Færslur: 2009 Mars

15.03.2009 21:25

Hátæknihesthúsið.

 
  Þeim fjölgar sífellt sem setjast að í sveitinni án þess að vera að baslast með rollur eða hinar litfögru landnámskýr.

  Þó að sumir finni nóg til að rísla við verða þeir oft að hafa lifibrauðið einhversstaðr fjarri sveitasælunni og í versta falli dvelja hluta af vinnuvikunni þar.

  Ég kom í hesthúsið hjá einum slíkum nýlega. Hann er að ljúka við að setja upp stíur með sjálfóðrunarbúnaði sem hugsar um hrossin af mikilli natni meðan bóndinn sinnir brauðstritinu nokkra daga í viku á malbikinu.

   Rafdrifinn tjakkur sér um að velta jötunum innfyrir milligerðina á ákveðnum tímum.Hér eru tvær utanvið en ein inni. Tölvuboxin og tjakkarnir sjást hér við hliðina á jötunum.

  Þetta fyrrverandi fjárhús er ansi breytt og hér sjást stíurnar með útveggnum. Jöturnar eru tölvustýrðar og tímastillir sér um að skammta hrossunum ákveðinn áttíma á sólarhring.



   Jöturnar eru fylltar af heyi og með myndavélum  getur bóndinn fylgst með hrossunum hvaðan sem er gegnum tölvuskjá. Gjafatímanum getur hann einnig breytt hvaðan sem er svo fremi sem nettenging sé fyrir hendi.


 Í gólfi hverrar stíu er rist, opnanleg með raftjakk. Þar er öllu mokað reglulega niður. Notaður er hálmur í undirburð.

   Hér er verið að leggja lokahönd á aðra útfærslu. 4 stíur umhverfis ferhyrning . Þar verður sett heyrúlla og tölvustýrðir hlerar skammta hrossunum áttímann.



  Hér sjáum við yfir stíurnar 4 og rúlluferninginn í miðjunni.



  Þessi ungi maður var í heimsókn í sveitinni og hjálpaði afa sínum að klára rúlluvagninn.



   Bóndinn og nágranninn voru bara nokkuð sáttir við framkvæmdina og Kolla horfði ánægð á þá.
Hún var líka í heimsókn í sveitinni og mátti gera allt sem hana langaði til án þess að eigandinn væri að siða hana.

  Nei, nei , þetta er ekkert bilun. Þetta er algjör snilld.emoticon



 

12.03.2009 09:11

Hin litfagra íslenska landnámskú.

 
  Megum við kaupa og reka bújörð á Íslandi, spurðu tveir bændanna  í danska bændahópnum sem heimsótti mig í fyrrasumar.

  Þeim hafði með mikilli ýtni tekist að toga upp úr mér framleiðandaverðið á mjólkinni.

Ég hafði vonast til að sleppa, með að gefa þeim bara upp afurðarstöðvarverðið sem þeim þótti hátt.
Í hópnum voru hinsvegar gamlir refir sem létu ekki plata sig og þegar ég hafði hvíslað því upp hver beinn framleiðslustyrkur væri til viðbótar, fékk ég ofangreinda spurningu.

  Fyrir svona 25 árum hitti ég mikinn þungavigtarmann í íslenskri nautgriparækt. Ég hafði nýlega verið að skoða  tölur um afurðir nokkurra erlendra kúakynja og spurði spekinginn hvenær við íslendingar myndum ná þessum kúastofnum í afköstum og heilbrigði.

  Gúrúinn leit íhugandi á mig,  hugsaði sig aðeins um og sagði svo umbúðarlaust  að vegna smæðar íslenska stofnsins og einangrunar frá betri erfðaefnum yrðu íslenskar kýr alltaf tugum prósenta og áratugum á eftir mörgum erlendum kúakynjum í afurðum ,heilbrigði og mjaltaeiginleikum.

Á þessum árum lét ekki nokkur heilvita maður sér detta í hug að flytja inn erfðaefni í kýr, þó um þetta leyti væri farið að huga að innflutningi á erfðaefnum fyrir svín og fiðurfénað. Sá innflutningur gjörbreytti rekstrarstöðu þeirra greina sem kom fljótt fram í verulegum lækkunum á framleiðsluverðinu.


 Þessi kýr er að slaga upp í ársnyt erlendra kúa. Hún er hinsvegar of lágfætt og júgrað þolir ekki afköstin og slitnar niður. Þegar mjaltatækið liggur á gólfi eins og hér í stað þess að hanga eins og það er hannað fyrir, er það ávísun á skemmd á spenum og júgri sem er aftur ávísun á júgurbólgu.  

 Á spjallvef kúabænda er nú í gangi umræða um innflutning erlendra kúastofna og er hún með allra málefnalegasta móti.  Lítið sést af rökum þar sem borin eru saman erlend meðaltöl á móti  íslenskum toppbúum, nú eða jafnvel einstökum toppkúm sem á þá að sýna hvert stefnir með þeirri "öruggu" og "markvissu" ræktun sem sumar telja að sé í gangi á Íslandi í dag.

