Færslur: 2008 Júní

27.06.2008 23:16

Bjarndýrabúrið góða..


  Þó ég sé afdráttarlaus talsmaður þess að smitvarnir séu í heiðri hafðar til varnar þessum viðkvæmu landsnámsstofnum okkar hér á skerinu, (sérstaklega kúnum) fannst mér broslegt hversu ríkulegur afsláttur var veittur í sóttvörnunum þegar "Búrið góða" var flutt inn. Það hefur komið fram að engin sótthreinsun var framkvæmd á því fyrir innflutninginn heldur var það tekið beint úr geymslunni í dýragarðinum þar sem það stóð " sótthreinsað " eftir síðustu notkun og flutt beint að Hrauni á Skaga. Engin sótthreinsivottorð fylgdu því heldur voru orð yfirdýralæknis  dýragarðsins látin duga um ástand þess og sótthreinsun.Kannski var það sá sami og stjórnaði hinum vel grunduðu og velheppnuðu aðgerðum á Hrauni?.  Búrið er síðan úr timbri en það er afdráttarlaust í lögum að sótthreinsun á timburbúrum dugi ekki , þeim skuli eytt. Sama á við um öll timburverk í innfluttum tækjum eða búnaði  sem notuð hafa verið erlendis. Og möppudýrin og kerfiskallarnir bíta svo höfuðið af skömminni með því að upplýsa að nú sé búið að sótthreinsa græjuna og kerruna sem flutti hana enda sé það síðan geymt á " traustum " stað.

  Það allra skemmtilegasta í málinu er þó að tveir banghagir menn reka saman svona kassa á örfáum klukkutímum.

 Og svo vildi ég gjarnan að Bangsi no. 3 fari nú að birtast svo góða fólkið hafi eitthvað að hugsa um og nefndin fari að klára aðgerðaáætlunina sína sem mun verða mjög djúpt hugsuð og skynsamleg..
( Bara að löggan verði nú ekki til vandræða í nefndinni.?)

27.06.2008 00:44

Meiri þurrkur og meindýrin.

    Það var rúllað í Hrútsholti og Söðulsholti samkvæmt áætlun í eins góðum þurrki og hægt er að hugsa sér.
Við rúllum með fastkjarnavél og höfum rúllurþvermálið 140 cm. Þetta þýðir um 40 % meira heymagn en í hefðbundnu rúllunum.(120 cm.) Hagkvæmnin sem næst með þessu í plöstun og allri meðferð er dálítil og veitir ekki af . Þessir þurrkar eru farnir að verða til vandræða sérstaklega fyrir þá sem búa við þurrlendari tún. Vinur minn á Barðaströndinni sem talaði við mig í dag sagði að stefndi í vandræði þar,  tún væru farin að brenna, enda ekki komið dropi úr lofti í 3 vikur + .

 Kvöldið var síðan tekið í að slá restina af Vallarfoxinu sem var farið að leggjast þó aðeins væri eftir í skrið.  Það á að rúllast seinnipartinn á morgun. Er þá lokið fyrri slætti fyrir kýrnar en hross og rollur geta étið það sem úti frýs eða þannig.
 Yngri bóndinn fór hinsvegar að glíma við yrðlinga á greni sem hann vann á mettíma í gærkveldi. En eins og fyrri daginn er lágfóta óútreiknanleg og grenið hátt í Hafursfellinu sem við vorum búnir að bóka autt, reyndist í fullri ábúð( reyndar nýflutt á það) þegar kíkt var á það til öryggis í gærkveldi.

   Því betur sem maður telur sig þekkja tófuna því meira kemur hún manni á óvart.

  
 

26.06.2008 00:33

Þurrkurinn,landvættir og sauðfjárrækt.


  Það var þessi fíni þurrkur í allan dag. Það tók hinsvegar verulega á taugarnar að það voru hellidembur bæði fyrir sunnan mig og vestan. Ég hafði mun meiri áhyggjur af skúrunum fyrir sunnan mig enda nálguðust þeir stundum ískyggilega Vesturbakkann.
  Landvættir okkar vesturbakkamanna hafa trúlega haldið hlífiskildi yfir okkur Jóni í Kolviðarnesi sem átti mun meira undir en ég. Spurning hvort hægt væri að fá þá
( landvættina) til að verja Vesturbakkann fyrir rollum þeirra Austurbakkamanna sem eru hér til óþurftar á ökrum og túnum . Þessar rollur eru örugglega sér ræktunarlína  með mjög öflugan þrjóskuglampa í augum og þær sem best hefur tekist til með, koma alls ekki til byggða í hefðbundnum leitum heldur  er verið að tína þær  niður fram eftir vetri. Já þeir eru ótrúlega lunknir í fjárræktinni vinir mínir á Austurbakkanum .
 Við Halla Sif fórum síðan í verslunarleiðangur í Borgó því Aðalstjórinn hér er farin í fimm daga gönguferð um Lónsöræfi og geri aðrir/ar betur .Þetta er trúlega hennar sleppitúr. Enda var verslað vel inn því nú er dekurvika framundan .

  Og er svo ekki einhversstaðar landsmót í framhaldinu??
 
Flettingar í dag: 68
Gestir í dag: 10
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 401809
Samtals gestir: 36507
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 10:22:10
clockhere