Færslur: 2010 Júlí

10.07.2010 22:52

Grenjavinnslan, - aular af austurbakkanum og ofurdýr vesturbakkans.

Þó glíman við rebbana endi seint, er þó mestu törninni lokið þetta árið.

Það hafa orðið miklar breytingar á atferli refanna og óðulum síðan ég byrjaði í þessu .

Fyrstu árin glumdu undantekningarlaust aðvörunaröskrin í eyrunum  ef dýrin urðu vör við mann. Þetta varð þeim síðan oft að falli þega ég fór að átta mig í þessu nýja verkefni.

 Eins og alltaf í náttúrunni  breyttist þetta, því þau dýr sem staðsettu sig ekki með þessum hætti áttu meiri möguleika á að lifa af í hernaðinum.

Nú eru mörg ár síðan ég hef heyrt aðvörunaröskur í lágfótu.

 Nú er maður að glíma við dýr sem virðast vera komin með auka skilningarvit og finna á sér þegar óvinurinn er kominn á svæðið. Þessi dýr gæta þess síðan vel að halda sig í verulegri fjarlægð og hvika ekki frá vindáttinni af greninu.

   Þetta litaafbrigði á hvolpi hef ég ekki rekist á áður. Hann var undan ofurlæðunni  sjá hér neðar.

 Í Eyja og Miklaholtshrepp var á 7 grenjum þetta vorið.

Þetta er nokkuð stórt svæði frá Haffjarðará í austri, að Baulárvallarvatni í vestri.

Við eru 3 sem sinnum þessu og skiptum svæðinu á milli okkar.

Á þessu svæði eru þekkt tæp hundrað greni en það er nú ekki farið á nærri öll.

 Það var svo sérstakt í vor hversu mörg gelddýr náðust, sérstaklega á austurhluta svæðisins.
Á tímabili virtust spretta upp tvö fyrir hvert fallið.

Ég kenndi þetta því, að Austurbakkamenn skáru niður grenjavinnsluna síðasta ár og rebbunum hefur að vonum litist vel á sig hér á vesturbakkanum, lausir úr þrengslunum þar, og áttuðu sig of seint á því hvernig tekið yrði á móti þeim.

Óþarft er að taka fram að þeir standa vesturbakkadýrunum langt að baki í slóttugheitum.

Þessi var dálítið sérstakur. ekkert genginn úr hárum seinnipartinn í maí.

Reyndar finnst mér mun skemmtilegra að eiga við þá, en hin ferfættu kvikindin af austurbakkanum sem flæða hér yfir eins og engisprettuhjörð þegar kemur fram í júni. Þau fyrirbrigði eru alfriðuð.

 Já það eru fallin um 50 dýr þetta vorið og hvað sem líffræðingarnir og allskonar lið sem hefur hátt um ýmsa hluti í lífríkinu segir, þá veit ég að það myndu gerast ýmsir slæmir hlutir ef þessi hópur væri farinn að herja á náttúruna hér.

 Það er rétt að taka fram að ég veit að hér eru enn í sveitinni nokkur fjöldi dýra.

Það er þó ekkert markmið hjá mér að útrýma refnum enda ekki hægt.

Markmiðið er að halda honum í skefjum og það er nokkuð ljóst í mínum huga að á erfiðasta svæðinu hér, eru of mörg dýr til að fuglalífið sé ásættanlegt.

 Þessi ofurlæða hafði betur 2 sl. vor og mér var löngu ljóst að það yrði að vera tilviljunarkennd heppni sem felldi hana.  Það er alltaf blendin tilfinning þegar svona erfið dýr eru úr sögunni.

 Já, þessu er reyndar ekki lokið því eftir er að fara aðra ferð á nokkur gren því vitað er um a.m.k. tvö óþekkt gren með uppeldi og verður reynt að hitta á þau dýr þegar hópurinn verður farinn að skoða heiminn og ónotuð greni. 

 Síðan á eftir að taka rúnt á fjallagreni sem ekki hafa verið í ábúð lengi, til að sýna næstu kynslóð grenjaskyttna hvar þau eru.

06.07.2010 21:26

Terrí frá Hrossholti - og beina brautin.

