Færslur: 2010 Febrúar

21.02.2010 08:37

Gömul hestaferð og ógleymanleg ömurleg vísa.

 Fyrir margt löngu var það fastur liður hjá okkur, nokkrum Eyhreppingum að fara ríðandi á Oddann.
Það var á þeim tíma sem Dalamenn héldu hestamót sitt á Nesodda um mánaðarmótin júní/júlí.

Þessar ferðir voru með ýmsum hætti, oftast riðið inneftir daginn fyrir mót og til baka daginn eftir.

Fyrstu árin mín í þessum ferðum létu menn sig oft hafa það að ríða til baka um nóttina eftir skrallið og var þá komið heim í morgunsárið.

Það var síðan eitt vorið að ég var eitthvað upptekinn og hafði ekki tök á að eyða helginni í þetta. Ég var hinsvegar með hóp á járnum m.a. tamningartrippi og þótti illt að sleppa svona ferð.

 Málalyktir urðu þær að ég reið með félögunum inn að Ketilstöðum kvöldið fyrir mótið og ætlaði síðan að fylgja þeim til baka á mánudeginum.

 Það gekk hinsvegar ekki upp og því átti ég fimm hross inn á Ketilstöðum þegar gleðimennirnir voru komnir til byggða á nýjan leik.

 Ég tók síðan nótt í það, að sækja hrossin nokkrum kvöldum seinna og eftir að hafa með miklu harðfylgi komist hjá því að sitja veislu hjá Guðmundi vini mínum Ketilstaðabónda reið ég einn út í sumarnóttina með mín 5 hross.

 Þau voru öll reiðfær en tvö þeirra ekki meira en það.

Það var logn og þegar leið á kvöldið varð mjög lágskýjað og niðaþoka á hluta leiðarinnar.

Það var dólað í rólegheitum, stöðug hestaskipti eftir fyrirfram ákveðnu kerfi og hrossin færð af vinstri hlið á þá hægri eða öfugt . Þetta var á þeim tíma sem hross áttu að teymast við allar aðstæður og lögð vinna í það.

Við Svínavatn var stoppað drjúga stund, eftir fjórir áfangar en tvo þá síðustu yrði lagt á aðalklárinn og bundið upp á hinum fjórum. 

Þarna var lagt á jarpan fola sem var stundum dálítið ókyrr að hleypa manni á bak.

Það getur verið fljótt að myndast flækja ef verið er að hringsnúast með 4 í taumi en þetta hafðist allt í rólegheitunum og í hnakkinn komst ég og af stað í rétta átt.

 Það höfðu orðið til margar vísur um nóttina, ferðin og aðstæðurnar buðu einhvernveginn upp á það að allskonar stuðlað bull rann í gegnum hugann um ólíklegustu tilefni.

 Sumt af þessu var eðli málsins samkvæmt algjör bölvað bull,  þó ódauðleg snilldarverk slæddust að sjálfsögðu með.

 Sá hluti þessa kveðskapar sem ekki gleymdist jafnóðum er löngu týndur og tröllum gefinn jafnt sá ódauðlegi og hinn.

Nema ein vísa.

Sem flokkast undir bullið en ekki þessar ódauðlegu.

 Hún hefur aldrei verið sett á blað en bankar uppá reglulega, stundum með nokkurra ára millibili.

 Ef þessi vísa  hefði ekki orðið til,  væri þessi ánægjulega júnínótt á  Rauðamelsheiðinni í stafalogni og niðaþoku löngu gleymd eins og svo margar sambærilegar.

 Hún varð til um leið og ég komst í hnakkinn á þeim jarpa  og stefnan var sett í rétta átt að næsta áningarstað við Heiðarbæ.

Þokan hér er þykk og dimm.
Þokki í skapi er slakur.
Einn á ferð nú er með fimm.
Ofurlítið rakur.  emoticon 


 

17.02.2010 22:09

Fyrsta hestaferð sumarsins plönuð.


Það er alveg ótrúlegur fjöldi góðra reiðleiða í kringum mig til hreinlega allra átta.

