27.01.2010 23:49

Þá er orðið hart um skít.

 Ef einhver sér mig ekki vera að moka.
 Þetta orða þannig hlýt.
 Þá er orðið hart um skít.

 Kvað K.N. fyrir margt löngu vestur í Dakota.

 Í skítmokstrinum undanfarið rifjuðust þessar löngu gleymdu hendingar upp fyrir mér , en á ákveðnu tímaskeiði ævinnar kunni ég Káinn meira og minna utanbókar.

 Skítmoksturinn hefur þó verið honum miklu erfiðari en mér, en um helgina var hreinsað útúr hestamiðstöðinni. Nú tókum við tvo daga í að moka útúr þessum 18 stíum en það hefur alltaf verið gert á einum góðum degi.



 Þetta þarf að gera tvisvar á ári og er hálmurinn/skíturinn keyrður í haug til niðurbrots í 2-3 ár áður en hann endar í ökrunum hjá Einari.

 Í dag var tækifærið notað þegar loksins frysti aðeins og keyrt taðið undan fénu.
Þetta er mun léttara en í gamla daga þegar við guttarnir bárum skítinn í göfflum fram krærnar í dreifarann.

 Það er 4. tíma verk að hreinsa undan þessum 140 kindum og vinnst líka tvisvar á ári.



 Gemlingarnir eru hinir ánægðustu en þeir voru farnir að éta niðurfyrir sig vegna hæðarinnar á taðinu.

Þeir fóru að fá byggið sitt í byrjun jan. og nú leika þeir sér svo í krónni að ég er farinn að óttast um að eitthvað hafi klikkað hjá hrútnum. Það eru nú samt óþarfar áhyggjur.



 Svona lítur afurðin út en hún er líka haugsett og endar síðan í byggökrunum í fyllingu tímans.

Það verður trúlega ein af forsendum þess að byggræktin gangi upp hér, að hægt verði að ná tökum á því að nýta búfjáráburðinn sem stóran hluta af áburðargjöfinni.

Það verður svo að teljast til nokkurra tíðinda að ekki sé hægt að keyra skít frá húsum á þorranum vegna hlýinda,  votviðra og þess að klaki sé að detta úr jörð.emoticon

Flettingar í dag: 1356
Gestir í dag: 129
Flettingar í gær: 2914
Gestir í gær: 601
Samtals flettingar: 429335
Samtals gestir: 39644
Tölur uppfærðar: 8.5.2024 02:45:44
clockhere