Færslur: 2007 Desember

27.12.2007 09:22

Fyrsti bylur vetrarins.


  Það er þannig hjá okkur hér á nesinu að jafnfallinn snjór liggur aldrei lengi kyrr nema bloti í hann.Þegar kom fram á gærdaginn fór að komast nokkur hreyfing á súrefnið og snjóinn og var svona pinkubylur á tímabili.
 Þetta var samt ekki alvöru og færðin hélst  svona nokkurnveginn í lagi.

Það báru svo tvær kýr(kýr/kvíga) í nótt og sú eldri kom með kvígu eins og um var beðið. Það er hinsvegar mörg búmannsraunin og nú stefnir í að mjólkurtankurinn (2200 l.) verði of lítill fyrir helgarmjólkina(3 dagar) þrátt fyrir að það sé með markvissum hætti reynt að dreifa framleiðslunni sem jafnast á árið.

  Jólahaldið fer annars fram með ásættanlegum hætti og með miklu aðhaldi í matarræði undirritaðs eru vonandi öll áramótaheit óþörf .

26.12.2007 09:45

Ekta jólaveður.


 Þetta er oft notalegasta stund dagsins þegar morgunverkin eru búin og maður er sestur við tölvuna með kaffibollann (þó það sé bannað ) og rennir yfir dagblöðin.
 Hér er með eindæmum jólalegt í sveitinni jafnfallinn 10 -15 cm. snjór ,logn og tunglið er svei mér þá á lofti allan sólarhringinn. Og meira að segja rebbarnir sem eru farnir að ganga í æti hjá mér,  njóta friðhelgi  yfir jólin. Í dag er  stefnt að því að yfirfara vélsleðaflotann (tvo hér og tvo þar) og náttúrulega að fara í jólamessuna kl 2.
 Dóri og Iðunn ætla á Strandirnar ef veðuspá leyfir svo ég fæ að njóta mín í hesthúsinu sem er að verða fullt af tamninga og þjálfunarhrossum.

  Búið er að skifta hrossastóðinu sem gengur úti í þrjá hópa (folöld,tryppi ásamt fylfullum merum og síðan er rest) en hrossin hafa staðið í rúllum í nokkrar vikur.

 

24.12.2007 12:05

Jesssssss, hvít jól.

Í fyrsta sinn í ég veit ekki hve mörg ár lítur út fyrir alvöru hvít jól. Alhvítt úti og smá snjómugga. ( er samt hrædd um að muggan sé að breytast í úða, en vonandi er það bara rugl) Í morgun brakaði í snjónum þegar ég fór að sækja þvott á snúrauna því hér var þessi fínasti fátækraþerrir í gær svo ég lét slatta vera á snúrinni í nótt. Tek samt ekki oft sjensinn á því, rokið hérna er ekki mjög snúruvænt.
Svo bar ein kýrin í morgun tveimur flottum kvígum, nú þarf að leggja höfuðin í bleyti og finna jólaleg nöfn. Einhverjar uppástungur þið þarna úti???
Bóndinn og yngri dóttirnin eru að skella léttum hádegisverði á borðið, síld, rúgbrauð, ristað brauð og reyktur lax.
Flettingar í dag: 119
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 413767
Samtals gestir: 37185
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 05:42:50
clockhere