Færslur: 2009 Júní

24.06.2009 22:32

Rebbahíbýlin.

 Það var kærkomið þegar fór að rigna um helgina því gamlir menn þola illa i að taka þrjú greni í beit á þrem nóttum.

 Erfiðast er að þurfa að mæta í fjós að morgni eftir að vaka mismunandi mikið fram á nóttina.

  Það var svo fyrst í gærkveldi sem aftur gaf til veiðanna því ekki er farið, ef lítur út fyrir rigningu og lágt skýjafar. Nú brá svo við að ekkert var á grenjunum sem farið var á og voru 7 greni könnuð áður en lauk. Í kvöld var það síðasta tekið af láglendisgrenjunum og eru nú fjallagrenin eftir. Ekki er gert ráð fyrir að sé á þeim en ekkert er víst þegar rebbinn er annarsvegar.
 Því miður eru einhversstaðar þrjú óþekkt greni á þessu svæði sem búið er að fara yfir og verður erfitt að finna þau.


 Hér er frekar myndarlegt láglendisgreni í barði ofan á  háu  holti í mýrlendi.

 Rétt eins og hjá vörgunum á tveim fótum eru bústaðir rebbanna mjög mismunandi  allt frá ömurlegu kílræsi í skurðbakka uppí glæsileg fjallagreni þar sem sést vítt yfir.


 Það var ekki á þessu núna en þetta er frekar dapurlegur verkamannabústaður í móatorfu úti á miðjum mel. Þetta greni fannst fyrir tilviljun þegar Grundfirðingar í hestaferð fóru afvega, á leið vestur Löngufjörur. Það kostaði nokkur símtöl við Jón Bjarna  að finna grenið og dj. var mér kalt í roki og rigningu þegar ég lá þar í fyrsta sinn.



 Hér er alvöru fjallagreni en í þessari urð eru nokkrir inngangar  sem hugsanlega tengjast saman í urðinni.



 Og þegar gefst næði er kíkt á sms in og nokkur símtöl afgreidd í framhaldinu.



 Faraskjótarnir bíða hinir þolinmóðusta eftir vegi fjalla nýjum.

Já þessu er ekki nærri lokið en mesta törnin yfirstaðin. Nú mega hlaupadyrin fara að passa sig og það verður síðan reynt að finna óþekktu grenin á svæðinu því annars verður þar árviss framleiðsla.

  Að finna greni er mikið lotterí með lágu vinningshlutfalli.emoticon 

 




 

23.06.2009 07:37

Skuldauppgjörsleið frammarranna.


 Ég var og er dálítið svagur fyrir framsóknarleiðinni í skuldauppgjörinu.

Þegar ég rakst svo á nánari útfærslu á þessarri snilldarhugmynd á netinu, lá málið ljóst fyrir.

  Það kom forríkur Ameríkani í þorpið og bókaði svítuna á sveitahótelinu í viku. Hann borgaði 1000 pund í fyrirframgreiðslu.

Sveitavertinn varð mjög ánægður og borgaði húsgagnasmiðnum 1000 pund sem hann skuldaði honum.

Húsgagnasmiðurinn varð mjög ánægður og borgaði kaupmanninum 1000 pund sem hann skuldaði honum.

Kaupmaðurinn varð mjög ánægður og borgaði píparanum 1000 pund sem hann skuldaði honum.

Píparinn varð mjög feginn og borgaði þorpshórunni 1000 pund sem hann skuldaði henni (hún var búin að hóta að rukka eiginkonuna)

Þorpshóran varð mjög ánægð og borgaði hóteleigandum 1000 pund sem hún skuldaði honum fyrir herbergi til að stunda sína vinnu.

Svo kom Ameríkaninn niður í lobbíið og sagðist vera hættur við að vera í þorpinu og hóteleigandinn endurgreiddi honum 1000 pund.

Allir voru nú skuldlausir og ánægðir.

 Svona gæti Ísland verið í dag, ef þau Jóhanna og Steingrímur hlustuðu á Sigmund Davíð.emoticon

19.06.2009 16:17

Grenjavinnsla og heyskapur.

 Nú er grenjavinnslan á fullum sving. 

Allt bendir til  að þetta gæti orðið metár í veiddum dýrafjölda í sveitarfélaginu en eftir er að fara á nokkur greni sem trúlega er á. Kleifárvallagrenið vannst í nótt og Skógarnesgrenið í fyrrinótt. Félagi okkar sem er með vestasta hluta sveitarinnar  sem byrjaði  fyrr og er kominn með metuppskeru, enda að verða búinn með sinn hluta.

 Klárir í slaginn. Þó dótið sé mikið og dýrt ,dugar það lítið ef óheppinn veiðmaður hittir heppinn ref, því ekki verður ófeigum í hel komið.



  Þessi bústaður 7 dýra fjölskyldu lætur lítið yfir sér.



  
Það er eftir að fara á grenið í Hafursfellinu sem ég fann fyrir nokkrum árum. Það er mikil fjallganga að komast á það, en trúlega er ekki á því ár.

Það var svo aðeins byrjað að slá í gær en stutt í að stór hluti túnanna verði tilbúinn.

 Ef ekki kemur góður þurrkur seinnipartinn í næstu viku verða svo margir órólegir.

 En það er seinnitíma vandamál.

 Nú er það veiðin og útiveran.emoticon 

 
Flettingar í dag: 160
Gestir í dag: 37
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418823
Samtals gestir: 38048
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 13:55:22
clockhere