Færslur: 2010 Janúar

31.01.2010 23:33

Hvolpahittingur ársins.

Það mættu 10 tilvonandi smaladýr í höllina, á aldrinum tæplega 4 mán til 1 1/2 árs.

 Byrjað var á að kanna hversu vel hafði verið staðið að uppeldinu á þessum væntanlegu smalamaskínum, hvort þeir teymdust vel, gengju við hæl, leggðust , biðu samkv. skipun og.sv.frv.

 Þetta leit bara vel út og greinilega liðin tíð að menn láti hvolpana ala sig upp sjálfa þar til kemur að fyrstu smalamennskunni.

 Þegar hvolpar á þessum aldri mæta á svona samkomu skiptast þeir gjarnan í 3 flokka eftir að rolluprufunni lýkur.

 Einhverjir eru ekki komnir með neinn áhuga á kindum enn, sem á oftast eftir að breytast þó alltaf finnist dæmi um ágætlega ættaða hvolpa sem fá aldrei rétta vinnuáhugann.

 Sumir eru síðan orðnir býsna borubrattir en þeir eru ekki í vinnuhugleiðingum, heldur að leika sér að verkefninu og þurfa gjarnan að bíða eitthvað eftir að borgi sig að setja þá í kindavinnunámið.

 Þriðji hópurinn er síðan orðinn klár í námið, kominn með rétta vinnuáhugann sem á þó stundum eftir aukast áður en lýkur.



 Þessi litla tík sem var yngst í hópnum, ekki orðin 4 mán, kom skemmtilega á óvart.
Aldrei séð kindur áður en snögg að átta sig á að þessi fyrirbrigði væri rétt að stoppa af.



 Fallegur sveigur fram fyrir þær og svo var stoppað. Þetta endurtók hún, svo ekki fór á milli mála að það leynast einhver nothæf gen í henni. Kannski vegna þess að hún á langömmu í Dalsmynni sem heitir Skessa.



 Terrý frá Hrossholti kom vestan úr Reykhólasveit í djammið á Nesinu. Hún lenti í miklum ævintýrum fyrr um daginn en slapp ekki við reiðhallartímann að þeim loknum. Hún er árinu eldri en frænka hennar hér fyrir ofan og lumar vonandi á nokkrum ömmugenum.



 Hér gera Hraunholtabóndinn og Moli frá Tálknafirði leikhlé og ræða stöðuna.


 Katla og Elísa koma sér í mjúkinn hjá Alexander með því að hæla hvolpinum hans  á hvert reipi.

 Já það er alltaf jafnskemmtilegt að spá og spekúlera í fjárhundsefnunum. 

 Tillögunni sem stungið var að mér um daginn, um að boðið verði uppá námskeið 1 sinni til 2 í mán. sem síðan myndi  ljúka með hundakeppni í fyllingu tímans,  er hér með komið áfram til stjórnar smalahundadeildar Snæfellinga.

 Þar er full af eldklárum náungum sem gætu skipst á um að leiða hóp í gegnum svona ferli.

Það vantar allstaðar góða smalahunda í dag.emoticon

 

29.01.2010 22:29

Hálmur og hestamenn.

Byggræktin er lotterí þar sem hagnaðarvonin er í mikilli óvissu.

 Ræktendurnir í Eyjarhrepp hinum forna eru samt komnir í byggræktina af mikilli alvöru og eins og sönnum sveitamönnum sæmir vilja þeir margfalt heldur duga en drepast í þeirri ræktun eins og allri annarri.

Við nýtum töluvert af hálminum sjálfir en höfum ekki talið borga sig að hirða rest,  dreift honum við þreskinguna og plægt niður.

 Nú eru breyttir tíma og innfluttur undirburður undir hross orðinn óheyrilega dýr.

Í haust var því ákveðið að gera tilraun með að hirða sem mest af hálminum og kanna hvort hægt væri að fá ásættanlegt verð, svo við nenntum að leggja á okkur þann kostnað og fyrirhöfn sem fylgir því að sinna þessum markaði almennilega.

