Færslur: 2010 Janúar

10.01.2010 11:52

Folaldasýning og " Dalsmynnisræktunin."

 Það voru skráð 78 folöld til leiks á folaldasýningunni í Söðulsholti gær, svo til öll af Nesinu.

 Fyrir minn smekk er þetta of mikill fjöldi bæði fyrir áhorfendur og dómara, þó aðstaðan í Söðulsholti sé afbragðsgóð fyrir svona sýningu.

 Þarna var hvert folaldið öðru flottara og dómararnir ekki öfundverðir af hlutverki sínu en langflest folöldin voru að fá um 65 stig eða meira.

 Dæmt var eitt folald í einu og þó skiptingarnar gengju hratt fyrir sig tók þetta óneitanlega talsverðan tíma.

 Þar sem ég er búinn að selja helminginn af folaldsframleiðslunni, mætti ég aðeins með hann Dökkva minn til leiks.

 Hann er undan Von frá Söðulsholti, sem er komin í beinan kvenlegg frá henni Perlu eldri frá Dalsmynni. Það var vígaleg reiðhryssa og síðar stóðmeri karls föður míns, undan Glófaxa frá Stykkishólmi.

 Undan Perlu var aðalreiðhesturinn minn til margra ára, Stígandi. Hann var mikill trukkur, fangreistur, flugrúmur á brokki og tölti og harðviljugur. Blessuð sé minning hans.





 Dökkvi átti  góðan dag í höllinni og kom eiganda sínum nokkuð á óvart þegar hann vann folaflokkinn og var síðan kosinn folald dagsins af áhorfendum.

 Dökkvi er undan afrekshestinum Eldjárn fráTjaldhólum.

 Þarna mættu svo til leiks fyrstu folöldin undan Funa frá Dalsmynni en hann er sammæðra Dökkva.



 Hér er nafni minn hann Svanur Funason frá Minni Borg.



                        Og   Frami Funason frá Minni Borg.

Kannski að gamla merin mín hefði átt að vera tekin í folaldseignir fyrr?emoticon

09.01.2010 23:59

Ótrúlegt, enn til Frammarar með heilbrigða hugsun .

Það fer mikil bjartsýnisbylgja um bloggheima nú um stundir, og eins og oft áður forðast margir raunveruleikann sem er ekki alltaf skemmtilegur.

 Oft rekst maður þó á punkta sem koma á óvart og gera hlutina skemmtilega.
 
Einn slíkur birtist í    hér.

 Ja,? en kannski ekki" týpískur" frammari á ferðinni??

06.01.2010 23:40

Eldur á vesturbakkanum, sprengingar á Austurbakkanum.

 Vinir mínir á Austurbakkanum eru stórir í sniðum í öllu sem þeir taka sér fyrir hendur.

 Þegar kemur að því að brenna út jólin er það gert með miklum stæl og efnt til mikillar brennu og tilheyrandi láta.


 Þeir eru hinsvegar passasamir á að ekki sé verið að brenna neinum spilliefnum og að þessi tuttugu leyfi sem sækja þarf um til Heródesar og Pílatusar möppukerfissins séu öll fyrir hendi.



 Reyndar sagði mér einn ósannsögull að þegar dimmt væri orðið  en áður en kveikt væri í, væri smágat í eftirlitskerfi brennustjóra hvað varðaði óæskilegt brennuefni en það er auðvitað bara bull,örugglega ættað af vesturbakkanum.


 
 Einn af fréttamönnum heimasíðunnar brá sér á brennuna og staðfesti að allt hefði verið með myndarbrag og einungis hreint timbur í bálkestinum. Nema hvað.



 Það var fjölmennt í góðviðrinu og flugeldarnir breyttust með glæsilegum hætti úr fullt af þúsundköllum í nánast ekki neitt. 


Munurinn á bönkunum sem hrunflokkarnir gáfu vinum sínum og flugeldunum var sá að þegar bankarnir urðu að engu skildu þeir eftir mun þyngri byrðar fyrir okkur en flugeldarnir.

 

Já, þrátt fyrir að hafa lifað betri tíma í fjármálunum splæsti  Borgarbyggð í veglega flugeldasýningu sem var í umsjá björgunarsveitarinnar Elliða.



Á Vesturbakkanum var öllum sprengingum sleppt við brennuna á laugardagskvöldið enda hrossavænt fólk þeim megin.



 Svona gerist bara á vesturbakkanum. 








Já nú er búið að loka á jólin í bili og fjörugur vetur framundan í landsmálunum.

Þó lýðskrumararnir séu lagðir á flótta frá ruglinu sem þeir hafa hamrað á síðasta árið.emoticon




Fullt af myndum í albúmi, smella .Brennur austur og vesturbak...NÝTT
Flettingar í dag: 336
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 18
Samtals flettingar: 413066
Samtals gestir: 37062
Tölur uppfærðar: 16.4.2024 22:41:59
clockhere