Færslur: 2009 Janúar

12.01.2009 09:03

Afadagarnir.



   Leikskólinn í sveitinni er rekinn samhliða grunnskólanum og er opinn 4 daga í viku .

Afastelpan er því í tómarúmi á föstudögum, því allt er á fullu í hestamiðstöðinni þar sem foreldraómyndirnar eyða deginum.

 Það er algjör meirihluti fyrir því innan fjölskyldunnar að afinn hafi ekkert þarfara að gera en stjana við litlu dömuna þennan dag. enda geri hann sjaldnast nokkuð af viti. Reyndar mætir amman úr kennslunni á hádegi. Þrátt fyrir þessar staðreyndir verður það að viðurkennast, að það sem af er vetri hefur kallræfillinn haft svo mikið að gera að þeir eru átakanlega fáir föstudagarnir  sem hann hefur sinnt þessari skyldu sinni .

  Það hefur hinsvegar fylgt afanum alla tíð að bæta sig um áramót. Þau eru nú að verða nokkuð mörg, enda er kallinn ekki nærri eins slæmur og hann var.

 Föstudagurinn var því afadagur( fram á hádegi ) og þetta gekk vel hjá okkur afastelpunni.

Ákveðin var hún í fyrra og hefur heldur bætt í með það eins og annað.  Nú duga engin undanbrögð við skipulagningu dagsins. Byrjað var á að sækja bókina með vonda drekann og kallinn með síða skeggið og farið ýtarlega yfir þær skelfingar.

 Næst var bókin um geiturnar þrjár, sótt í bókakassann. Því miður hefur einhver vondur kall komist í þá bók síðan ég las hana fyrir börnin mín og nú er hún ekki um kjarnafjölskylduna lengur og á allan hátt hundleiðinleg. Myndirnar eru hinsvegar nothæfar svo þær eru notaðar utanum söguþráðinn sem er spunninn jafnóðum.



 Nú var komin kaffipása hjá afanum og dótakassinn því dreginn fram. Afastelpan er vön að dunda sér ein, rétt eins og afinn í gamla daga. Og eins og hann, talar hún hástöfum við sjálfa sig en  á einhverri mállýsku sem ég skil ekki. Afinn talar enn mikið við sjálfan sig, en það er ákaflega langt síðan hann hætti að gera það upphátt. Þar sem kölkunin ágerist hratt má þó búast við að hann taki þó fljótlega upp á því aftur, en það er þá annarra vandamál.


Það sveif  engin kreppa yfir Dalsmynninu þennan föstudagsmorgun.emoticon 



  

10.01.2009 22:38

Og hvað svo??


   Já, hverjir eiga svo að taka við ef allir hætta , spurði tengdapabbi kankvís, þegar ég droppaði hrollkaldur í kaffi til tengdaforeldranna eftir að hafa tekið púlsinn á Austurvellinum.



    Ég sem hafði nú velt þessari spurningu fyrir mér í talsverðan tíma, verð sífellt harðari á því að það eigi að skipta út talsverðum hópi pólitíkusa og embættismanna  á árinu.

  Fyrir þó nokkrum árum var lagt upp í ævintýri sem átti að leiða okkur skerbúana til breyttri og betri tíma. Ég er í engum vafa um að flestir þeir sem leiddu þá för gerðu það í góðri trú og eins og allir góðir foreldrar, litið fram hjá brestunum sem fóru að droppa upp hjá afkvæminu.

 Nú þegar allt er komið á hliðina, kemur í ljós að þeir eiga erfitt með að koma auga á það sem miður fór í uppeldinu og allra síst að  þeir eigi þar nokkra sök.

 Og guðfaðirinn sjálfur situr í Seðlabankanum og segir bara  " taka tvö".

 Þess vegna held ég að það sé mjög brýnt að fá nýja menn sem geta leyft sér að líta gagnrýnum augum til baka og vinni úr mistökunum. Það þarf trúlega að yngja dálítið verklega upp til að slíta á hagsmunartengslin sem áttu talsverðan hlut í óförunum.

  
Guðni á Guðnastöðum blés svo í baráttulúðra og skoraði  á bændur að láta til sín taka í þessu andófi og mæta á völlinn.



 Þeir mættu léttvopnaðir sunnlendingarnir í dag, enda verður það séraðgerð þegar vélaflotinn verður leystur úr læðingi og haldin alvöru dótasýning á götum höfuðborgarinnar.



  Það féll vel í kramið hjá tilvonandi ásatrúarmanni að þeir mættu með hauskúpu af hrossi á níðstöng og rétt að taka allsherjargoðann með á næsta fund.





   Já það þarf svo að koma stíganda í þetta með hækkandi sól.emoticon 
 

 

09.01.2009 15:20

Mótmæli við Austurvöll , og allir saman nú.

 
  Það á nú ekki að mæta með haugsugurnar í þetta sinn en upplagt að skreppa á útsölurnar.
Síðan væri fínt að hvíla sig á þeim um miðjan daginn og kæla sig niður á Austurvelli.
  Allir lesendur heimasíðunnar minnar eru sérstaklega hvattir til að mæta á friðsamleg mótmæli við öllu ruglinu.   emoticon


Fréttatilkynning
Bændur á baráttufund á Austurvelli nk. laugardag


 

Hópur bænda hefur komið sér saman um að mæta á stóra baráttufundinn sem haldinn verður á Austurvelli laugardaginn 10. jan kl. 15:00.

Nú hvetjum við alla bændur, starfsmenn afurðastöðva og allt landsbyggðarfólk að mæta á Austurvöll og sýna samstöðu gegn andvaraleysi ríkistjóranarinnar og spillingu í stjórnkerfinu.

Með baráttukveðju,
Baráttuhópur bænda


Flettingar í dag: 206
Gestir í dag: 36
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414767
Samtals gestir: 37298
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 13:57:48
clockhere