Færslur: 2010 Apríl

06.04.2010 22:55

Hundarnir í heimavinnunni.

 Stundum hitti ég fólk sem segir mér það í fyllstu einlægni að það borgi sig ekkert að vera að leggja vinnu í að temja hunda til að nota þá í kindavinnu.

 Þetta séu hvort sem er ekki nema örfáir dagar á ári sem verið sé að nota þá.

 Ég virði að sjálfsögðu þessar skoðanir enda er ég löngu hættur að boða fagnaðarerindið í þessum efnum, til vantrúaðra.

 Ég kom einu sinni til dansks fjárbónda sem m.a. sýndi okkur lömb í innifóðrun sem áttu að fara í slátrun fljótlega.

 Hann sagði okkur það, að flutningabíllinn sem flytti lömbin, væri á tímakaupi og því væri brýnt að það gengi hratt að lesta bílinn. Danskir bændur voru þá löngu búnir að læra það sem margir íslenskir kollegar þeirra eiga eftir tileinka sér, að fara vel með peningana sína.

 Sá danski átti tvo hunda og þeir sáu um að koma lömbunum hratt og örugglega á bílinn.

Mér þótti það dálítið merkilegt að þessi hagsýni bóndi keypti hundana fulltamda. Annan þeirra sem hann átti þá, fékk hann í Hollandi en hinn var breskur.

Ég er hinsvegar eins og sá danski að nota hundana mína nokkuð marga daga á ári.


 Hér sjá Assa og Vaskur um að halda lömbunum að rekstrarganginum.



 Hér eru það Snilld og Dáð sem halda kindunum frá rúllugrindinni meðan sett er rúlla í hana fyrir næstu 3 dagana.



 Tækifærið er notað til að kenna þeim að troða sér meðfram veggnum inn fyrir kindurnar. Hér vippar Dáð sér yfir en Snilld lendir verr í því.



 Hér fara þær vinstra megin inn í hornið hvergi bangnar.



 Þessar eru nú ekki á leiðinni upp á sláturbíl en trúlega væru þær stöllurnar snöggar að rusla þeim út með smá hvatningu.



 Já, það styttist svo óðfluga í að sauðburður hefjist og þurfi að koma lambfénu niður fyrir veg.

Þá kemur sér vel að hafa aðstoð við að virða biðskylduna.

05.04.2010 20:01

Annríki,stóðhestar og pínulítið væl.

 Þetta er búin að vera annasöm helgi þrátt fyrir allan heilagleika.

Það var laugardagurinn sem toppaði hana, en þá var rúllað austur á Hellu að kíkja á sunnlenska stóðhesta sem léku listir sínar í Rangárhöllinni.

 Þetta var hreint út sagt alveg frábært og meira að segja ég sem hef takmarkað vit á góðum hestum, var farinn að grípa andann á lofti á hárréttum augnablikum.

  Ég passa mig nú á því að nefna engin nöfn né birta myndir í þetta sinn, enda var það m.a. tilgangur ferðarinnar að sjá út hesta fyrir nokkrar merar og síðan að skoða hvort þarna ræki á fjörur  hestamiðstöðvarfólks " nothæfan " undaneldisgrip til notkunar í aðalgirðinguna okkar.

  Eftir nokkrar pælingar á vesturleið var ekki beðið boðanna heldur hringt í allar áttir á leiðinni.

Það voru bókaðar nokkrar hryssur og síðan komið af stað þreifingum í stóðhestahaldi sem spennandi verður að vita hvort gengur upp.

 Einhverra hluta vegna bitnar það á mér, aulanum í hópnum að sjá um stóðhestaprúttið í girðinguna, en ef að tekst að landa því er ég næstum laus allra mála um framhaldið.

En ég sem var alveg hættur allri hrossarækt mun hugsanlega halda 3 og 1/2 meri í sumar, svo það er eins gott að sölukerfið haldi áfram að blómstra hjá hestamiðstöðinni eins og það gerir í dag.emoticon 

 Já, og ef orð standa hjá sunnlendingum munu a.m.k. tvær þeirra verða hjá einum enn áhugaverðari en hinir þessir áhugaverðu eru.emoticon 

 Það verður svo bara að viðurkennast, að þetta er bras sem ekki er leiðinlegt að standa í.emoticon

 Já vælið í fyrirsögninni er um alveg skelfilegt kvef sem hefur þjakað mig óspart um helgina.

