Færslur: 2009 Janúar

04.01.2009 20:04

Brennan mikla.


  Það er komin hefð á brennuna í Söðulsholti og þó Einar láti í það skína árlega að nú verði þetta síðasta brennan,  er fyrr en varir kominn mikill spýtuhaugur á holtið hjá honum.

 Gærkvöldið var tekið í brennuna sem er því sambland af áramóta og þrettándabrennu.
Þetta er í leiðinni hálfgert ættarmót hjá Einari og Ingu, því börnin og barnabörnin mæta gjarnan og slútta jólunum í sveitinni.



  Það hefði alveg mátt vera aðeins minni hreyfing á súrefninu en þetta var þó í lagi enda hlýtt í veðri.
Hrossasmalarnir hafa í nógu að snúast því bóndinn splæsti auðvitað í alvöru flugeldasýningu enda á þetta að sjálfsögðu að vera síðasta brennan.
 Hrossunum var því öllum smalað heim í þetta sinn og síðan verður sú smölun endurtekin á þrettándakvöld  vegna reynslunnar frá því í fyrra.



  Flugeldasýningin  var meiriháttar og litlu munaði að við fengjum að sjá kerruna hjá Atla loga til viðbótar við sjóið, þar sem hún var höfð sem skotpallur.




  Þessi unga snót sem var langt að komin í heimsókn hjá afa og ömmu í Söðulsholti, þótti þetta mikil upplifun.




 Já þetta var mjög fínt og kakóið hjá Önnu Margréti á eftir, var enn betra en í fyrra.

Og eftir vandlega íhugun var ákveðið að hafa myndaalbúmið ólæst,emoticon   en þið missið af áhugaverðustu myndunum.emoticon 

02.01.2009 09:11

Flóttadýr sótt í Þverdalinn.


  Bjartsýni er nauðsynleg á þessu síðustu verstu, en kastið sem við Iðunn voru í um miðjan gamlársdaginn,þegar við ákváðum að láta tittina og Hyrjar vera í hólfinu sínu á nýársnótt, það hefur trúlega verið bjartsýniskast ársins.

 Það er rétt að taka fram að þegar dóttirin ýjaði að því, hvort hrossin í fjallinu yrðu líka látin vera , þar sem þau væru nú lengst innfrá, þá sagði gamli maðurinn þvert nei. Rjúpnaplokkararnir sóttu þau því , en sá gamli sat afmælið í Reykjavíkinni hinn rólegasti.

  Það fór hinsvegar að fara um hann þegar djöfulgangurinn byrjað um miðnætti. Það var logn og hljóðbært með afbrigðum og þegar mér fannst ég sjá félaga húsbílaklúbbsins á planinu við Garðskagavita, skjóta útrásarvíkingunum út á hafsauga var mér öllum lokið.

 Eftir órólegan nætursvefn og morgunmjaltir  beið ég ekki birtunnar með að skanna girðinguna sem hestarnir áttu að vera í, á fjórhjólinu.

Þar voru engir tittir og alls enginn Hyrjar..

 Um leið og birti var brunað inn á dal og þar sem mikill reynslubolti var á ferðinni, þegar hrossaleit eftir sprengjuárásir er annarsvegar, var ekki stoppað fyrr en sást um allan dalinn. Þaðan   voru hlíðar skannaðar með Zeissinum upp í neðstu klettabeltin.
Það varð mikið spennufall þegar ég sá hestana ofarlega í Þverdalsbotninum.



  Það kom í hlut sökudólganna að sækja þau. til þess voru gripnir skjóttu klárarnir hans Einars.


  Hér sjást þau ríða heldur framlág inn Núpudalinn. Þau hafa reyndar oft verið betur ríðandi, Einar minn.



  Ég get fullvissað ykkur um að þetta var mikið puð að komast þarna upp. Gönguformið var frekar dapurt eftir hóglífi jólanna. Smalarnir sjást óljóst á miðri mynd dragandi klárana upp.


