Færslur: 2008 Júní

13.06.2008 00:30

Sleppitúrinn. Fornustekkir.


                Þessi áningarstaður beið okkar þegar komið var niður úr Almannaskarðinu.

  Gædinn sem lóðsa átti okkur þennan fyrsta dag hét Örn Þór , kallaður Öddi. Hann mætti stundvíslega kl. 9.30.með tvær möppur undir hendinni  sem í voru fjöldi korta með reiðleiðum um fjörur og firnindi. Mér leist ekki á blikuna þegar hann byrjaði að fara yfir leiðir sem stæðu til boða síðasta reiðtúrsdaginn því okkur félögunum hættir oft til að breyta áætlunum sem ákveðnar eru að morgni og ráðum ekki við meira en að liggja yfir því sem liggur fyrir næstu klukkutímana. Þegar Öddi hafði áttað sig á þessu fór hann nákvæmlega yfir þær leiðir sem til boða væru þennan daginn. Það eina sem við óskuðum var að sem minnst yrði þvælst með þjóðveginum. Þá lýsti gædinn fyrir okkur fjallabaksleiðunum  og þegar hann sá að öllum leist vel á þær, benti hann okkur á að við værum mánuði of fljót á ferðinni og allt væri ófært fyrir aur. Síðan voru skoðaðar þær leiðir sem  lágu fjarri vegi að neðanverðu. Eftir að hafa velt vöngum yfir þeim sagði Öddi okkur það að ef við ætluðum að ríða milli Svínhóla og Fornustekka á skikkanlegum tíma og hæfilegri dagleið yrðum við að gjöra svo vel að halda okkur með veginum að mestu leiti og lauk þar með kortayfirlegunni.
   Svínhólabóndinn tók vel á móti okkur, var greinilegu mun óhaltari en kvöldið áður og sagðist hafa sofið sérstaklega vel og hjartað virkaði sem aldrei fyrr.
   
   Það var síðan lagt á þjóðveginn með reksturinn og vegna mikillar reynslu á ferðabyrjunum var sem flestum skipað í forreiðina. Allt kom þó fyrir ekki og reksturinn sprautaðist framúr okkur og náðu aðeins þau harðskeyttustu að komast framúr og halda afturaf hópnum þó greitt væri farið. Öddi sem er mikill áhugamaður um hestaferðir hefur síðust árin komið upp 60 hestagerðum víðsvegar á svæðinu kringum Hornfjörðinn og nutum við góðs af þessu frábæra framtaki í ferðinni. Gerðunum sem er dreift á reiðleiðir með sirka 5 km. millibili eru einföld og falla yfirleitt vel inní umhverfið. Reknir eru niður nokkrir sívalir staurar , settur á þá strengur úr sléttum vír og nylonborði í hliði.  Við Stafafell var áð í einu slíku og hver birtist þá annar en Ásgeir á Svínhólum. Sagðist hann ætla að bjóða okkur upp á "Íslending" sem reyndist vera tær vökvi heimagerður og auðvitað afbragðsgóður. Eins og áður getur er Ásgeir mikill mannþekkjari og hefur hann áttað sig á því, að ef hann hefði boðið þetta í upphafi ferðar sæti hann trúlega uppi með okkur enn.
 Nú var stutt í brúna yfir Jökulsá í Lóni sem reyndist okkur nú versti kaflinn á ferðalaginu.
Brúargólfið er járnklætt timburgólf og sagði Öddi að við skyldum teyma reiðhrossin á undan og halda rekstrinum fyrir aftan okkur. Þarna upphófust miklar skelfingar því lausu hrossin ærðust gjörsamlega þegar út á brúna kom , ruddust á okkur sem á undan voru og spyrntu sér hvort á móti öðru og féllu hvert um annað þvert og lá við slysi þegar eitt okkar þeyttist út í handriðið í látunum. Reyndum við þá að víkja og láta hrossin sleppa framúr sem tókst að nokkru en sum sneru við á brúnni. Þrír hnakkhestar töpuðust með því sem áfram fór en þau hross tóku síðan sprettinn niður með á. Ákváðum við Stígandi að yfirgefa þennan kaos og elta hrossin. Þau stöðvuðust síðan á eyri við varnargarð mikinn  og tókst mér að ná hnakkhrossunum og senda þau til baka með næsta sem kom. Það var síðan hátt í klukkutíma barningur að ná restinni yfir og fengu stjórnendur vegamála á svæðinu mikil hikstaköst þennan föstudagsmiðdag.

