Færslur: 2015 Febrúar

10.02.2015 19:57

Já ..Verðið á tömdum hundi ??

 Þú ert að selja tamda fjárhunda sagði maðurinn í símanum. 

Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri spurning eða staðhæfing.

 Það kemur aðeins fyrir, svaraði ég svo.

 Áttu eitthvað til sölu núna spurði hann þá ? 

Nei, sagði ég.

  Maðurinn hikaði aðeins og spurði svo hvaða verð væri á tömdum hundi. Nú var samtalið farið að ganga smurt og ég sagðist ekki minnast þess að hafa nokkurntímann selt tvo hunda á sama verði. 

Verðin væru jafn misjöfn og hundarnir.

  Núú sagði maðurinn , hvaða verð eru þá helst í gangi hjá þér.

  Ég játaði það að stundum losaði ég mig við hund sem ég hefði kannski lagt talsverða vinnu í á sæmilegu hvolpaverði vegna þess að hann myndi aldrei virka almennilega. 

 Já, gæfi þá meira að segja stundum.

Þeir bestu færu á, ja allavega  400 +. 

 Svo væri allt þar á milli.

 Spurningarnar voru ekkert á þrotum hjá viðmælandanum og nú vildi hann vita hvað dýrustu hundarnir hefðu framyfir hina. 

 Jaaaaa, þeir væru  auðvitað mikið tamdir, alhliða öflugir vinnuhundar. Hlýddu þessum helstu skipunum. 
 100 % öruggir í að fara fyrir og halda saman hóp og koma með hann. Hefðu mikinn vinnuáhuga og úthald. Væru auðvitað gallalausir í daglegri umgengni. 

 Svo skipti aldurinn talsverðu máli. 

 Já, og hvað vantar helst í þessa ódýrari spurði náunginn þá og var orðinn mjög alúðlegur í röddinni.

 Eg var hinsvegar ekki  mjög  alúðlegur lengur og sagði að í þessa ódýrari vantaði eitthvað af kostum dýra hundsins , mismikið, þó það mætti hafa gagn af þeim.
 Þeir væru minna tamdir og oft væru svo einhverjir gallar í farteskinu annaðhvort í umgengninni eða vinnunni sem ekki löguðust í tamningu.

  Er þetta þá ekki endalaust prútt var þá spurt. 

  Nei , það væri aldrei prúttað. ( Umhugsunarvert en þannig er það ).  
  
  Kaupandinn fengi ákveðinn aðlögunartíma  og síðan væri málinu lokið. Annaðhvort með kaupum, eða ég tæki hundinn  til baka.  Eftir að hafa dælt í mig þó nokkrum spurningum í viðbót kvaddi maðurinn. 

Ég er hinsvegar enn að velta fyrir mér hvað lá á bak við yfirheyrsluna. 

Allavega var örugglega ekki um væntanlegan kaupanda að tömdum hundi að ræða emoticon

 En þekkingin drepur engan emoticon .


 


04.02.2015 20:43

Að lesa hundinn.

   10 mánaða hvolpurinn var greinilega kominn með fínan áhuga. 

Hann hafði komið til mín í tamningu daginn áður og nú var verið að meta stöðuna á honum og ákveða framhaldið. 

Tamningin felst í stuttu máli í því að kenna nemandanum að nýta meðfædda innræktaða hæfileika sína í þágu smalans.  Bregðast fljótt og örugglega við skipunum og vinna með sem skilvirkustum hætti að kindunum.

  Þessi hvolpur yrði nokkuð þægilegur nemandi.

  Hann hringfór kindurnar og hélt þeim síðan að mér, ekki mjög hraður en í góðu lagi. Öðruhvoru gaf hann í , stökk í hópinn og glefsaði en hékk samt ekki í þeim . Hann vann fullnærri en það yrði ekki vandamál. 

 Gömul mynd af hvolpi í fyrsta sinn í kindum.

 Ég er alltaf undir þeirri pressu að skila árangri í tamningu og  reyni í upphafi að meta hvaða aðferðir  ég tel best henta hverjum hundi.
 
  Þær eru misjafnar eins og hundarnir. Hefði þessi hundur t.d. sótt í hópinn og viljað reka hann frá mér eða bara djöflast í honum hefði ég séð fram á erfiða tíma með litlum árangri til að sýna eigandanum. 

 Mikil vinna í að kenna honum réttu vinnubrögðin áður en kæmi að því að leiða hann í gegnum vinnuskipanirnar. Reyndar óvíst að það tækist almennilega, eða borgaði sig. 

  Þarna gæti ég hinsvegar strax farið að komast í vinnuskipanaferlið fyrirhafnalaust og  að nokkrum dögum liðnum myndi hvolpurinn vera farinn að átta sig á því að ég væri eitthvað að segja honum, og í framhaldinu læra að bregðast við því. 

 Þegar maður veit svo hvernig hvolpurinn bregst við hreyfingum kindanna er auðvelt að stjórna því með þeim, hvað hann gerir og segja svo skipanirnar á réttum tíma.

             Hægri skipun æfð
  
  Kindurnar til hægri , hvolpurinn hinumegin til vinstri fyrir þær.  Kindurnar til vinstri, hvolpur til hægri o.sv.frv. Þegar smali og kindur stoppa , stoppar hvolpurinn líka og stoppskipun er gefin. 

 Eins og hjá mannskepnunni þarf námið að vera skemmtilegt og skammir og hávaði eru  ekki inni lengur, ef hlutirnir eiga að ganga hratt og örugglega.

01.02.2015 20:24

Tóm sæla og hamingja.

Dagarnir lengjast og lengjast og það hefur alltaf jafn góð áhrif á mig. emoticon  


Leiðindar veður og vetrarfar duga ekki til að eyða áhrifunum af því.


 Inniaðstaðan er fín fyrstu vikuna en svo vil ég komast út, allavega öðruhvoru.

  Hundatamningarnar eru ekki á áætlun vegna tíðarfars en ég legg til að þeir sem eiga bókað hjá mér haldi ró sinni, því um leið og sést framá að hægt verði að komast í útivinnuna fer allt á fullt. 


  Planið sem er að komast á lokastig, er að bæta við 6 svona búrum.emoticon

 Þeir sem eiga styttra í mig munu  komast  að með innivinnuna fljótlega og svo styttist í stórbætta aðstöðu í búramálum nemendanna. 

  Það  virkar mjög afkastahvetjandi þegar því máli lýkur. 

                 
   Gemlingarnir úða í sig byggskammti dagsins

Gegningar og skepnuhöld eru í góða gírnum og tamningatryppin mín fjögur  ekki alslæm samkvæmt tamningarfólkinu. Og ekki lýgur það emoticon . 

Já það er segin saga að þegar kemur fram í feb. líður restin af vetrinum á örskotshraða.


  Það fer nú ekkert á milli mála að þessar eru allar með tveimur. Hvorki meira né minna.emoticon  

 Nú styttist í  að fósturvísateljarinn á Skörðum komi og athugi hvernig til hefur tekist við að koma lömbum í hjörðina. Þar sem nóg er til af fénaði í tamningarnar eru ekki krosslagðir puttar í þetta sinn, með óskir um hæfilega ,margar lamblausar.

 Ekkert nema sæla og hamingja framundan emoticon.

 
Flettingar í dag: 160
Gestir í dag: 28
Flettingar í gær: 913
Gestir í gær: 95
Samtals flettingar: 414721
Samtals gestir: 37290
Tölur uppfærðar: 20.4.2024 10:18:24
clockhere