  Allar myndirnar hér fyrir ofan eru teknar með alvöru myndavél heiman frá Dalsmynni af letingjanum sem nennti ekki að fara.

  Hér fyrir ofan erum við og hestarnir sitthvoru megin við smá gil, til vinstri við miðju á myndinni.



  Svona leit þetta út hjá okkur Iðunni. Já hann er alltaf svo dj. flottur þessi rauði sem ég man ekki hvað heitir.



  Þessi rauði snillingur hafði leitt hópinn á móti okkur og nú tók hann forystunu niður, á eftir Iðunni eins og fullslípaður rekstrarhestur.



 Og það var svo gott að komast í rúlluna sína eftir erilsama nýársnótt.

Nú tekur raunsæið við og engin bjartsýnisköst verða leyfð framar.emoticon

01.01.2009 09:10

Gamlársdagur.

 


Það  snjóaði í logni hér heima og þegar komið var á austurbakkann bætti vel í snjókomuna. Þegar svo  kom suður á Mýrarnar birti til og við fengum fínt veður í bæinn.

  Það var verið að fara í árlegt afmæliskaffi hjá tengdapabba sem varð hvorki meira né minna en 91 árs.  Það lá vel á börnunum hans ( sem eru nú reyndar alls engin börn lengur), og viðhangendum þeirra. Reyndar þyngdi aðeins yfir samkvæminu þegar einhver ógætileg orð féllu um Jón Ásgeir en það birti fljótt til aftur og þetta varð hin ánægjulegasta stund. En það er nefnilega þannig með hana tengdamömmu að hún á sér tvo guði. Þennan alvöru og svo hann Jón Ásgeir, ( hann er nefnilega með svo falleg augu) . Þar sem það er óralangt síðan hvarflað hefur að mér að mótmæla tengdamömmu var það ekki ég sem olli þessu, heldur voru mágur minn og elsti sonur eitthvað að hnýta í hann blessaðan.

 Þar sem við gömlu, eldri bændurnir meinti ég , áttum að sjá um kvöldmjaltir var rúllað til baka um fjögur og aðaláhyggjuefnið var magamálið eftir hnallþórurnar hjá tengdó. Því heima í sveitinni gekk mikið á. Yngra settið í Dalsmynni og Hrossholtsbændur ætluðu nefninlega að efna til mikillar veislu um kvöldið þar sem boðið yrði uppá rjúpur og andabringur. Það voru því reyttar rjúpur af miklum móð og hamast við matseldina allavega frá hádegi. Það var reyndar tekinn tími í að smala  hrossahólfin og koma öllu heim í gerði, því væntanlega yrði órólegt í sveitinni áður en lyki.


                               Þessi snjór er að vísu ekki fyrir hendi lengur.

  Þar voru flóðljósin sett á og spiluð róandi tónlist, svo þau yrðu sem minnst vör við þegar síðustu peningarnir í sveitinni yrðu sprengdir í loft upp.


                                Ættmóðirin og langömmubarnið.

  Rjúpan og öndin voru algjört sælgæti, en þarna voru nokkur að bragða rjúpuna í fyrsta sinn. 


Það var síðan stafalogn og hljóðbært um kvöldið. og mikið sjó í gangi en héðan sést bæði  til Akraness og Reykjarvíkusvæðisins í góðu skyggni eins og í gærkveldi. Brennan okkar Eyhreppinganna bíður hinsvegar betri tíma.

  Öllum þeim sem hafa enst til að lesa þetta, óska ég gleðilegs árs og þakka kærlega fyrir það gamla. Þeir sem eru duglegir að kommenta fá sérstakar þakkir fyrir ánægjuleg samskipti á liðnu ári.emoticon 

  

Flettingar í dag: 239
Gestir í dag: 52
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418902
Samtals gestir: 38063
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 19:27:49
clockhere