Færslur: 2010 Desember

04.12.2010 23:17

Drög að sauðburði !!

 Nú styttist alltof hratt í það að lögð verði drög að sauðburði næsta vors.

Allt féð rúið og meira að segja ormalyfið komið ofanúr hillu og á réttan stað.
Það hefur nú ekki alltaf hafst af fyrir fengitíma.

 Nú standa yfir mikil átök um hvenær hefja skuli sæðingar en sá " lati " gerir sér öðrum fremur grein fyrir því að ótímabær byrjun lengir óhjákvæmilega sauðburðinn í annan endann.

 Það er búið að grófflokka ær sem eiga að fara undir djásnið hann Gnarr en talsverðar vonir eru bundnar við að hann geti orðið til bóta í ræktuninni.
Hann er nefnilega undan afbragðsgóðri á, sem er komin með 7.6 í afurðastig 3 vetra.
Það er hún 715 sem gekk með 2 gemlingsárið ( 33.5 kg alls) og verið þrílemd síðan( tvisvar).


 Sá bíldótti ( sæðingur undan At.) á að notast á gimbrarnar en það eftirsóknarverða hlutskipti hreppir hann annarsvegar vegna litarins og hinsvegar og aðallega vegna þess að hann stigaðist ma. með 18.5 fyrir læri.
 En það eru læraholdin sem eru sett á toppinn í ræktuninni í ár.

Svona leit sá bíldótti út í vor ásamt þáverandi eiganda en nú er hún búin að fara  brask við ömmu sína og á engan Billa Boy lengur.


 Stefnan er sem sagt sú að sæddar verði daglega allar ær sem ganga fram að fengitíma.

Upphafsdagsetningin er því  það sem styrrinn stendur um og nú er Guðný búinn að taka til græjurnar svo illa horfir fyrir afturhaldsöflunum. emoticon

01.12.2010 23:52

Litlu skrípin á fullu og útrásin framundan.

 Björgvin dýralæknir var á ferðinni fyrir helgina og heilbrigðisskoðaði, örmerkti og  ormahreinsaði hvolpana.
 Hann var fullur efasemda þegar ég setti hendina í hrúguna kom með hvolp og sagði honum hvaða bæjarnafn ætti að setja í sjúkrabókina. Honum fannst þeir allir eins.
Ég hafði ekki varað mig á því að þeir verða að vera orðnir 8 vikna fyrir pavrosprautuna svo hún bíður þar til 7. des. Í framhaldi af því gæti farið að koma los á einhverja þeirra.

 Nú eru þeir alveg meiriháttar skemmtilegir og sem betur fer er tíðin góð svo þeir eru settir út tvisvar á dag a.m.k.
 Hér eru þeir að leggja af stað út í veröldina í fyrsta sinn.

 Litla daman fremst er sú sem á lengstu ferðina fyrir höndum á nýtt heimilið.  Það er næstum þvert , eða svona á ská yfir landið. Þar bíða hennar krefjandi verkefni og ég hef fulla trú á því að hún muni standa sig, hvort sem hún lendir í kröppum dansi í Sauðdrápsbotni eða Fossdalshnútu.

 Mamman var sett afsíðis en þeir fylgdu húsbóndanum hiklaust út.



 Hér er það hinsvegar langamman hún Skessa sjálf að heilsa upp á ungviðið sem sýndi henni heldur óviðurkvæmilegan áhuga.

 Þessar vikurnar er ágætt að hafa  fullorðinn hund með þeim í uppeldislegum tilgangi og pabbinn og Dáð eru góð í það.

 Hér sýnir Bangsi föður sínum hóflega virðingu.


 Hér er það hinsvegar afastelpan sem leiðir þá um refilstigu lífsins.


 Þessi hér er sérvalin sem einstaklega ferðaþjónustuvænt eintak.

Já þrælskemmtileg fyrirbrigði en það verður samt ákveðinn léttir, þegar sá síðasti verður kvaddur.

Fullt af hvolpamyndum .  Smella HÉR.
Flettingar í dag: 203
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418050
Samtals gestir: 37962
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 13:36:47
clockhere