Færslur: 2009 Janúar

22.01.2009 21:58

Óstjórn, þjóðstjórn, óbreytt stjórn eða einhver stjórn??


  Þó ekki virðist mjög spennandi tímar framundan í í lífskjara og dótakapphlaupinu, blandast engum hugur um, að nú er allt að gerast í pólitíkinni. Refskákin komin á fullt og stjórnarslitin að bresta á. 

  Gúrúinn sem talaði við mig í dag, sagði sem satt var að nú væru sjálfstæðismenn í þröngri stöðu.
Dyttu þeir út úr stjórnarsamstarfi eins og stefndi í, ættu þeir sér ekki viðreisnar von næstu 2 kjörtímabil. Það yrði þeim óbærilegt og myndi valda miklum skakkaföllum á valdapýramídanum sem þeir hafa komið sér upp.emoticon 
 Eina færa leiðin fyrir þá, væri að leggja til þjóðstjórn sem myndi starfa fram að kosningum næsta haust. Til að gera tillöguna trúverðuga yrðu að koma að stjórninni einhverjir utanflokkamenn.

   Kratarnir væru í áfalli eftir síðustu skoðanakönnun og illa staddir með formanninn í tvísýnum veikindum. og engan tilbúinn í að stjórna kosningarbaráttu, sem kæmist með tærnar þar sem Ingibjörg hefur hælana í þungavigtinni. Svona tillaga gæti því hentað  þeim ágætlega og róað grasrótina.emoticon 

  Vandamálið sem VG   eiga svo eftir að glíma við í kosningarbaráttunni hefði svo komið mjög skilmerkilega fram í kastljósinu í gærkveldi þegar Steingrímur hélt fluginu með glæsibrag þar til Sigmar bað hann að svara spurningunni hans Geirs um hvort hann myndi skila láni gjaldeyrissjóðsins þegar hann væri kominn í stjórn. Það gæti verið dálítið vont að fara framúr sér í gagnrýninni og eiga svo að taka við að leysa málin. emoticon



Ég held að vinur minn gúrúinn,  sé dálítið munaðarlaus í pólitíkinni eins og ég.emoticon
 


  

   

20.01.2009 10:58

Nýja lúkkið á Framsókn.



   Miðað við hvað heimsóknir og flettingar döluðu á síðunni minni um helgina, verð ég að ætla að hér séu sem fastagestir, þó nokkrir gegnheilir og góðir framsóknarmenn.
 Það er gott mál.
  Þó ég hafi hrokkið fyrir borð af framsóknarskútunni fyrir margt löngu var það ekki grasrótinni þar að kenna.

   Ekki verður annað séð en þau ráð sem ég hef gefið grasrótum allra flokka að nú þurfi að skipta hraustlega út fyrir fersku liði, hafi skilað sér vel inn á þing framsóknarmanna.

  Mínar bestu hamningjuóskir með það framsóknarmenn.

  Hvort það að taka úr framvarðarsveitinni, liðið sem fór út af sporinu með bankana og afhenti þá vinum og vandamönnum í stað fjöldans eins og lagt var upp með, dugar til að flokkurinn nái vopnum sínum  á ný kemur svo í ljós.
  Í dag eru menn  kampakátir með að hafa samþykkt  slík afarskilyrði fyrir ESB aðildarviðræðum að útilokað verði að ná nokkrum samningum. Því miður er staðreyndin hinsvegar sú, að þegar menn setjast að samningum, þá kemur ósjálfrátt að því að samningsaðilar fá allt aðra sýn á hlutina. Aðalatriðin verða að aukaatriðum og öfugt, og þeir sem settust að samningum með því hugarfari að semja ekki. eru allt í einu komnir með allt annað hugarfar.

  Ég sé fyrir mér að þegar Solla og Sigmundur standa uppfrá þeim samningum og hún gerir síðan frömmurunum grein fyrir því að nú sé annaðhvort að stökkva eða slíta stjórnarsamstarfinu  þá??

 Ja, það hefur nú lengi fylgt framsóknarmönnum að þykja vænt um ráðherrastólana sína.

Og þeir eru því miður ekki einir um það.

  Ef nýju framsókn tækist að slíta rækilega öll tengsl við bankasukkliðið, búa til trúverðuga leið til að tengja krónuna öðrum gjaldmiðli og stigi enn betur ofan á ESB umræðuna myndi hún trúlega braggast vel eftir harðan vetur.


  En þetta er allavega góð tilraun í baráttunni.emoticon 


  

19.01.2009 10:08

Prúttið


   Fyrir margt löngu trúði ég því að verðmiðinn á dótinu sem, mig langaði í væri óumbreytanlegur og nú væri annaðhvort að hrökkva eða stökkva.

   Það er talsvert síðan ég áttaði mig á því að nú gengur allt út á afslætti og prútt. Það kemur skemmtilega á óvart að þegar ég kvarta yfir verðinu á varahlutnum í bílinn er mér umsvifalaust boðinn 5 - 10 % afsl. Ekkert alvörudót er keypt nema að afstöðnu miklu prútti og samningum og það er bara eitt símtal við þjónustufulltrúa hjá stóru byggingarvöruverslunum. Þá fæ ég umsvifalaust afslátt af öllum viðskiftum um 10 - 20 % eftir því hvað ég lofa miklu umfangi.

  Fyrir nokkrum árum tókum við okkur saman nokkrir bændur, skoðuðum eldneytiskaup nýliðins árs og óskuðum síðan eftir því við olíuumboðin að fá tilboð í a.m.k. þetta magn  + afsláttarprósentu á öllum þjónustuvörum, ásamt ákveðnu tankrými,rafmagnsdælum með mæli o.sv.frv.. Það verður að segjast eins og er að þetta vakti ekki mikla hrifningu á þeim vígstöðvum og það var ekki nema eitt þeirra sem kom með alvörutilboð.

  Það var samið við það til þriggja ára. Þegar sá samningur rann út var enn farið í útboð á pakkanum sem var orðinn töluvert stærri í lítratali og miklu, miklu hærri í krónum.

  Nú var komið annað hljóð í strokkinn og öll skiluðu inn alvörutilboðum. Þau voru nokkuð misvísandi en eftir mikla yfirlegu og smáblýantsydd var samningurinn endurnýjaður til þriggja ára.

  Vandamálið við þetta prútt allt saman er trúlega það, að listaverðið er spennt upp til að geta veitt afslætti, rétt eins og á yfirstandandi útsölum. Og þeir sem vara sig ekki á þessu eru í slæmum málum.

En ég prútta ekki í Bónus, enda eiga feðgarnir dálítið bágt núna.emoticon
Flettingar í dag: 303
Gestir í dag: 20
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417422
Samtals gestir: 37865
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 13:03:47
clockhere