20.05.2014 04:34

Fjárheimar, mannheimar og fæðingasprengjur.

 Nú er komið að þeim tímapunkti í sauðburðinum að maður fyllist áhuga á að fá að sofa svona eins og í nokkra daga kannski.


Þetta er hefðbundið og fer yfirleitt saman við það að allt er orðið yfirfullt á fæðingardeildum búsins.


  Það sem er óhefðbundið er að vorið er í þetta sinn frekar sjaldgæf vortýpa og varla hægt að setja út á það á nokkurn hátt þó fullur vilji sé til þess.


Þannig að í fæðingasprengju síðustu daga ,líkt og í mannheimum er útskrifað af skammtímadeildinni þó lömbin séu enn blaut á bak við eyrun, Því elsta er svo rótað út í blíðuna eftir hendinni og allt gengur feykivel.

 Þá er skírskotað til álagspunktanna í mannheimum sem koma í eðlilegu framhaldi af þorrablótum og verslunarmannahelgi.



 Aðal skandallinn er að einlemburnar voru illa skipulagðar og  fyrr á ferðinni en þrílemburnar sem þær áttu létta á með því að fóstra fyrir þær svo sem eins og eitt lamb.

 

 Það er líka smá mínus fyrir geðheilsuna að  tvær tvílembur og ein einlemba ( samkvæmt fósturtalningu) voru með eitt lamb í plús sem er óvanalegt hjá okkar glögga teljara.

Samt trúlega vel sloppið miðað við hversu snemma er talið. Þegar vorar svona fádæma vel  ganga önnur vorverk líka í takt og nú er allri akuryrkju og sáningu lokið fyrir löngu ásamt skítakstri.

 Aðrir áburðargjafar, þessir innfluttu á lága verðinu eru svo í lokatörninni á leið sinni til jarðar og verða væntanlega komnir á sinn stað þegar fer að rigna seinnipart vikunnar.



Hrossaprógrammið gengur þokkalega á bænum og ég komst meira að segja í hnakk í gærkvöldi sem er alveg 10 dögum fyrr en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Enn eitt dæmið um hvað gott vor hefur mikla " meðvirkni " í för með sér



 Hér er lokajarðvinnslan í gangi og styttist þá í væntanlegt grænfóðureldi húsmæðranna á saklausum bændunum.



 Þessir snillingar koma heilir á húfi úr átökum vorsins enda ákaflega vel af Finnum gerðir. Tæknin og hestöflin eru þó á sitthvoru stiginu hjá þeim bræðrum. Annar svona Harlem útgáfa en hinn tvímælalaust Rollsinn í vélaflota Dalsmynnis fyrr og síðar.


 Já, nú er bara að vita hvort sleppitúrinn sleppi fyrir  slátt.


Flettingar í dag: 349
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 294
Gestir í gær: 65
Samtals flettingar: 413997
Samtals gestir: 37224
Tölur uppfærðar: 19.4.2024 11:00:55
clockhere