Færslur: 2009 Nóvember
29.11.2009 09:45
Fyrsti vetrarbylurinn.
Það hlaut að enda með því að gerði smábylgusu og reyndar er fyrsti bylur vetrarins hér, um einum og hálfum mán. seinna á ferðinni en oft áður.
Það var mjög fínt að fá hann ekki fyrr en allt er komið á hús sem inni á að vera, og enginn útigangur norpandi um hér í boði umhverfisráðherra.
Svona leit þetta út gegnum eldhúsgluggann út í ljósastaurinn í morgunsárið.
Þetta er að vísu töluvert mikið ýkt ástand því enn sem komið er virðist þetta ætla að verða hálfgerður aumingjabylur hvorki mjög hvasst né mikil snjókoma sem er auðvitað ágætt líka.
Sá tími sem mér þótti afspyrnuhressandi að komast út í blindbyl er löngu liðinn og kemur að öllum líkindum aldrei aftur.
Þar sem veðurhæðin er ekki með eðlilegu móti núna hefur aðeins dregið í skafla, en við eðlilegar aðstæður fýkur snjórinn oftast á haf út án lendingar í landi.
Í góðmennskukasti gærdagsins hafði ég boðist til að gefa morgungjöfina í hestamiðstöðinni.
Það var náttúrulega þegið áður en mér gafst ráðrúm til að bakka útúr því, svo eftir smákaffipásu var brunað niðureftir og gefið.
Ég skildi snör viðbrögð hestamiðstöðvarliðsins við gjafaboðinu þegar kom í ljós að það þurfti að byrja á að sækja rúllu út.
Það var bara gaman að þessu og trúlega væri ég vel nothæfur hrossahirðir með hæfilegri tilsögn.
Svona til að fari smá hrollur um hrossaliðið er rétt að smella hér inn mynd af hrossagerðinu síðan í feb. 2008.
Og .þessi fær líka að fljóta með til að sýna að snjórinn á líka sínar skemmtilegu hliðar.
Já það er bara allt í góðum gír í sveitinni.
27.11.2009 08:57
Stressviku að ljúka.
Það lá fyrir að allt þyrfti að gerast þessa vikuna svo bændurnir gætið horft slakir inní veturinn.
Og þetta gekk allt upp.
Það tókst að renna með tætara yfir það sem brýnast var í ökrunum þó þar hefði mátt gera betur.
Í svona þurrkatíð er akuryrkjan skemmtileg og enginn lætur sig dreyma um svona græju.
Það gæti kannski gerst í vor.
Tími fannst í að afgreiða eða gera klára fyrir afgreiðslu, byggsekkina sem rollukallar víðsvegar um vestan og norðanvert landið tókst að særa út, þó við nennum nú varla lengur að afhenda byggið valsað og sekkjað.
Ég hef alltaf lúmskt gaman af hobbýbændunum sem eru oft að fjárfesta í hálfum sekk handa sínum fáu kindum og eru síhringjandi frá miðju sumri, fyrst til að tryggja sér byggið og síðan að pína mig til að afhenda það í tíma fyrir fengitíð.
Ég held að sumir þeirra hafi verið orðnir nokkuð pirraðir í restina.
.
Og Þorkell á Mel lauk jaðýtuvinnunni í gærkveldi, svo nú liggur fyrir að kalka og hugsanlega koma hálmskít í 9 ha. af nýbrotnu landi sem tekið verður undir byggrækt næstu árin.
Ef guð lofar og tíðarfarið verður skaplegt, lítur þetta kannski svona út næsta haust.
Fullorðna féð var svo loksins tekið inn í gær og byrjað að klippa það. Því verki mun svo að öllum líkindum ljúka í dag.
Skógræktarbóndinn í Dalsmynni býður mér svo með sér í jólahlaðborð vestlenskra skógarbænda í kvöld, þó ég sé nú ekki mjög handtakagóður að hjálpa henni í skógræktinni.
Það verður ágætis slútt á þessarri púlviku.
25.11.2009 23:38
Refur,minkur,elítan og ruglið.
Reyndar er útrýmingarverkefnið nú kynnt sem rannsókn á því, hverju aukið veiðiálag skilar !!!
Sú stefnubreyting hefur trúlega verið tekin eftir að klúðrið hér á Nesinu varð mönnum ljóst.
