Færslur: 2008 September

24.09.2008 22:17

Landi, koníak og útafakstur.



  Ég geri ekki ráð fyrir að fjármálaráðherrann hafi verið með landa, svaraði Jón á Högnastöðum blaðamanni DV sem spurði hann hvaða áfengistegund  Árni Matt hefði haft um hönd í réttum  á suðurlandi.( Ég sá fyrir mér hvernig Jón glotti út í annað rétt eins og í gamla daga). Blaðamaðurinn var að gera veikburða tilraun til að gera frétt úr réttarferð ráðherrans með ráðherrabílstjóra og sv. frv. Rétt eins og bændaræflum á suðurlandi væri ofgott að þiggja koníakssjúss hjá ráðherranum á þessum þrengingartímum.

 Við lestur fréttarinnar rifjaðist upp fyrir mér þegar Árni hringdi í undirritaðan fyrir nokkrum árum .
 Það var um hávetur og ég var rétt kominn inn frá kvöldmjöltum . Árni kynnti sig léttur í máli, spurði hvort fjósverk væru búin og hvernig nýja fjósið reyndist. Ég velti fyrir mér hver dj. væri í gangi því mér vitanlega vissi hann ekki hver ég var hvað þá heldur meira. Það kom á daginn að bíll ráðherrans hafði í hálkunni, lent utanvegar rétt sunnan Dalsmynnis og væntanlega hefur Árni hringt í e.h. kunnugan á svæðinu og fengið í leiðinni ýmsar upplýsingar um væntanlegt fórnarlamb.

  Þegar ég mætti á svæðið kom í ljós að bíllinn hafði farið útaf rúmlega meters háum kanti og endað förina í djúpum skurði sem var reyndar fullur af snjó. Með Árna í för var kempan Einar Oddur og var greinilega ýmsu  vanur. Hann stjórnaði aðgerðum , hnýtti bandið og sagði bílstjóra til og allt komst þetta heilt á veginn aftur. Þeir félagar voru á leið á fund í Hólminum og sögðu sem satt var að þar myndi ekkert gerast fyrr en þeir mættu. Þeir kvöddu mig svo með handabandi og þökkuðu greiðann ,Árni fyrst. Handtakið hjá Einari sem var alltaf nokkurra punkta maður hjá mér, var fast og traustvekjandi, Hann þakkað mér vel og sagði um leið og hann sneri frá mér . Þú færð svo sendingu frá okkur.

  Mörgum mánuðum seinna kom svo áritað kort frá þeim félögum ásamt koníaksflösku.

 Þá varð mér hugsað til handtaksins hjá Einari.

23.09.2008 21:15

Aron Sölvi Atlason



  Hlutirnir ganga hratt fyrir sig hjá þessu unga fólki nú til dags. Litli afakúturinn sem raunar átti ekki að fæðast fyrr en eftir svona tvær vikur var skírður í dag .
 
                                              Nýbakaðir ábyrgðarfullir foreldrar.

  Að því loknu var síðan brunað með hann í sveitina og með sama áframhaldi verður hann trúlega kominn í fjósið fljótlega.

  Og Jófríður, önnur aðalfrænkan tók létta æfingu fyrir barnapössun næstu ára.


 Hin aðalfrænkan hún Halla Sif, er þaulvön en fékk líka að prófa.

 Já , pilturinn hlaut nafnið Aron Sölvi og megi honum vel farnast.

 

22.09.2008 19:24

Keyptur hvolpur.


  Það má segja að tvö Border Collie ræktunarkerfi séu í gangi á skerinu í dag.
Annarsvegar  Fjár og Hjarðhundadeildin hjá Hundaræktunarfélagi Íslands.  Kannski rétt að ræða hana ekki frekar í bili, og hinsvegar hin frjálsa og óháða ræktun í sveitinni þar sem breiddin á ræktunarmarkmiðunum er mikil og markmiðin í ræktuninni virðast stundum dálítið óljós. Það er þó talsverður hópur ástríðufullra ræktenda í seinni hópnum sem stefnir markvisst að því að framleiða hinn fullkomna fjárhund, og þó menn hafi mismunandi sýn á útlit, stærð og ef til vill mismunandi áherslur á hina ýmsu hæfileika ber þar kannski ekki mikið á milli.
 Nú eru að gerast stórir hlutir og góðir því menn hafa tekið nokkurskonar heljastökk í innflutningi á tömdum og ótömdun kynbótadýrum. Fluttir hafa verið inn a.m.k. 3 hundar og tvær tíkur  á stuttum tíma og þetta er allt á fullu í framleiðslunni.  Þó ég telji mig allvel hundaðan er erfitt að sitja hjá í svona veislu og þessvegna var fjárfest í lítilli tík sem er undan innfluttum tömdum foreldrum.



 Útlitið er ekki alveg eftir ræktunarmarkmiðunum en innrætið á að bæta það upp. Hárafarið verður svo lagað í afkvæmunum.

  Ég á eftir að velja nafn á litlu dömuna og óska því eftir góðum hugmyndum. Nafnið þarf að vera þjált, óalgengt og þarf að vera ólíkt  " Snilld " í framburði. Þeir sem hafa góða hugmynd en vilja ekki koma fram undir nafni, mega að sjálfsögðu gera það undir dulnefni eða í gegnum mailið.

 Nú stend ég frammi fyrir því vandamáli að hundakvótinn á heimilinu er sprunginn og fækkun framundan . Það er langtímavandamál sem örugglega mun leysast farsællega í fyllingu tímans.

  Svo er bara að láta sig hlakka til kennslunnar, því nú er ætlast til að hérna sé eitthvað efnilegra/skemmtilegra á ferðinni en vitleysingarnir sem maður hefur verið að
baslast með í gegnum tíðina.emoticon

 

Flettingar í dag: 293
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403507
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 15:54:06
clockhere