Færslur: 2008 Júní

15.06.2008 00:10

Sleppitúrinn 4 d. Litla Hof


Frá v.    efri.r. Gestgjafinn , Jói,Gulli og Laufey,Jonni,Svanur,Skúli og Jón El.
fr.röð. Auðun,Stjáni,Dagný, Öddi,Axel og Gunni.
 Áð í Hrollaugsborgum(held ég) . Þangað færði konan hans Axels(man því ,miður ekki hvað heitir) okkur m.a. soðin kríuegg í ómældu magni.

  Einn af fjölmörgum göllum okkar gömlu sleppitúrsmannanna er það, að okkur er ekki gefið að syngja mjög vel .Stjáni  er þó góður og bjargaði oft málununum þegar við vorum fámennir og þurftum að taka lagið með einhverjum. Þegar Gunni og Gugga bættust við í fyrra, lagaðist þetta verulega og þegar Dagný bættist við í ár fór þetta að líta vel út.
 Þegar Gugga og Dagný tóku  Vatnsenda Rósu með sem mestu tilþrifum lá við að gömlu perrarnir táruðust og er þeim þó ekki grátgjarnt.
 Það má segja að Dagný hafi komið sterkt inn á tvennan hátt því hún hefur í hestakosti sínum moldóttan klár sem var betri en enginn þegar reksturinn tók einhverjar óvæntar aríur og afbragðs ferðahestur að öðru leiti..

  Já það var lagt upp frá Lækjarhúsum á tilsettum tíma. (Sem er alltaf rauntími.)
   Þá var búið að koma bílunum að Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi og koma upp hólfi fyrir hrossin en þaðan yrðu þau flutt að Litla Hofi um kvöldið.
 Nú slógust í för auk Ödda , Laufey og Gulli í Lækjarhúsum og Axel sem gædaði okkur þennan dag. Fyrst áfangi var að Jaðri til Ingimars stórvinar okkar. . Kálfafellstaður, prestsetur þeirra Suðusveitunga er þar í sömu torfunni . Þar þjónar nú fyrrverandi sálusorgari minn og nágranni. Einar Jónsson sem bjó í Söðulsholti í nokkur ár.
 Ég reið að sjálfsögðu í hlað hjá Einari en þar náðist enginn til dyra og kannski enginn heima, en mér er til efs að þar hafi nokkurntímann riðið Eyhreppingur í hlað fyrr í Íslandsögunni. Nú bauð Ingimar okkur til bæjar og gaf okkur kaffi sem sumir höfðu nokkra þörf fyrir. Hann gekk síðan til búrs og kom með hitt lærið af þeim veturgamla sem reyndist engu síðra.. Nú bætti hann um betur og gaf okkur lærið sem reyndist okkur vel og dugði til ferðaloka.
 Þennan dag voru reiðgötur misgóðar og siðari hluta dagsins fórum við götulausa mela og áraura. Þetta land var að stærstum hlut tiltölulega nýkomið undan jökli sem hefur hopað með ólíkindum síðstu 30 árin. Þegar ég kom að lóninu fyrir nokkrum árum var vatnabílunum ekið í lónið nánast við þjónustumiðstöðina. Nú er þeim ekið einhverja km. að jökli áður en farið er í lónið. Við sleppitúrsmenn erum ekki óvanir götulausum leiðum því einn okkar er afar góður á kortunum og ríður alltaf fremstur. Stundum eru göturnar á kortunum hinsvegar ekki fyrir hendi á landinu sem riðið er eftir og er það vegna lélegra kortagerðamanna. Þetta var sérstaklega slæmt einhverju sinni á leiðinni,Þingvellir- Skorradalur og sýndist okkur eftirá að spottinn sem átti að vera 45- 50 km hefði verið farinn að nálgast 100 km óþægilega mikið í áfangastað og líklega algjör tilviljun að hitta á Skorradalinn. Nú , við náðum farsællega að lóninu og sæmilega gekk að koma hrossunum að Hofi . Og Einar sem þurfti að eyða deginum í Reykjavík á afmæli systur sinnar slapp lifandi úr flugferðinn báðar leiðar og með honum til baka kom Halldóra sem kláraði túrinn með okkur og var flokkurinn nú loks fullskipaður. Þegar við lýstum deginum fyrir Einari var þetta að sjálfsögðu langbesti dagurinn. Eeen þrátt fyrir góða grillveislu var ekki mikið sungið þetta kvöld.

  Mér gengur svo ákaflega illa að verð mér úti um myndir úr túrnum og er farinn að velta fyrir mér hvað sjáist eiginlega á þeim??
 
 

14.06.2008 17:17

Sveitamarkaður.

 

 Þegar  " stelpurnar " í sveitinni settu upp sveitarmarkað í fyrra hafði ég pínulitlar efasemdir um að þetta gengi í fámenninu. En þetta gekk fínt og markaðurinn í dag gekk enn betur.
Ég komst að vísu ekki en þegar ég kom þreyttur og móður til byggða eftir rebbaleit fékk ég þessar fínu kökur með kaffinu(enn betri en venjulega.)
 Já markaðurinn er örugglega kominn til að vera og kannski kemst ég næst til að kaupa mér alvöru sokka fyrir veturinn.

14.06.2008 00:52

Sleppitúr 3 Lækjarhús.

     Það fór vel um hrossin í fjárhúsinu í Lækjarhúsum eftir slagveðursrignunguna.

 Sá sem átti að gæda okkur á laugardeginum ,Eyjólfur eða Eyfi kom á móti okkur þegar komið var niður úr Almannaskarðinu ásamt konu og 2 börnum.
 Þetta var greinilega þungavigtarfjölskylda í hrossaræktinni og var ekki illa ríðandi.