 Nýliðinn í sleppitúradæminu var settur í málið sem tilraunadýr en hann var einn af þeim sem notað hafa spæni sem undirburð í aldanna rás.


 Hálmurinn er rúllaður beint upp úr skárunum. Þegar kemur að sölu er rúllan krufin upp og hálmurinn baggaður í 15 kg bagga.  Menn mæta svo með hestakerruna sína og taka nokkurra vikna skammt.

 Þetta var grúskari sem vissi uppá gramm hvað hann notaði af spæni á hest, verð pr, dag o.sv frv.

Fljótlega lá fyrir hálmmagn  per hest á dag og hvernig honum líkaði breytingin.

Hann taldi sig vera að nota um 10 kg. ( 2/3 af hálmbagga) af hálmi á móti 1/2 pakkningu af spæni.


 Þessi stæða verður sótt í fyrramáli og er að nýtast til jafns við 50 bagga af spæni.
 
 
 Er skemmst frá því að segja að honum líkaði breytingin vel en best fannst honum þó að hestarnir voru hæstánægðir sem hann merkti af því að þeir lágu mun meira í stíunum en áður.
Þessi hestamaður hálmaði að morgni strax eftir morgungjöf og var að moka stíuna tvisvar í viku.


Baslið er aldrei langt undan og hér var bindingin eitthvað að ergja bændaskarfana.

 Eftir að hafa krufið peningahliðina rækilega var fundið verð á hálminn sem báðir aðilar sættu sig ágætlega við. Það er að segja minna tap hjá báðum.

 Og við getum bætt við okkur hesthúsum  í fóstur fram á vorið. emoticon

Áhugasamir sendi póst á yfirprúttarann. einar@sodulsholt.is 

 

27.01.2010 23:49

Þá er orðið hart um skít.

 Ef einhver sér mig ekki vera að moka.
 Þetta orða þannig hlýt.
 Þá er orðið hart um skít.

 Kvað K.N. fyrir margt löngu vestur í Dakota.

 Í skítmokstrinum undanfarið rifjuðust þessar löngu gleymdu hendingar upp fyrir mér , en á ákveðnu tímaskeiði ævinnar kunni ég Káinn meira og minna utanbókar.

 Skítmoksturinn hefur þó verið honum miklu erfiðari en mér, en um helgina var hreinsað útúr hestamiðstöðinni. Nú tókum við tvo daga í að moka útúr þessum 18 stíum en það hefur alltaf verið gert á einum góðum degi.



 Þetta þarf að gera tvisvar á ári og er hálmurinn/skíturinn keyrður í haug til niðurbrots í 2-3 ár áður en hann endar í ökrunum hjá Einari.

 Í dag var tækifærið notað þegar loksins frysti aðeins og keyrt taðið undan fénu.
Þetta er mun léttara en í gamla daga þegar við guttarnir bárum skítinn í göfflum fram krærnar í dreifarann.

 Það er 4. tíma verk að hreinsa undan þessum 140 kindum og vinnst líka tvisvar á ári.



 Gemlingarnir eru hinir ánægðustu en þeir voru farnir að éta niðurfyrir sig vegna hæðarinnar á taðinu.

Þeir fóru að fá byggið sitt í byrjun jan. og nú leika þeir sér svo í krónni að ég er farinn að óttast um að eitthvað hafi klikkað hjá hrútnum. Það eru nú samt óþarfar áhyggjur.



 Svona lítur afurðin út en hún er líka haugsett og endar síðan í byggökrunum í fyllingu tímans.

Það verður trúlega ein af forsendum þess að byggræktin gangi upp hér, að hægt verði að ná tökum á því að nýta búfjáráburðinn sem stóran hluta af áburðargjöfinni.

Það verður svo að teljast til nokkurra tíðinda að ekki sé hægt að keyra skít frá húsum á þorranum vegna hlýinda,  votviðra og þess að klaki sé að detta úr jörð.emoticon

Flettingar í dag: 612
Gestir í dag: 101
Flettingar í gær: 255
Gestir í gær: 40
Samtals flettingar: 420612
Samtals gestir: 38339
Tölur uppfærðar: 29.4.2024 19:49:52
clockhere