21.02.2010 08:37

Gömul hestaferð og ógleymanleg ömurleg vísa.

 Fyrir margt löngu var það fastur liður hjá okkur, nokkrum Eyhreppingum að fara ríðandi á Oddann.
Það var á þeim tíma sem Dalamenn héldu hestamót sitt á Nesodda um mánaðarmótin júní/júlí.

Þessar ferðir voru með ýmsum hætti, oftast riðið inneftir daginn fyrir mót og til baka daginn eftir.

Fyrstu árin mín í þessum ferðum létu menn sig oft hafa það að ríða til baka um nóttina eftir skrallið og var þá komið heim í morgunsárið.

Það var síðan eitt vorið að ég var eitthvað upptekinn og hafði ekki tök á að eyða helginni í þetta. Ég var hinsvegar með hóp á járnum m.a. tamningartrippi og þótti illt að sleppa svona ferð.

 Málalyktir urðu þær að ég reið með félögunum inn að Ketilstöðum kvöldið fyrir mótið og ætlaði síðan að fylgja þeim til baka á mánudeginum.

 Það gekk hinsvegar ekki upp og því átti ég fimm hross inn á Ketilstöðum þegar gleðimennirnir voru komnir til byggða á nýjan leik.

 Ég tók síðan nótt í það, að sækja hrossin nokkrum kvöldum seinna og eftir að hafa með miklu harðfylgi komist hjá því að sitja veislu hjá Guðmundi vini mínum Ketilstaðabónda reið ég einn út í sumarnóttina með mín 5 hross.

 Þau voru öll reiðfær en tvö þeirra ekki meira en það.

Það var logn og þegar leið á kvöldið varð mjög lágskýjað og niðaþoka á hluta leiðarinnar.

Það var dólað í rólegheitum, stöðug hestaskipti eftir fyrirfram ákveðnu kerfi og hrossin færð af vinstri hlið á þá hægri eða öfugt . Þetta var á þeim tíma sem hross áttu að teymast við allar aðstæður og lögð vinna í það.

Við Svínavatn var stoppað drjúga stund, eftir fjórir áfangar en tvo þá síðustu yrði lagt á aðalklárinn og bundið upp á hinum fjórum. 

Þarna var lagt á jarpan fola sem var stundum dálítið ókyrr að hleypa manni á bak.

Það getur verið fljótt að myndast flækja ef verið er að hringsnúast með 4 í taumi en þetta hafðist allt í rólegheitunum og í hnakkinn komst ég og af stað í rétta átt.

 Það höfðu orðið til margar vísur um nóttina, ferðin og aðstæðurnar buðu einhvernveginn upp á það að allskonar stuðlað bull rann í gegnum hugann um ólíklegustu tilefni.

 Sumt af þessu var eðli málsins samkvæmt algjör bölvað bull,  þó ódauðleg snilldarverk slæddust að sjálfsögðu með.

 Sá hluti þessa kveðskapar sem ekki gleymdist jafnóðum er löngu týndur og tröllum gefinn jafnt sá ódauðlegi og hinn.

Nema ein vísa.

Sem flokkast undir bullið en ekki þessar ódauðlegu.

 Hún hefur aldrei verið sett á blað en bankar uppá reglulega, stundum með nokkurra ára millibili.

 Ef þessi vísa  hefði ekki orðið til,  væri þessi ánægjulega júnínótt á  Rauðamelsheiðinni í stafalogni og niðaþoku löngu gleymd eins og svo margar sambærilegar.

 Hún varð til um leið og ég komst í hnakkinn á þeim jarpa  og stefnan var sett í rétta átt að næsta áningarstað við Heiðarbæ.

Þokan hér er þykk og dimm.
Þokki í skapi er slakur.
Einn á ferð nú er með fimm.
Ofurlítið rakur.  emoticon 


 

Flettingar í dag: 2528
Gestir í dag: 261
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 430507
Samtals gestir: 39776
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 19:49:53
clockhere