  Þegar komið var í hús um kvöldið var sest yfir mögulegar reiðleiðir á svæðinu með gædunum báðum. Niðurstaðan var sú að breyta verulega upphaflegum áætlunum. Fara skemmtilegar leiðir í héraðinu og keyra síðan hrossunum tvívegis á næturstað .
Í fyrra skiptið frá Jökullónina að Litla Hofi og síðan frá Svínafelli vestur yfir Skeiðarársand að Hvoli í Fljótahverfinu en þaðan yrði síðan riðið síðasta daginn að Kirkjubæjarklaustri. Óþarft er að taka fram að þjóðvegurinn kom nánast ekkert inn á þessar leiðir.  Þegar hross voru síðan rekin inn á laugardagsmorguninn var eitt hrossið stinghalt og reyndist vera með skurð á framfæti. Kjartan dýralæknir sem hafði tekið á móti okkur daginn áður og ætlaði að fylgja okkur úr hlaði, skellti í hana penicillíni og lét mig fá sprautu handa henni daginn eftir , Hún var síðan keyrð milli áningastaða og síðar bættust 2 önnur við sem heltust.

  Nú hefði maður átt von á rólegheitum í rekstrinum en þegar lagt var af stað tóku tveir klárar sig útúr og reyndust í meira lagi framsæknir . Voru þar komnir tveir þeirra sem Skúli kom með kvöldið áður. Leiðin upp með Hornafjarðarfljótinu var skemmtileg en lætin í klárunum voru slík að við Eyfi þurftum að blindhleypa langa leið til að ná þeim.
 Ég hef aldrei upplifað það áður að ístaðið væri ítrekað slegið fram af löppunum á mér en svona er að ríða hrossum sem eru dinglandi löppunum í allar áttir. Á næsta áningarstað kom svo í ljós að Stígandi hafði tapað framfótarskeifu í látunum en mjúkt var undir og hófurinn óskemmdur..
 Það var dálítið um að skeifur töpuðust og Auðun sem sá um járningarnar að mestu leiti fékk náttúrulega klapp á bakið og  ..... fyrir aðstoðina.
  Já það fór að rigna þegar kom fram á daginn og um það er við komum að Smyrlárbjargarvirkjun fór að bæta í .Þegar þarna var komið sögu var Öddi kominn aftur í hópinn og fylgdi okkur síðan líka næsta dag ,ekki sem gæd og ekki vegna þess að við værum leiðinleg.
 Þarna kom að heilsa upp á hópinn, héraðshöfðinginn aldni, Ingimar á Jaðri. Átaldi hann skipuleggjendur ferðarinnar harðlega fyrir að hafa skipulagt reiðtúr um Suðursveit án samráðs við hann. Það var löngum bjargráð félaga minna þegar í óefni var komið ,reksturinn verið rekinn ínn á moksprottin tún eða eitthvað þaðanaf verra að benda á mig og segja að þetta væri eini alvörubóndinn í ferðinni og allt væri honum að kenna. Gripu þeir nú til þess ráðs. Ingimar vildi þá vita hvaðan ég væri og það var eins og við manninn mælt að allar átölur voru gleymdar en rifjað upp að fyrir margt löngu hafði hann heimsótt foreldra mín ásamt stórmennunum, þeim Sveini í Völundi og Hauki á Snorrastöðum. Eftir að hafa faðmað mig og strokið, brá Ingimar sér síðan í bíl sinn og kom með reykt læri af veturgömlum sauð. Að sjálfsögðu taðreykt, og reyndist þetta lostæti mikið. Meira að segja Auðun sem borðar helst ekki nema mauksoðinn fisk spændi í sig hrátt hangikjötið. Nú var  lagt á "Olíufjallið". Riðum við þar uppí svarta þoku eftir góðum akvegi en þegar komið var langt uppí þokuna var rekstrinum beint útaf veginum og inná línuveg sem lá niður fjallið og allt til næturstaðar hestanna Lækjarhúsum.
 Mér var falið það hlutverk að sjá til þess að allt lestaði sig inná hliðarveginn og beið ég þarna síðasta manns. Á eftir honum kom síðan Ingimar (með bílstjóra) og steig ég af baki til að vökva með honum lífsblómið áður en ég myndi  hverfa aftur inn í forreiðina.
 Sem við stöndum þarna, kemur til baka útúr þokunni brúnt hross og tekur strikið niður veginn til baka. Varð nú fátt um kveðjur hjá okkur félögunum en þegar ég sá hversu ákveðið hrossið var og sýndist jafnframt að það myndi vera úr héraðinu( ekki að spyrja að Hornfirska geðslaginu), afskrifaði ég það og reið eftir ferðafélögunum. Heldur sló á rigninguna í bili og niður úr þokunni komumst við og enduðum að Lækjarhúsum. Þar voru móttökurna höfðinglegar, öll hross sett inn í fjárhús (fyrrv refahús) og gefin rúlla. Öllum bílum hafði verið ekið að Lækjarhúsum um morguninn  og sáu þeir sem ökufærir voru, um að koma mannskapnum að Hala þar sem gist var næstu nótt. Þangað heimsóttu okkur Lækjarhúsahjón, þau  Laufey og Gulli, ásamt Axel og frú á Krók en Axel skyldi gæda okkur næsta dag. Að sjálfsögðu mætti líka Ingimar á Jaðri og áttum við þarna afskaplega ánægjulega kvöldstund. Og það var alltaf stöðug framför í söngnum.

 

Flettingar í dag: 1
Gestir í dag: 1
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418664
Samtals gestir: 38012
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 00:18:52
clockhere