Þar sem ég hef ekki mátt vera að því að verða jafn hroðalega veikur og full ástæða er til má reikna með nú geti ég loksins farið að vorkenna mér og væla dálítið.

 Það er samt nokkur ástæða til að óttast það að erfitt verði að vekja þá samúð á heimilinu sem eðlileg væri í svona skelfingum.emoticon

02.04.2010 21:06

Skuggi frá Litla Hrauni og tvær gamlar vísur.

 Það var vel uppúr miðri síðustu öld sem faðir minn keypti gráa hryssu af systur sinni sem þá hafði brugðið búi á Litla Hrauni í Kolbeinstaðarhrepp.

 Sú gráa var keypt til afsláttar en henni fylgdi í kaupunum veturgamall foli sem gekk undir henni.

Þetta var dökkjarpur stór og fallegur gripur  undan Nökkva frá Hólmi.

 Eitthvað hefur nýi eigandinn séð við folann því hann ákvað að sú gráa skyldi verða gerð árinu eldri svo veturinn yrði þeim jarpa léttbærari.

 Sá jarpi dafnaði vel og farið var aðeins að eiga við hann á fjórða vetur.

 Pabbi tamdi sitt sjálfur og tók oft góðan tíma í það .  Tryppin voru teymd mikið og hann dundaði oftast einn við þetta. Stundum sá maður hann koma ríðandi í hlað á tryppinu sem teymt hafði verið frá húsi.

 Það kom fyrir að við krakkarnir værum  kölluð til og sett á bak og teymt undir. Þá hefur væntanlega verið eitthvað á ferðinni sem öruggara hefur verið að leggja í meiri vinnu heldur en minni.

 Skuggi, en það var sá jarpi nefndur, var af meðfærilegri gerðinni og taminn án aðstoðar. 

Hann var nokkur ár að koma til en það var eins og eigandinn vissi á hverju var von því hann var hinn rólegasti yfir framförunum og svaraði fáu þegar nágrannarnir spurðu hann, hvort ekki færi að rætast úr þeim jarpa.

 Skuggi varð afburða reiðhestur, mikið viljugur og með gríðarlegt rými bæði á tölti og brokki.

Pabbi var einhverra hluta vegna afar lítið gefinn fyrir skeiðið og einhverntímann þegar ég skilaði Skugga eftir að hafa fengið hann lánaðan sagði ég að hann hefði tekið góðan skeiðsprett hjá mér.

 Þá brosti sá gamli eins og honum einum var lagið og sagði. Já það er aðeins til í honum.



 Hér eru þeir félagarnir staddir á Hvítárbökkum, nánar tiltekið á Faxaborg.

Myndina fékk pabbi senda ásamt vísu frá Önnu í Saurbæ Kjós, sem hafði fengið að prófa klárinn.

Mörgum kynnst ég hesti hef
háreistum og fínum.
En ég mun geyma Skugga skref,
skýr í huga mínum.

 Pabbi hafði ákaflega gaman af ferskeytlunni og rímnakveðskap.

Einhvern tímann fór ég með vísu fyrir hann og spurði hvort hann hefði heyrt hana áður.

 Hann velti henni aðeins fyrir sér neitaði því og bað mig að fara með hana aftur.

 Ég gerði það, síðan var riðið í næsta áningarstað og þar fór ég með hana í þriðja sinn.

Það voru vallendisbakkar framundan og þegar stigið var á bak á nýjan leik dunaði bakkinn vel undir þeim jarpa þegar hann þuldi töltið á fullri ferð, meðan knapinn kvað við raust.

 Sporar grjótið sprettaglaður.
 Spenntur mélin bryður ótt.
 Á stökkferð töltir Skuggi hraður.
 Skilað hefur vel í nótt.
 
Flettingar í dag: 132
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403346
Samtals gestir: 36649
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 08:27:23
clockhere