Færslur: 2010 Desember

30.12.2010 22:35

Hvolpar, dýralæknar og íbúðarskipti.


 Það var brunað í Hólminn í dag með tvo síðustu hvolpana  en þeir komu sigldir í nýju vistina sína.

Hvolparnir voru flestir  afhentir  8 vikna eftir fyrri parvósprautuna en þegar væntanlegir vestfirðingar áttu að halda til síns heima kom óvænt babb í bátinn.

 Dýralæknaþjónusta á suðurfjörðunum er nefnilega með dálítið öðrum hætti en flestir búandi menn þekkja og er  afar takmörkuð yfir vetrarmánuðina.

 Afhendingunni var því frestað framyfir seinni sprautu til að þetta yrði nú alveg fullkomið.

 
   Snót frá Dalsmynni á vonandi eftir að gera það gott í Ketildölunum og þessir sterklegu fætur að duga vel þar.

 En að sjálfsögðu fá vestfirðingar enn betri fulla þjónustu en hinir sem fá fulla þjónustu hjá mér.



 Hér er heimasætan að tala við Lubba að skilnaði en uppátækin í þessum síðustu fjörkálfum úr hvolpahópnum voru sum býsna kúnstug.

 Þó þetta hafi verið erfiður ferðadagur hjá hvolpunum var þetta góður dagur hjá Dáð.

Þegar hún kom í sveitina fyrir u.þ.b. 2 árum fékk hún gotbúrið til umráða og þar hefur hún búið þangað til í haust að alltíeinu þurfti hún að minnka verulega við sig.



 Hún var fljót að átta sig á því í dag hvað væri að gerast, þegar að skálin hennar og teppið voru komin í svítuna á ný. Hún leit hinsvegar rannsakandi á veggina og ég var henni sammála um  að það yrði  að þvo þá, allavega fyrir næsta got.



 Og hvolpapabbinn sem er enn svo ungur að hann hafði gaman af að leika við afkvæmin fékk loksins alvöru búr til búsetu. Það voru smá sárabætur fyrir að missa leikfélagana.
 Enda tekur nú alvara lífsins við hjá honum eftir 2 - 3 vikur þegar tekið verður til við erfitt en skemmtilegt nám.



 Hann virðist vera orðinn fullgóður af meiðslunum, hefur þyngst helling og á svo eftir að massast á réttum stöðum eftir því sem líður á veturinn.

 Já hvolparnir mínir dreifðust allt frá Arnarfirði í vestri austurundir Hornafjörð.

Það eru þó 5 í það hæfilegri fjarlægð frá mér að hægt verður að fylgjast með þeim.

 Það er mér svo mikils virði að allir nýju eigendurnir eru harðákveðnir í að gera eitthvað úr þessum hvolpum.



 Þessi sterkbyggði hvolpur er svo hún Fjóla frá S.- Skörðugili sem kemur oft í heimsókn. Hún er náfrænka hinna burtfluttu, undan Söru frá Dalsmynni og Nemó á Sleitustöðum. Afskaplega róleg , yfirveguð en íhugul og verður vonandi lík henni ömmu sinni en þá mun henni vel farnast.

26.12.2010 23:49

Gáfulegt jólablogg.

Tíu stiga hiti og þéttingsrigning í næstum sólarhring er ekki akkúrat jólaveðrið sem fólk dreymir um.

 Það er þó gaman að velta því fyrir sér hvað snjóþykktin væri orðin, ef hitastigið væri annað og úrkoman væri öll í föstu formi.3
Þá væri útlitið einhvernveginn svona, en ekki marauð og rennblaut fósturjörðin.



 Ættmóðirin kom í sveitina og tók upp pakkana með langömmubörnunum og reyndar hinum líka.




Í bókinni um hana sem kom út fyrir jólin segir hún meðal annars frá upphafi skógræktarinnar hjá sér í gróinni brekku uppundir hlíðinni.  Síðar komst hún ákveðið á þá skoðun að fallegar brekkur ættu ekki að notast undir skógrækt heldur ættu þær að fá að halda sér óbreyttar.

 
 Þessi stefna er uppi í skógræktinni í Dalsmynni í dag.

 Það er svo spáð hita og góðviðri alla vikuna og stefnir hugsanlega í enn einn snjóleysisveturinn með tilheyrandi rólegheitum fyrir snjósleðaflota sveitarinnar.

 Þetta er nú orðin nokkurra ára gömul mynd af Svörtufjöllum alhvítum og glittir í toppinn á Skyrtunnu á milli þeirra.


 Þessi hér fyrir neðan er svona rétt til að rifja upp jólasnjóafílinginn og til hægri sést smáhluti af upphafi skógræktar í Dalsmynni. Þríhnúkar í baksýn.


 Þessi" gamla " mynd hér fyrir neðan sýnir það að smalinn er ríkur í þeim gamla sem hér kíkir eftir fé í Litlu Sátu og niður með Flatnánni. Svínafellið fjær.



Ætli sé svo ekki rétt að venda sínu kvæði í kross með þessari glæsilegu mynd hans félaga Jonna,
af Skyrtunnu , Svörtufjöllum og Hestinum með Barnaborgunum í forgrunni.


 Merkingin hennar Iðunnar er á öllum myndum heimasíðunnar burtséð frá því hver tekur þær.

 En ég ætla svo að halda áfram að hafa það gott um jólin hvað sem fljótandi eða fastri úrkomu líður.

23.12.2010 23:59

Jólakveðjan.


  
        Mér finnst alltaf meiriháttar gott þegar daginn tekur að lengja á ný.

   Þó ég sé nú óskaplega lítið jólabarn í mér tengist þetta  allt og framundan eru skemmtilegir hátíðis og slökunardagar framyfir áramótin.

 Með börnin og barnabörnin í kringum mig.

 Ég vil óska ykkur lesendum mínum nær og fjær Gleðilegra jóla.

Þeir sem hafa komið hér inn með athugasemdir eða kveðjur síðasta árið,  fá sérstakar óskir um ánægjulegt jólahald og þökk fyrir stuðninginn við þetta síðuúthald.
 

Flettingar í dag: 2678
Gestir í dag: 84
Flettingar í gær: 668
Gestir í gær: 92
Samtals flettingar: 650776
Samtals gestir: 57960
Tölur uppfærðar: 21.11.2024 07:13:56
clockhere