  Fæst okkar eru svo heilög að hafa ekki einhverntímann villst af beinu brautinni.

Flest komumst við þó sem betur fer á hana aftur, þó ferðalagið geti stundum orðið skrykkjótt.

Þegar átti að sýna mér Terrí frá Hrossholti átti ég von á að sjá góða takta enda eðalræktun á bak við hana.

 En einhversstaðar á stuttri ævi hafði hún villst af leið hreinræktaðra Border Colliea og í stað þess að komast fyrir kindurnar og halda þeim saman, rak hún þær burt.

Hún gerði það reyndar afbragðsvel en þar sem hún kunni fáar skipanir rak hún þær bara þangað sem þær vildu fara.

 Ég þekki reyndar skógræktendur sem myndu borga vel fyrir svona hund, sérstaklega ef hann myndu nú reka rollurnar í 1 - 2 daga áður en hann sneri heim aftur.

 Eftir 5 mín. áhorf kvað ég uppúr með það að Terrí skyldi verða eftir í sveitinni, þar sem gerð yrði tilraun til að snúa henni af villu síns vegar.

 Þar sem ég er steinhættur að taka í tamningu yrði þetta undantekningin sem sannaði regluna.


Hér er nemandinn hvattur framfyrir hópinn og séð til þess að hann komist alla leið. Hér er það þriðja kennslustundin og allt að koma.

Eftir fyrstu 15 mín. hafði ég hlaupið meira en samanlagt  síðustu 10 - 15 árin.

Ágætt að vita að ég kynni enn að hlaupa, en vont að vita hvaða afleiðingar það hafði.



 Komin framfyrir og stoppuð af, en stoppskipunina kunni hún vel.



 Og svo kemur hún með hópinn á eftir smalanum. Vaskur kúrir sig niður í baksýn tilbúinn að grípa í taumana við minnsta klúður.



 Þetta gengur vel og pottþétt að genin frá okkur Varsa, sem hún hefur frá föðurnum eru farin að virka.


 Ánægð en þreytt eftir þriðja tímann. Það er mikils virði þegar hægt er að rétta af hlutina, þannig að hundinum finnst þetta rosalega gaman.

 Og það er öruggast fyrir Villa á Hríshól  að hafa í farteskinu Whiskýflösku framleidda á síðustu öld ef hann ætlar að ná tíkinni af mér aftur.emoticon


 

04.07.2010 07:55

Sveitamarkaðurinn á Breiðabliki.

 Það er ljóst að þessi árlegi sveitamarkaður á Breiðabliki er kominn til að vera.

Það er að sjálfsögðu þungaviktarliðið í sveitinni, húsfreyjurnar sem kýldu á þetta í upphafi og keyra þetta áfram.

Fjölbreytnin og vörugæðin aukast ár frá ári og salan líka.


Ferðafólk og frumbyggjar hittast á markaðnum.


Vildís og Valgý seldu múffurnar grimmt.



Inga Dóra og Hafdís Lóa létu ekki sitt eftir liggja í smákökusölunni.



Svava fyrrverandi Langaholtsmatmóðir.er greinilega mjög ánægð með þessa fjárfestingu sem er með verðmerkingu og bæjarnúmeri framleiðandans " 24 SH1 "   en þetta flotta listaverk er eftir Steinunni frá Tröð.

Allar vörurnar eru merktar eftir númerakerfi lögbýlanna sem eiga sitt bæjar og sveitarfélagsnúmer
sem er td. lögskipað að merkja sauðféð með.



Þetta er nú ekki rétti árstíminn fyrir prjónavarninginn en hann seldist samt vel, sérstaklega á yngstu kynslóðirnar.



Garðyrkjustöðin á Lágafelli seldi kryddplönturnar og blómin grimmt.



Og ein af uppáhaldsfrænkunum mínum lét sig ekki vanta. Guðbjartur litli Ísak metur pönnsubaksturinn og virðir mannlífið fyrir sér..

Flettingar í dag: 194
Gestir í dag: 27
Flettingar í gær: 322
Gestir í gær: 50
Samtals flettingar: 418041
Samtals gestir: 37957
Tölur uppfærðar: 25.4.2024 12:49:44
clockhere