Færslur: 2011 September

08.09.2011 08:13

Haustar.- Og allt að gerast í sveitinni.

Nú er  haustið mætt með látum hér á Nesinu.

 Þó sumir hafi verið seint fyrir er heyskap samt nánast lokið og nú er beðið milli vonar og ótta með hvernig bygginu reiðir af.


 Það vantar aðeins of margar vikur í að það sé tilbúið.

 Aðalsmalamennskurnar verða 17 sept. og Þverárrétt kl 1 þ. 18.


               Svona viðraði eitt haustið en það er löngu gleymt þegar menn  hugsa til næstu leitar.

Það eru Svínafellið og Rauðamelsfjallið sem þá verða leituð með tilheyrandi ævintýrum og basli.



 Hér sér leitarstjórinn ( t.v.) á Rauðamelsheiðinni til byggða og rétt að halda uppá það, að nú er allt komið í réttar skorður.



 Snilld og Þrymur á Selsfjalli fyrir 2 árum. Snilld mun að öllum líkindum spreyta sig á vestfirskun fjallafálum næstu haustin.




 Það verða þau Dáð og Tinni sem munu spara smölum hér sporin í haust. Dáð mun redda málunum fyrir mig en Tinni mun ganga á milli smala eftir þörfum og reynast þeim betri en enginn.


 Já eins og vanalega , allt að gerast í sveitinni.



04.09.2011 09:06

Landnámshænueigendur athugið.

 Nú er Landnámshænan inni sem aldrei fyrr og enginn dreifbýlisbúi maður með mönnum nema það séu nokkrar krafsandi hænur undir húsveggnum nú eða í blómabeðinu.

 Til þess að fá hárrétt bragð af eggjunum þarf að sjálfsögðu að vera hani í hópnum, og það getur líka komið sér betur ef fjölga á í stofninum með eigin framleiðslu.



 Eins og í annarri ræktun verða menn að gæta að skyldleikaræktun og reyndar fjölmargs annars.

En eins og allir ættu að vita er fjölbreytnin í hanastofninum með ólíkindum. Ekki er nóg með að litadýrðin sé óendanleg, heldur eru hanarnir misblíðlyndir, þörfin fyrir að tjá sig á óguðlegum tíma misjöfn og svona mætti lengi telja.



 Nú vill svo heppilega til að yngri húsfreyjan í Dalsmynni er öflugur Landnámshænuræktandi og nú um stundir býr hún ákaflega vel að þrautræktuðum hönum sem er lausir við næstum alla þá ókosti sem þekkjast hjá hönum.



 Það er því rétt að benda þeim á sem glíma við   skyldleikaræktun, geðvonsku, hávaðamengun eða ömurlega liti á hananum, að núna er akkúrat tækifærið til að endurnýja hanann sinn. 



Margir hananna eru svo orðnir prýðilega hundvanir í þokkabót sem er ekki lítils virði.



 Þessi er fiðraður fram á fingurgóma sem er sjaldgæfur og dýrmætur eiginleiki og með rósakamb í þokkabót.



 Þetta einstaka eintak þarf ekki að hafa mörg orð um, meira að segja næstum blíðlegur til augnanna.


 Og það er hún Guðný Linda Gísladóttir sem svarar fyrir ræktunina og afsláttarverðin sem eru í gangi akkúrat núna. s.8956380. eða  
atlisveinn@vortex.is

 Fésbókarar sem kíkja hér inn eru hvattir til að like á þetta hér á blogginu, svo þeir séu nú einu sinni með eitthvað bitastætt á statusnum.

02.09.2011 18:45

Á ferð um Dali og Inndjúp.

 Það var rennt heimundir Skjaldfönn og skaflinn í hlíðinni ofan bæjar var nú snöggtum minni en þegar ég kom þarna fyrir nokkrum árum.
 Efast þó um að hann taki upp þetta sumarið.



 Greinilega renna margir þarna heim að túnhliðinu og þessar upplýsingar til ferðalanga eru tær snilld.



  Ömmustelpunni fannst kjarrið í Langadalnum heldur ógreitt yfirferðar og var ekki ein um það álit.
Afanum þóti það hinsvegar umhugsunarefni að í þessum algróna fallega dal suðurfrá Ísafirðinum sást ekki ein einasta kind. ( Soldill sauður alltaf kallinn.)



Hér er verið að taka smárölt á öllu greiðfærara svæði við Arngerðareyri. Það er mikil marglyttumergð við höfnina þar, og hér var verið að kanna afföllin í fjöruborðinu.



Og þetta fallega gil í Svínadalnum trúlega nærri gangnamörkum þeirra Saurbæinga og Hvammverja í dölum vestur mun samkvæmt mjög trúverðugum upplýsingum heita Drífandagil.



 Farastjóri ferðarinnar  er hér að drepa tímann meðan beðið er kvöldverðar.



 Nú bíður hún næsta sumars með frekari útilegur ásamt tryggum þjónum sínum.

 

Flettingar í dag: 69
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 61
Samtals flettingar: 419026
Samtals gestir: 38083
Tölur uppfærðar: 27.4.2024 06:30:52
clockhere