Færslur: 2010 Júní

07.06.2010 20:56

Sauðburðarlokum og sumarkomu fagnað með veislu.

 Það var blásið til mikillar veislu á Hótel Eldborg á Laugardagskvöldið.

 Iðunn og Dóri  voru nógu lengi í Skagafirðinum til þess, að þau væru orðin vön allskonar veislum af allskonar tilefnum.

Annað en hér.

 Þau töluðu því við Óla hótelstjóra og auglýstu síðan fagnaðinn.



 Hér er kappinn að bragðbæta eftirréttinn hjá gestunum sem höfðu ekki meira magamál eftir frábæra þríréttaða veisluna.



 Skógarneshjónin létu sig ekki vanta og báru sig að sjálfsögðu vel þrátt fyrir afbókanir hestamanna í næturgirðingarnar.



 Um 50 manns mættu og léku á alls oddi í blíðunni. Enginn að flýta sér heim að loknum matnum.



 Öddi kunni vel að meta þetta enda gjörspilltur úr Skagafirðinum eins og veisluboðendur.



Þessi gekk um með vatnsglasið sitt og þakkar eflaust guði fyrir að ég birti ekki hina myndina af honum.



 Jonni er ákaflega fundvís á það þegar Söðulsholtsbóndinn fattar upp á einhverjum sérstaklega spennandi verkefnum. Hann var því mættur í sveitina og hafði verið 3 manna maki við að urða línrúllur allan daginn. Brynja var svo óheppin að láta hann plata sig með.



 Hér eru öldungaráðsmenn í Eyjarhreppnum mjög áhyggjufullir á svipinn. Það var sko ekki að ástæðulausu.

 Vinir mínir á Austurbakkanum mættu ákaflega illa í þetta sinn, enda virðist sumum þjóðflokkum hreinlega vera það áskapað að vera alltaf að missa af einhverju skemmtilegu.

 Ég er þó ekki frá því að sumir veislugesta hafi verið þeirrar skoðunar morguninn eftir, að það hlyti að vera dálítið erfitt að búa í Skagafirðinum.emoticon

06.06.2010 00:44

Fyrsta hestaferð sumarsins um Löngufjörur.

 Það var ánægjulegt að sjá fyrsta hestahóp sumarsins lesta sig vestur fjörurnar í fyrradag.



 Það var Siggi á Kálfalæk í fyrstu ferð sumarsins en ekki þeirri síðustu en hann er verktaki hjá Íshestum.



Þessar ferðir í þessu umhverfi hljóta að sitja vel í  harða diskinum hjá þeim sem þeirra njóta.



Rétt að vera ekki að skemma góðar myndir frá Iðunni, með einhverju kjaftæði.emoticon




Já svo er nú kannski rétt að taka fram að þessar myndir tengjast ekki hestaferðum þeirra Kálfalækjabænda heldur fjöruferðum okkar Eyhreppinga..

04.06.2010 21:07

Kvöldblíðan lognværa.... - og móðurlausu lömbin.

Blíðan í sveitinni er algjörlega ótrúleg þessa dagana og þegar maður kemst út í náttúruna fyllist maður tilfinningu sem mig skortir hugarflug til að lýsa. (Segi nú svona).



 Svona var útsýnið í vestur úr Laxárbakkaflóanum í stafalogni gærkveldi. Jökullinn kúrði vestast á fjallgarðinum í blámóðunni, umlukinn Snæfellsbæingum sem eru að vonum stoltir yfir því að hafa hann inni í miðju sveitarfélaginu.
 Vonandi verður þessi eldstöð róleg á næstunni og ég er allavega rólegur meðan eldgosasérfræðingurinn á Bessastöðum fer ekki að vara okkur við. Það er svo náttúrulega ótrúlega langt frá síðasta fjölmiðlagosi á þeim bæ.


Hafursfellið stendur nú líka fyrir sínu og grenjaskyttan sem er að skanna flóann fellur vel inn í umhverfið. Það gerir fjórhjólaslóðinn okkar nú reyndar líka. (Finnst mér).

Það var töluvert fuglalíf þarna þrátt fyrir óþarflega stóran rebbastofn á svæðinu og mikil ró yfir öllu á þessum hluta flóavíðáttunnar sem sagði okkur að rebbarnir væru ekki á stjái akkúrat núna.

 Mig grunaði þó að eftir því sem austar kæmi myndi daprast rækilega yfir fuglaflórunni og því miður gekk það eftir.

 Klukkan var komin vel yfir miðnætti þegar ég gekk fram á þessi móðurlausu lömb en þá var ég nú kominn yfir í Eyjarhreppinn í annað flóaflæmi sem kennt er við Rauðamel.



 Það var orðin napurt í næturgolunni og sló illilega á stemminguna að ganga fram á þau köld og svöng og engin kind sjáanleg nokkursstaðar í grenndinni. Það var bara smellt af mynd og svo lét maður sig hverfa án þess að raska ró þeirra frekar.

 Þau munu ekki rétta af afkomuna hjá henni Þóru vinkonu minni í haust.

Og mórauða læðan sem er á því svæði, komst ekki í neina hættu þetta kvöldið.

Flettingar í dag: 184
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403398
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:30:35
clockhere