hvað sem fyrir var.
Eins og aðrir mínir bestu smalahestar vissi ég aldrei af honum í taumi ef eitthvað þurfti að ganga með honum. Hann fylgdi mér eins og skugginn án þess að koma við mig eða taka í taum.
 Ég var stundum dálítið ófyrirleitinn á þessum árum og ekki alltaf farið rólega.
Seinna velti ég því fyrir mér að eitthvað hefði vakað yfir okkur þegar tæpast var farið.

 Móalingur var fyrsti hesturinn sem ég smalaði með í Tungunum og ekki ótrúlegt að hann hafi verið fyrsti hestur í Íslandssögunni að fara þar um í leit. Það átti við um fleiri svæði.
 Það var í smalamennsku á Núpudalnum sem ég sé kindur vera að tapast hátt sunnaní Dalsmynnisfellinu og góð ráð voru dýr.
Þá var hleypt upp hlíðina uppað klettum og síðan skellt sér upp Axlargjána sem ég hafði nú aldrei farið hvorki fyrr né síðar.



  Ég var ákaflega feginn þegar við stóðum á brúninni, blésum mæðinni og kíktum niður gjána.
En ánægjutilfinningin þegar við snerum hópnum af villu síns vegar var hinsvegar nokkuð sterk.
 
  Og þeir eru ekki margir klárarnir sem ég fundið þörf fyrir að kveðja í bundnu máli.


     Móalingur

Aldrei saman sýndum kíf.

Söng oft hátt í grundum.

Þegar okkur lék við líf.

Léttan fórum stundum.

 

Á óveg varstu aldrei kveif.

Oft í smalaskaki.

Þar sem að ég klungur kleif.

Komst þú fast að baki.

 

Ófærð fleyttumst yfir hratt.

Óðfús hroðann renndi.

Þó að eitt sinn færum flatt.

Fátt það okkur kenndi.

 

Taum ei slaka mátti í mund.

Mjum fjöllin drýgðum  dáð,

djöfull  góðir saman.ög þú vildir ráða.

Skaphörku ei skorti í lund,

skjótur varst til dáða.

 

Mörg var tvísýn hildin háð.

Að harkinu var gaman.

Víða 

                             sg.

Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403392
Samtals gestir: 36650
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:06:17
clockhere