Færslur: 2012 Nóvember

20.11.2012 20:06

Fjárgeymslan fyllt af lausafé.

 Á meðan stór hluti landsins er undirlagður illviðrum og snjó erum við allavega lausir við snjóinn.

 Fullorðna féð hefur haft það ágætt úti meðan verið var að klamra saman vetrarhíbýlum fyrir það.

 Nú var helgin tekin í að taka inn , klippa og vígja eitt og annað í fjárhúsunum.

 
 Hér bíða þær þess að komast í hendurnar á ærsnyrtinum, til vinstri grillir í Atla Svein að raða saman seinni gjafagrindinni.



 Steinar Haukur gerði sér grein fyrir því, að nú yrði að vanda sig í nýjum húsakynnum og gerði það svikalaust.



 Hér er gjafagrindin vígð. Þetta er endurbætt útgáfa af sérhannaðri grind sem var fyllt af traktor með rúlluhníf. Þessi er einföld og látlaus, enda  komið á daginn að hún svínvirkar.



 Ég sá ekkert merkilegt við þessa mynd, en eftir að hún villtist inn á fésið komst ég að því að þetta væru spikfeitar rollur og læraholdin á sumum væru sérlega áhugaverð.



 Þær báru sig nokkuð vel í nýja húsnæðinu í dag þrátt fyrir hávaðarok og drullukulda utandyra.



  Sem betur fer kemst hjörðin ágætlega fyrir í húsinu þrátt fyrir að hún væri stærri en ég hélt og ágætt að vera svo fjáður að vita ekki stöðuna á lausafénu.



 Það eru gerðar mjög ákveðnar kröfur í lífgimbravalinu en lágmarkið í lærastiguninni er þó enn 17.5. Vonandi verður hægt að hækka það uppí 18. næsta haust .( 7-9-13)
 Ef smálambið t.h. væri ekki í ullinni, sæist trúlega hvernig þetta leit út fyrir einhverjum áratugum.



 Já, nú er bara að láta sig dreyma um betri tíð með blóm í haga meðan að þessi illviðrakafli er að hrista úr sér ólundina.

13.11.2012 21:39

Blogg fyrir tengdamömmu.


 Ég ber að sjálfsögðu óttablandna virðingu fyrir ástkærri tengdamóður minni.

Þegar hún hefur í tvígang gert grafalvarlegar athugasemdir við bloggletina undanfarið eru ekki margir kostir í stöðunni.

 Nú er góða tíðin sem ég lofaði í hástert fyrir nokkru komin í frí og hvert lægðaróbermið á fætur öðru, hellist yfir með ofurháum metratölum á helv. rokinu.

 
 Það var 8. ág. sem sperrurnar á fjárhúsbyggingunni voru festar í annan endann og síðan hefur byggingin þokast áfram mishratt og örugglega.

 Þar sem peningarnir kláruðust  hinsvegar hratt og örugglega var vinnuframlag bændanna aukið jafnt og þétt og stóran hluta haustsins höfum við dundað í þessu að talsverðu leyti einir og óháðir.


 Sheffer Hestamiðstöðvarinnar er alltaf mikill auðfúsugestur hér og spara okkur mikinn tíma þessa dagana.


 Nú eru menn hinsvegar orðnir nokkuð stórstígir enda orðnir langþreyttir á þessu puði.
Hér er tengdasonurinn að skella upp ljósunum með miklum látum en þau fóru upp í gær.

 Það var svona ágætis jólatilfinning þegar kveikt var á þeim í fyrsta sinn.



 Atli Sveinn íhugull að stilla bitann hárrétt af.

Í dag var burðarbitinn fyrir rúlluhlaupaköttinn soðinn saman og snarað upp á sinn stað.

 Það var spiltækjadót búsins sem sáu um átökin  við það.



 Annarsvegar þessi fjórhjólagræja hér sem var þyngd aðeins til öryggis.





 Og hinsvegar þessi fjórhjólagræja hér.

 Það er reiknað með að lokahönd verði lögð á seinni gjafagrindina á morgun ef það verður vinnufriður fyrir óskyldum og óæðri  verkefnum.

 Svo er bara að krossleggja fingurna og vonast til að kraftaverk gerist,  rúningsmenn detti t.d. niður úr skýjunum í framhaldinu, svo hægt verði að kippa fullorðna fénu inn.

04.11.2012 21:12

Lognmolla og lausar skrúfur.


 Af sérstökum ástæðum var árlegri haustgöngu minni um þök Dalsmynnisbygginganna með hamar í hendi og þaksaum í vösum ólokið þetta árið þegar allt fór að gerast.

 Og ekki nóg með það.



 Þegar þakjárninu var komið á nýbygginguna með miklum látum þrutu sérstakar skrúfur sem notaðar voru vegna stállangbandanna.
 Illa hafði gengið að ná þeim á svæðið, bæði vegna kæruleysis, leti og ýmissa annarra óviðráðanlegra orsaka.
 Ekki var það til að bæta stöðuna að dregist hefur að afgreiða vélgengu hurðina svo húsið myndi ganga í gegnum illviðrið svona nokkurnveginn opið í annan endann.

 Það var náttúrulega byrjað á því að vona að þetta yrði nú ekki svo slæmt veður. Ekkert að marka þessa ........ veðurfræðinga.

 Því miður kom í ljós nú brást þeim ekki spámennskan og í ljósi þess hvernig nýja þakið hékk á lýginni fyrsta sólarhringinn var ljóst að nú yrði eitthvað að gerast.

 Það var frændi minn  hjá Límtré- Vírnet sem skrapaði saman ýmsar skrúfur sem gætu hugsanlega bjargað málinu. Bjöggi vinur minn á Austurbakkanum greip þær með sér úr Borgarnesi og ég var síðan settur upp í traktorsskóflu og ekki hleypt niður aftur fyrr en þakjárnið var þéttskrúfað niður á neðsta langbandinu. ,

 Það er óhætt að segja að gustaði um mig þá stundina.

Og önnur þök svæðisins bjuggu trúlega að árlegum haustgöngum mínum undanfarin ár og lögðu ekki í langferð í þetta sinn.



 Það þekkja margir hversu veðrið getur snarversnað við að komst upp í ákveðna hæðarlínu t.d á fjallvegum og ég hef kynnst því rækilega hvað maður getur orðið lítill við slíkar aðstæður.  Ég hefði ekki viljað vera staddur ofan snjólínunnar hér fyrir ofan þegar mest gekk á þessa daga.



 Í dag kom svo lognið á eftir storminum við almenna ánægju mína og þessarra slöku sauðkinda sem voru búnar að stelast aftur í nýræktina eftir að hafa eytt rokdögunum á skjólsælla svæði. Eins og myndin ber með sér fylgdi engin eða sáralítil snjókoma veðrinu hér neðra. 
  Hjá aðalbloggara Austurbakkans í fjarska hefur hinsvegar greinilega verið bruðlað meira með snjóinn.
Flettingar í dag: 46
Gestir í dag: 7
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419003
Samtals gestir: 38079
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 05:43:19
clockhere