  Um nóttina var gist á Fornustekkum og nutu hestar og menn gestrisni hornfirskra hestamanna. Þarna bættust í hópinn Jonni og Skúli, sem var grillmeistari ferðarinnar enda var efnt til mikillar grillveislu sem endaði síðan með lítils háttar söngæfingu með nokkrum hestamönnum úr héraði.
 

11.06.2008 21:54

Sleppitúrinn 1. Svínhólabóndinn.



  frá v. Dagný,Jón El.(bakvið,) Ásgeir, Svanur, Auðun,Gunni og kellingarvínið góða.

             Leiðin austur með hestana er um 600 km.héðan en stærsti hluti hrossanna var þó fluttur úr bænum. Það þarf ekki að hafa mörg orð um fólk sem flytur hross  slíka vegalengd til þess að ríða út í nokkra daga, enda sleppi ég því af tillitsemi við okkur ferðalangana.Við Einar ásamt Katrínu, vorum á trailernum með 10 hross. Þau voru laus í tveim stíum og fer mjög vel um þau. Auðun og  Stjáni voru með sína fjögurra hesta kerruna hvor og Jói og Ingibjörg voru með tveggja hesta kerru. Áður höfðu verið flutt 9 hross að Svínhólum  Lóni. Þar hafði hringferðinni lokið fyrir 7 árum efir 18 tíma áfanga úr Snæfelli. Nú átti að loka  þessari hringferð sem hófst á Kirkubæjarklaustri á síðustu öld.

      Við vorum snögg að losa hrossin á afleggjarann áður en við hentum upp girðingu til að minnka girðingarhólfið  fyrir þessa einu nótt. Ásgeir bóndi í Svínhólum var sóttur til að stjórna aðgerðum. Hann er eldsprækur öldungur kominn á níræðisaldur ,hvikur og léttur á fæti en stakk við eftir slit á hásin í fyrra. Hafði frá mörgu að segja og lá ekki á skoðunum sínum. Þegar Huntsmaðurinn í hópnum kom með púrtarann til að fagna þessum áfanga og ná endanlega  úr sér hrollinum eftir 18 tíma áfangann fyrir 7 árum lét Ásgeir sér fátt um mjöðinn finnast en bragðið væri þó ágætt. Þar sem honum hafði verið bent á eina alvörubóndann í hópnum taldi undirritaður rétt að sækja Whiskíið.
 Hafi Ásgeir verið í einhverjum vafa um hver væri aðalmaðurinn í hópnum var hann það ekki lengur og meðan við fórum yfir heimsmálin ásamt öllum hinum málunum þarna í vorblíðunni hélt meðalfólkið sig við "kellingarvínið." Þegar það upplýstist að hann væri nú með hjartagangráð og lifði á ómældum dagskammti af pillum og hefði ströng fyrirmæli um að neyta ekki áfengis leist mér ekki á blikuna og gerði mig líklegan til að loka fyrir veitingarnar. Þegar Ásgeir sá hvert stefndi fullvissaði hann mig um að hann væri löngu dauður ef hann hefði fylgt þessu læknisráði og tókum við þá óðara gleði okkar á ný.
  Hann upplýsti okkur nú um það, að í hrossahópnum sem komið var með til hans helgina áður hefði sloppið hryssa inn á heimatúnið og síðan hefði sloppið veturgamall foli úr nærliggjandi girðingu til hennar . Yndu þau vel hag sínum á túninu og væru í svona smá keleríi öðruhvoru. Þegar hann sá að okkur brá nokkuð við þessi tíðindi fullvissaði hann okkur um að folinn mynd ekki gagnast merinni enda  rétt um ársgamall. Ef eitthvað hefði gerst þyrftum við engu að kvíða. Þarna myndi þá verða til þvílíkt gæðingsefni að við fátt yrði jafnað. Folinn hefði borið svo af sláturfolöldunum  að ekki hefði komið til greina að láta hann fara. Gríðarlega stór og fallegur,reistur og fótaburðurinn skemmdi nú ekki fyrir.
 Þessar lýsingar vöktu umsvifalaust áhuga manna og stefndi nú óðara í hugsanleg viðskipti. Þó var talið rétt að geyma þau til morguns svo hægt væri að berja gripinn augum.

