Færslur: 2008 Júní

04.06.2008 20:05

Bangsi. Þokan, grimmd eða heilbrigð skynsemi??

Dýraverndin er inni í dag sem er gott mál. Í þessari bangsaumræðu allri þótti mér áhugavert viðtalið í dag, við ráðgjafa umhverfisstofnunar ,dýralækninn sem upplýsti það að reyndar væri til viðbragðsáætlun  við komu bjarndýra hingað. Ekki frágengin en gengi einfaldlega út á það að aflífa dýrið. Hann rökstuddi þetta ágætlega,m.a. með því að takmarkaðar veiðar væru leyfðar  og verslun með kjötið leyfð o.sv.frv.. Ekki væri verjandi af öryggisástæðum að nálgast dýrið með deyfibyssu nema úr lofti o.sv.frv.
 Kolleki hans á austfjörðum sem  mér skyldist að hefði einn ísl. sótt námskeið í notkun deyfibyssa, átti eina slíka og svæfingalyf sem hefðu dugað í verkið sá hins vegar enga annmarka á því að nálgast Bangsa kallinn uppi á fjöllum og svæfa hann í rólegheitum. Fréttamaðurinn spurði hann ekki að því hversu stutt/langt færi hann þyrfti til að hitta og því síður hversu fljótur hann væri að hlaupa ef hann hitti ekki, en mér fannst nú þessar spurningar, sérstaklega sú seinni, vera grundvallaratriði í málinu. Ég er ekki frá því að þetta sé kannski sami dýralæknirinn sem sá ásæðu til að leita uppi fréttamenn til að tjá sig um minkasíuna .
 Það er minkagildra sem liggur í kafi í vatni,minkarnir fara inní hana, komast ekki út og drukkna. Þetta þótti honum grimmdarlegur dauðdagi og ekki mönnum sæmandi. 
  Mér varð hugsað til hundaveiðanna þar sem eltingaleikurinn með uppgreftri og allskonar uppákomur taka oft einhverja klukkutíma með tilheyrandi skelfingum fyrir veiðidýrið. Ég tala nú ekki um fótbogana sem ótrúlega margir nota enn þrátt fyrir að komnar séu gildrur sem steindrepa dýrið fljótt og örugglega( glefsurnar). Kaffielítan (eins og einhver ágætur útvarpshlustandi komst að orði) lítur að sjálfsögðu framhjá
öllum smáatriðum þegar þarf að tjá sig um dýravernd og almenna umgengni um náttúruna.

     Já,  svo er sleppitúrinn að bresta á, en um hádegi á morgun verða hestaflutningatækin  lestuð og lagt af stað að Stafafelli í Lóni.   Og það er óvíst að verði kveikt á símanum ef hann verður þá  tekinn með??.  Hafið það svo gott á meðan og framvegis.   

03.06.2008 00:00

Hvolpar og kindur.



                                    Rétti liturinn og trúlega allir þrílitir í þokkabót.
              Það standa öflugar ættir að þessum krílum. Móðirin undan Kát á Bergi, sem er að gefa afbragðs smalahunda, og faðirinn undan Skessu og Tígli margföldum Íslandsmeisturum í fjárhundakeppnum.

  Getur þú ekki geymt Mýru fyrir okkur í nótt, við erum að fara með hross í bæinn í kynbótadóm spurði dóttir mín kæruleysisleg í röddinni. Ekkert mál sagði ég, á leiðinni út á hestbak,  settu hana í endabúrið. Um leið og ég var að loka dyrunum bætti dóttirin við, það gæti svo aðeins verið að hún gyti í nótt!!...  Og kl rúmlega 11(23) kom fyrsti hvolpurinn og sá áttundi kom um níuleytið í morgun.  Ég ætla nú ekkert að leggja mat á þessi hvolpaskoffín en liturinn á þeim er fínn . Sumir eru meir að segja hreinkjömmóttir eins og góðir B C. eiga að vera. Pabbinn hann Skrámur frá Dalsmynni er dálítið glannalegur á litinn ,það erfðist ekki hér, en tilvonandi eigenda vegna vona ég að hvolparnir sæki sem mest í hann að öðru leiti. Enda finnst mér stundum að amman komi sterkar fram í barnabörnunum en afkvæmunum.

  Nú eru kindurnar allar komnar út nema tvær .Önnur bar í kvöld en það er vika í hina.
Tvílembdu gemlingarnir og flestar þrílemburnar eru á vakki hér í kring því ekki þótti þorandi að sleppa þeim í sollinn neðan vegar strax. Nokkrar eru komnar í fjallið .Þær láta sig hverfa inneftir sem er góðs viti. Þessar neðan vegar eru orðnar órólegar þrátt fyrir lúxus beitilönd.  Þær eru farnar að leita upp að hliði  og láta sig greinilega dreyma um eitthvað annað en flatlendið. Bóndinn hefur fullan skilning á því, en ætlar að bíða í nokkra daga enn með að gefa húsfreyjunni upprekstrarleyfi. Þegar það er fengið fer hún að dunda við það að koma þeim í smáhópum uppeftir.

   Og það er ljóst að gistinæturnar hennar Mýru verða fleiri en ein. 

01.06.2008 09:32

Skólaslit í Laugargerði.



                    Þessir vinir mínir,Tumi í Mýrdal og Þórður í Laugargerði slógu í gegn á skólaslitunum.

Laugargerðisskóla var slitið með pompi og prakt í gær. Nýi skólastjórinn okkar , Kristín Björk stjórnaði þessu af mikilli röggsemi. Þarna voru m.a. mætt, fyrsti skólastjórinn ,  Sigurður Helgason og hún Jóhanna, sem vegna veikinda þurfti að hætta skólastjórn síðastliðið sumar mætti hin hressasta.
  Þau voru síðan 9 sem mættu úr hópnum sem útskrifaðist fyrir 40 árum og rifjuðu upp gamlar minningar sem eru auðvitað bara góðar eftir  þennan tíma. Sigurður leiddi okkur síðan inn í fyrstu ár skólans með um 130 nem. Þá var heimavist við lýði og nemendahópnum skipt upp í þriggja vikna tímabil . Þrjár vikur í skóla,þrjár vikur heima.

 Það er alltaf gaman að komast innan um svona ungmenna og barnahóp hvort sem er á árshátíðum eða skólaslitum og maður fyllist bjartsýni á framtíðina. Við Kolbrún Katla áttum þarna góða stund sem var síðan toppuð með kökunum hennar Áslaugar matráðskonu.

   Það er svo komið inn myndaalbúm með sýnishornum (teknum af Sig.Jóns.) af ræktunarstarfinu (mannræktinni) sem er í gangi hér á suðaustanverðu nesinu.
 
Flettingar í dag: 1097
Gestir í dag: 16
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806230
Samtals gestir: 65280
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:31:20
clockhere