  Og enginn hefur misst sig í þjóðernistilfinningu enn.


Ótrúlega hátt hlutfall kúnna er felldur fyrir aldur fram vegna júgurvandamála. Það er dýrt, rándýrt ,að ala upp grip til að fella hann eftir 2 til 3 mjaltaskeið, nú eða fyrr.

  Staðreyndin er sú að meðan íslenska þjóðin er tilbúin að borga óhagkvæmnina sem liggur í okkar heittelskuðu   landnámskú  ættum við framleiðendurnir ekki að hafa áhyggjur. Sagan kennir okkur þó að það er litlu að treysta í þeim efnum.

  Þegar þrengir að og verðin lækka mun koma í ljós hve illa settir framleiðendur eru með þessi framleiðslutæki í höndunum.
Það er óumdeilt að ríkisvaldið hefur með afnámi verðtryggingar á búvörusamningum, brotið gerða
samninga. Vegna aðstæðna virðast bændur ætla að láta það yfir sig ganga.
 Sem betur fer eru nokkur ár í endurnýjun samninga en það bendir fátt til þess að við fáum yfirstandandi og væntanlegar verðhækkanir á rekstrarkostnaði bættar og framundan sé því talsverður öldudalur í afkomunni.

  Við erum öll ákveðin í að viðhalda íslenska kúastofninum, en þessi leið sem við förum til þess, er alveg rosalega dýr.emoticon

Hvað gerist þegar við höfum ekki efni á því lengur??emoticon
Verða bændurnir látnir bera kostnaðinn með verri afkomu??emoticon

09.03.2009 20:13

Fjallið, Múhameð og hann Sigur frá Hólabaki.

 

   Hrossaræktin hér í Dalsmynni hefur aldrei verið stór í sniðum. En með hugarfari sjálfsþurftarbóndans  var faðir minn löngum sjálfum sér og sínum nógur með hross og lítið keypt eða selt þó á tímabili þyrfti margt tamið fyrir mannmargt heimili.

  Hann hafði gaman af að vera vel ríðandi og þó hrossakosturinn væri ekki samkvæmt nýjustu  kröfum  var alltaf eitthvað vel nothæft til.
 
  Maður fór fljótt að gera ákveðnar kröfur. Fyrst með það að hrossin kæmust áfram þegar á þurfti að halda og síðar var manni ekki alveg sama  hvernig þau fóru að því.

  Þó að maður geti talið á fingrum annarrar handar alvöruhrossin frá þessum árum þá hlýnar manni um hjartaræturnar við að hugsa til þeirra.

  Á tímabili lagði ég af hestamennskuna og fyrir svona 10 árum tók ég þá ákvörðun að hætta hrossarækt og folaldaframleiðslu.

  Ég held því fram að það sé til marks um ákveðna skynsemi að geta skipt um skoðun á einhverju og þó ég þekki menn sem halda því fram að ég geti það ekki, þá skipti ég um skoðun í hrossaræktunarmálunum.
  Nú á ég hlut í nokkrum ræktunarhrossum og eina hryssan sem ég á eftir úr gömlu Dalsmynnisræktuninni skilar nú einu folaldi á ári og sér ekki fyrir endann á því.


 Í þessum fola á þriðja vetur, Funa frá Dalsmynni sé ég ýmsa takta sem ég kannast við síðan í gamla daga.

 Það þekkja allir sem hafa átt afbragðs hest, nú eða hund að þegar þeir eru horfnir úr notkun hefst endalaus leit að sambærilegu dýri. Þó ég viti að slík leit muni trúlega aldrei bera árangur leita ég samt.
  Þegar ég fór að leita ráða hjá fagfólkinu um stóðhest sumarsins, snemma í vetur bentu þau mér á stóðhest sem myndi trúlega höfða til sérviskunnar í mér. Eftir að hafa kynnt mér málið hafði ég síðan samband við eigandann  til að vita hvar hægt væri að hitta á gripinn  á seinna tímabilinu í sumar. Stundum þróast svo hlutirnir á dularfullan hátt og rétt eins og fjallið kom til Múhameðs í den, þá endaði þetta með því að stóðhesturinn kæmi til hryssunnar minnar og dveldi hjá henni og væntanlega fleirum, seinna tímabilið í sumar.

 

    Svo Sigur frá Hólabaki kemur alla leið frá Reyðarfirði til að reyna kynbætur vestur á Snæfellsnesi.

  Það er eins gott að ég fái folald út úr því.emoticon  

  Já, merfolald með lit og eitthvað fleira frá föðurnum. emoticon 
 

 

Flettingar í dag: 506
Gestir í dag: 68
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 414154
Samtals gestir: 37235
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 14:12:14
clockhere