  Hópurinn sem þegar þarna var komið taldi  12 manns hélt síðan til gistingar á Stafafelli. Þar stillti síðan söngfólkið saman raddirnar fyrir væntanlegan söngflutning fyrir Suðursveitunga og aðra höfðingja sem ráku á fjörur okkar í ferðinni.

09.06.2008 23:12

Höfuðlaus her eða þannig.

Heyrði í Svan áðan, hann hress í máli og hestaferð gengur vel. Heyrði ekki söng en tel víst að söngvatn sé nálægt.
Hér gengur allt vel þrátt fyrir fjarveru bóndans (nú eða vegna fjarveru bóndans). Ég útskrifaðist úr Grænni skóga náminu á laugardag. Þá var lokadagur, allir áttu að gera grein fyrir lokaritgerðinni sinni og svara spurningum úr henni. Þetta var feykilega skemmtilegt, ótrúlega ólíkar ritgerðir og sumar mjög spennandi. Sérstaklega var ég hrifin  af ritgerð sem hét Hrossabeit í skógrækt og er um beit hrossa til að halda niðri sinu í skógi. Ég skrifaði um Sauðfjárrækt og skógrækt  og reyndi að komast að því hvort sauðkindin sé þessi skelfilegi vágestur í skógi sem sumir telja eða hvort hægt sé að stunda þetta saman. Eftir ritgerðaflutning var svo farið að Fitjum í Skorradal og grillað og trallað.
Atli var orðinn afar þreyttur á kindum á túni svo við höfum verið að koma þeim upp í fjall í gær og dag. Núna eru bara 3 þrílembur og annað eins af lappaveikum/ljótum ám heima og ætli þær fái ekki að vera niðri á Eyrum fram eftir sumri. Mér sýndust lömbin bara nokkuð bústin svona flest. Einn gemlingur var búinn að týna lambi og það trúlega dautt því ekkert móðurlaust lamb hefur sést. Síðasta ærin bar svo á sunnudaginn og ætli hún og gemlingurinn sem bar á fimmtudag fari ekki út á morgun. Vonandi tekst mér að marka lömbin rétt. Ég hef lítið gert af því síðan ég víxlaði milli eyrna markinu okkar fyrir mörgum árum. Kannski ég láti duga að skella númeri í þau og sleppi því að marka. Annað eins hefur nú gerst.
Annars er ég í því að labba þessa dagana svona til að undirbúa gönguferðina sem styttist óðfluga í. Passa mig að nota ekki fjórhjólið þegar verið er að sækja féð. Búin að fara einu sinni upp á Dalsmynnisfjall og síðan er gönguhópurinn með fyrsta labbið á þriðjudagskvöldið. Þá á að ganga frá Snorrastöðum í Snorrastaðavinina.
Síðan stefnir allt í slátt og er viðbúið að þegar endurnærður húsbóndinn birtist á svæðinu að hann býsnist yfir framtaksleysi okkar hinna að vera ekki löngu farin að slá.
Flettingar í dag: 1504
Gestir í dag: 18
Flettingar í gær: 1220
Gestir í gær: 122
Samtals flettingar: 806637
Samtals gestir: 65282
Tölur uppfærðar: 2.4.2025 09:52:20
clockhere