Það er held ég útilokað að rökstyðja það, að á Snæfellsnesi hafi verið gerð alvöru tilraun til að útrýma minknum enda stór svæði sáralítið eða óveidd. Skipulagið í upphafi og eftirfylgni þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmd útrýmingarátaksins er þannig, að efasemdir vakna um að nokkurtímann hafi verið stefnt að útrýmingu villiminks hér á Nesinu.
Reyndar þarf heljarlangt blogg til að fara yfir það sem manni finnst hafa farið úrskeiðis í átakinu á Snæfellsnesi.
Þegar við, sem þekkjum til minkaveiða gluggum í skýrslurnar, er reyndar ekkert sem kemur á óvart varðandi þær niðurstöður sem þó liggja fyrir.
Það er að sjálfsögðu löngu vitað að mikið veiðiálag heldur minknum svo til alveg niðri.
Það eru síðan til á landinu stór svæði sem ötulir veiðimenn halda algjörlega minklausum.
Þar þurfti engar rannsóknir , bara ákvörðum manna í héraði að gera það.
Í framhaldi af niðurskurði ríkisins á málamyndaframlagi þess til refaveiði, er hafinn mikill söngur hjá rannsóknarelítunni að nú þurfi að rannsaka ýmislegt varðandi refinn.
Ég er nokkuð öruggur á því að ef farið yrði í þær rannsóknir, kæmu niðurstöðurnar fjölmörgum nákvæmlega ekkert á óvart.
Þeir eru býsna margir sem vita hvað gerist þegar það er orðinn innan við 1 km. milli grenja og slatti af gelddýrum, til viðbótar á svæðinu.
Þó frjósemin minnki er svæðið samt algjörlega ofsetið og þar sem enginn ungi kemst upp, sér nokkuð fljótt á fuglalífinu. Og vitið þið það, að ótrúlega margir átta sig á því að hér er borðleggjandi niðurstaða án " rannsókna".
Þessir tveir í felulitunum voru á nýju greni og fuglalífið var enn í fínu lagi í kring. Og verður líka næsta vor.
Menn vita alveg hvernig fuglalífið á Hornströndum er komið þó elítan skjóti sér á bakvið það að engar " rannsóknir " hafi verið gerðar þar fyrir friðun refsins.
Því sé " ekkert " vitað um áhrif refafjölgunar á fuglalífið þarna.
Menn sem gjörþekkja þetta svæði fyrir og eftir rebbafriðun eru að vísu eitthvað að tala um algjöra útrýmingu mófugls á svæðinu.
Reyndar halda þeir því líka fram að þar sem áður voru þéttsetin fuglabjörg, sé nú einungis bjargfugl í þeim hluta bjargsins sem tófan kemst ekki um.
Þetta eru náttúrulega ekki " rannsóknir" og lítið mark takandi á einhverjum villimönnum sem ólust upp fyrir norðan hníf og gaffal.
Og meira að segja elítan í Fuglaverndunarfélagi Íslands hefur ekki skoðun á því hvort hætta eigi refaveiðum, vegna þess að áhrif þess á fuglalífið hafi ekki verið "rannsökuð".
Þar heggur sá er hlífa skyldi.
Þó þeir skipti hundruðum Íslendingarnir sem þekkja þennan málaflokk býsna vel og vita hvað veruleg minnkun veiðiálags á rebbanum þýðir, þá hafa þeir náttúrulega engar " rannsóknir " á bakvið þekkingu sína á atferli rebba kallsins og hvað veruleg fjölgun hans þýðir.
Sumarbústaðaeigendurnir sem skilja ekkert í því að allur fugl er horfinn, eru meira að segja að uppgötva hvað þeir eru að fá í staðinn, þegar þeir missa svefn vegna gaggandi yrðlinga.
Leiðin útúr þessu rugli er einföld.
Sveitarfélögin taka algjörlega yfir refaveiðarnar, kosta þær og ákveða hvernig að þeim skuli staðið.
Ríkið tekur hinsvegar yfir minkaveiðarnar á landsvísu og kostar þær.
Til að hámarka nýtingu á peningum, og árangur minkaveiðanna, myndi ég ráðleggja Umhverfisstofnun sem væntanlega tæki þetta yfir, að halda sig við veiðimennina sem ráðgjafa og umsjónarmenn minkaveiðanna.
Rannsóknarelítuna ætti að setja í eitthvað sem hún ræður við og hefur vit á.