Færslur: 2009 Maí

04.05.2009 20:33

Mannskepnan, vorið og vætutíðin.


  Það hefur lengi fylgt mannskepnunni að hún er kannski ekki alltaf ánægð með það sem hún hefur.
  Grasið er alltaf grænna hinumegin ( Ja, nema ekki hjá okkur á vesturbakkanum) og okkur finnst tilveran kannski ekki alveg eins og hún ætti að vera.

  Ef við sauðfjár og kúabændur í Dalsmynni værum spurðir hvernig vorið væri, myndum við bera okkur vel. Tún að verða algræn og kæmu ókalin umdan vetri. Jörðin orðin eða um það að verða klakalaus og  úrkoma flesta daga til að skerpa á sprettunni.

  Ef hinsvegar byggræktendurnir í Dalsmynni væru spurðir sömu spurningar yrðu þeir daufir í dálkinn. Stöðugar and....... rigningar, aldrei þurr dagur og allt í uppnámi með sáninguna. Og komið fram á sumar.




 Það dugar ekki að vera með rétta dótið og græja það almennilega. Það leynast víða hætturnar í henni veröld og eins gott að Söðulsholtsbóndinn er ýmsu vanur á lífins ólgusjó.

  Hérna er sáðvélin ofan á tætaranum og allt gert í sömu ferðinni.  Áburður, fræ og tæting.  Það gengur ekki þegar rakastigið er komið í óefni eins og þetta vorið.



  Allt skraufaþurrt og fínt við plæginguna í haust en nú þarf akurinn nokkra þurra daga fyrir sáninguna.

  Já, lífið er lotterí.

 Svo það verður bara að taka þátt í því, með brosi á vör.emoticon

 

02.05.2009 17:18

Schaferinn, landið og rollurnar??


 Ég fæ alveg heilmörg símtöl árlega þar sem umræðuefnið er hundar.

  Það er oft verið að velta fyrir sér einhverjum vandamálum, verið að leita að hundi handa tík, fá komment á einhver got og sv.frv.



 Langalgengast er þó að spurt sé, hvort ég taki í tamningu, eigi hvolpa til sölu og í seinni tíð er talsvert  spurt  um tamda hunda til sölu.

 Það teygist oft úr þessum samtölum,  en þó þau gleymist fljótt er þó alltaf eitt og eitt sem verður mér minnisstætt.

  Jarðeigandinn sem hringdi í mig um páskana sagðist þurfa að koma sér upp góðum fjárhundi.

Hann ætti tveggja ára Schafer sem hann væri búinn að fara með á eitt fjárhundanámskeið og nú vildi hann að ég tæki hann og kláraði verkið.

 Aðspurður sagði hann að Gunnari hefði bara litist vel á hann og sýnst hann nokkuð áhugasamur.

  Hann væri síðan búinn að fara nokkrum sinnum með Scheffann í kindur á jörðinni sinni en hann væri nú alveg stjórnlaus í því. Ég ætla ekki að fara nánar út í þær lýsingar en allt átti þó að hafa sloppið ótjónað.

 Þó ég hefði nákvæmlega engan áhuga á því að ljúka þessu smáræði fyrir landeigandann, kitlaði það mig dálítið,  hvernig svipurinn yrði á vinum mínum á Austurbakkanum, þegar ég færi að lýsa fyrir þeim hvað ég væri með í höndunum, hvað það gerði við rollurnar og hvar ætti svo að nota dýrið.
 
En vinir mínir á Austurbakkanum eru sérstaklega áhugasamir um rétta landnýtingu.

 Þrátt fyrir að þessi hlið málsins væri freistandi, aftók ég þetta með öllu og taldi reyndar öll tormerki á því að þarna færi efnilegur fjárhundur, þrátt fyrir ummæli snillingsins á Daðastöðum. Enda hef ég reynt Gunnar að því að vera óþarflega  jákvæður ( að mínu mati)  við hundaeigendur til að stappa í þá stálinu við tamningarnar.

  Þá tók ekki betra við því landeigandinn sótti nú stíft að ég útvegaði sér taminn hund nú eða efnilegan hvolp og fór mér nú að líða eins og ég væri eina haldreipi hans í lífinu við að hjálpa honum  að halda landinu sínu fjárlausu.

  Loks tókst mér að ljúka samtalinu með því að ég skyldi nú hafa þetta allt
saman bakvið eyrað og hafa hann í huga ef ég dytti niður á eitthvað sem ég héldi að hentaði honum.

 Hann bauð mér samt ekki að annast málið fyrir sig í verktöku. Hvað hefði gerst þá?? emoticon

Flettingar í dag: 270
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403484
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 14:58:40
clockhere