Og margar í sumar áttirnar.

 Þó skömm sé frá að segja er megnið af þeim óriðið af minni hálfu þó ég hafi komið að þeim mörgum á ýmsa vegu, á þvælingi mínum á svæðinu ýmissa erinda.

Þar sem ég hafði nánast óbundnar hendur við skipulagninguna aðrar en kröfur um hæfilegar dagleiðir( ekki of langar ) var ég tiltölulega fljótur að gera fyrstu tillögu að fjögurra daga ferð.



 Þar sem sem reiknað er með slatta af tamningarhrossum sem gætu orðið erfið í rekstri fyrsta daginn var fyrsti áfanginn sérvalinn. Hann verður þvert yfir fjallgarðinn frá Söðulsholti í Álftafjörð.

Þarna er nánast farið meðfram sauðfjárvarnargirðingunni sem liggur þvert yfir nesið sem auðveldar reksturinn verulega.

Þetta er mjög fáfarin reiðleið sem liggur í talsverða hæð og er enn fallegri en aðrar reiðleiðir yfir Nesið sem eru þó allar flottar. Sunnan fjallgarðsins þekki ég landið eins og handarbakið á mér en hef aldrei farið um nyrðri hluta leiðarinnar. 

Þessi dagleið er áætluð um 22 km.


Þessi grænu kort eru tekin traustataki frá hestamannafélaginu Glað í Dalasýslu en þeir eiga velstæðan reiðleiðarbanka sem er til algjörrar fyrirmyndar og hefur algjörlega sloppið við áreiti svikamyllugreifanna.

 Dagur 2 er riðið inn Skógarströndina að mestu eftir gömlu þjóðleiðinni inn í Hörðudal. Reyndar er þjóðvegurinn frekar forn og umferð lítil en ef ekki verða girðingar til trafala verður sá eldri farinn enda mýkri undir hóf.




 Þriðja daginn er áætlað að ríða suður að Hítarhólma og kannski aðeins lengra ef útlit er fyrir flugu á svæðinu.



 Frá Hítardal og í Söðulsholt verður síðan væntanlega farið fjórða daginn. Þar sem forðast á fjörurnar í þessari ferð verður farið í restina leið sem ég hef ekki farið óralengi en þekkti vel til forna.

 Það skemmtilega við þennan hring er að það er margar leiðir til útfrá honum  þar sem auðvelt væri að lengja ferðina um 1-2 daga , nú eða stytta hana.

 Fjölbreytileiki svæðisins er svo mikill í reiðleiðum að nokkur næstu vor væri ekkert mál að búa til aðra  fjögurra daga hringi þar sem engin þessara leiða yrði farin.

 Nú er bara að vona að tamningargengið hræri eitthvað í þessu,  svo hægt sé að halda áfram að spekúlera.emoticon 

16.02.2010 00:18

Foktjón á hestamiðstöðinni.

Nú er aftur komin hreyfing á súrefnið á Nesinu og maður farinn að kannast við sig.

 Hvellurinn sem skall yfir í morgun kom illa við vélageymsluna í Söðulsholti og reyndar mildi að ekki fór enn verr. 



 Þakglugginn á vélageymslunni sviftist af í heilu lagi  og sveif niður fyrir kletta.  Þar lenti hann í hestaskjólinu/ kvosinni þar sem verðlaunahryssur búsins stóðu í hvanngrænni töðunni sem þeim hafði verið gefið 30 mín áður.


 Það er að sjálfsögðu  alvöru álfabyggð í klettunum hans Einars og ekki ólíklegt að þeir hafi séð þetta fyrir og gert góðum granna þann greiða að fjarlægja hrossin í tíma.

Svo getur  almættið annaðhvort hafa verið búið að stugga við þeim eða einhver hávaði fylgt þessum veðurgjörningi,  allavega voru hryssurnar og folöldin búin að forða sér úr heyinu þegar að glugginn skall þar niður.

 Stundum tala menn um lán í óláni.


Flettingar í dag: 35
Gestir í dag: 5
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 418992
Samtals gestir: 38077
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 04:55:56
clockhere