05.04.2010 20:01

Annríki,stóðhestar og pínulítið væl.

 Þetta er búin að vera annasöm helgi þrátt fyrir allan heilagleika.

Það var laugardagurinn sem toppaði hana, en þá var rúllað austur á Hellu að kíkja á sunnlenska stóðhesta sem léku listir sínar í Rangárhöllinni.

 Þetta var hreint út sagt alveg frábært og meira að segja ég sem hef takmarkað vit á góðum hestum, var farinn að grípa andann á lofti á hárréttum augnablikum.

  Ég passa mig nú á því að nefna engin nöfn né birta myndir í þetta sinn, enda var það m.a. tilgangur ferðarinnar að sjá út hesta fyrir nokkrar merar og síðan að skoða hvort þarna ræki á fjörur  hestamiðstöðvarfólks " nothæfan " undaneldisgrip til notkunar í aðalgirðinguna okkar.

  Eftir nokkrar pælingar á vesturleið var ekki beðið boðanna heldur hringt í allar áttir á leiðinni.

Það voru bókaðar nokkrar hryssur og síðan komið af stað þreifingum í stóðhestahaldi sem spennandi verður að vita hvort gengur upp.

 Einhverra hluta vegna bitnar það á mér, aulanum í hópnum að sjá um stóðhestaprúttið í girðinguna, en ef að tekst að landa því er ég næstum laus allra mála um framhaldið.

En ég sem var alveg hættur allri hrossarækt mun hugsanlega halda 3 og 1/2 meri í sumar, svo það er eins gott að sölukerfið haldi áfram að blómstra hjá hestamiðstöðinni eins og það gerir í dag.emoticon 

 Já, og ef orð standa hjá sunnlendingum munu a.m.k. tvær þeirra verða hjá einum enn áhugaverðari en hinir þessir áhugaverðu eru.emoticon 

 Það verður svo bara að viðurkennast, að þetta er bras sem ekki er leiðinlegt að standa í.emoticon

 Já vælið í fyrirsögninni er um alveg skelfilegt kvef sem hefur þjakað mig óspart um helgina.

Þar sem ég hef ekki mátt vera að því að verða jafn hroðalega veikur og full ástæða er til má reikna með nú geti ég loksins farið að vorkenna mér og væla dálítið.

 Það er samt nokkur ástæða til að óttast það að erfitt verði að vekja þá samúð á heimilinu sem eðlileg væri í svona skelfingum.emoticon
Flettingar í dag: 364
Gestir í dag: 67
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420364
Samtals gestir: 38305
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 12:08:16
clockhere