Færslur: 2012 Október

15.10.2012 21:12

Átök í eftirleit.

  Það höfðu verið að tínast að kindur í Tungurnar en þar er flest haust vinsælt afdrep fyrir kindur sem trúlega koma sér úr leitum norðanfjalls eða af austursvæðinu.

 Og það er nokkuð gefið að þær séu þeirrar skoðunar að þurfa ekki að hlíta því að nást til byggða fyrr en þeim þóknast.



Tungurnar( Geithellistungur ) er svæðið vestan Svörtufjalla( t.h)  innað Skyrtunnu.
Við Dóri stóðumst ekki veðrið í gær ( sunnudag) og lögðum inneftir vel hundaðir að venju.



 Það var staldrað við í hlíðum Svörtufjalla til að kanna gróðurskemmdir vegna ofbeitar, í tilefni trúverðugrar heimildarmyndar sem sýna átti um kvöldið.


 Þetta varð enn verra en við reiknuðum með og það er margt skemmtilegra en rekast á stök lömb uppi  á fjöllum en fjórum  svona pökkum fengum við að kynnast þennan daginn.



 Þó þær sjáist illa eru þarna uppi á snösinni 2 ær og 7 lömb og 5 lambanna á sínum eigin vegum.



   Hér eru þau á eigin vegum, komin undir leiðsögn Dáðar eftir að ærnar hlupu þau af sér þegar snösin dugði þeim ekki til skjóls.


  Austan árinnar bíður svört tvílemba orðin  dösuð eftir mikinn darraðardans og ofar er einn lambapakkinn.
  
Þegar hafði tekist að púsla þessu öllu niður úr Tungunum sáust tvö lömb uppi í Þórarinsgilinu vestan Núpár. Þegar Korka var búin að koma ´sér upp fyrir þau af stakri snilld tók þessi svarta gimbur sprettin niður að á, en hrússi var hinn þverasti og vildi láta hafa fyrir sér.



 Þar sem hundunum er beitt af ýtrustu varkárni í svona tilvikum lét Dóri sig hafa það að koma vitinu fyrir hrússa og hér koma þau öll uppúr gilinu ósár en móð.



 Hér er sú svarta komin á siglingu búin að ná sér eftir ólætin og nú var önnur tíkin í hlutastarfi að stoppa hana af, því auk lambanna hennar voru 6 önnur í lestinni.

 Þegar hér var komið sögu var ljóst að þetta gengi aldrei allt til byggða svo Atli og Aron Sölvi voru ræstir út samkvæmt leið B.



 Hér er þetta partíið komið á kerru, sólin á bak við Hafursfellið, Dáð í varðstöðu og síðan var beðið eftir 6 kinda hóp sem hafði notað sér aðstæður til að stinga af upp í Þverdal sem sést glitta í til hægri á myndinni. Það voru hlaupadýrin af snösinni með smáviðbót.

 Samtals 15 st. ( af aðkomufé) en tvílemban sem ég á óheimta sást hvergi.



 Og Aron Sölvi var hinn ánægðasti með fyrstu eftirleitina sína.




14.10.2012 07:53

Að klífa fjöll, temja hund og byggja hús.

 Í den, meðan ég nennti að safna saman fólki til að leiðbeina við hundatamningar, líkti ég tamningunni oft við fjallgöngu.

 Stundum gengi fjallgangan greiðlega en svo gæti maður lent í ógöngum eða brattri lausri skriðu þar sem maður rynni tvö skref afturábak fyrir hvert eitt áfram.



Og ef eitthvað færi virkilega úrskeiðis gæti maður fyrr en varði oltið aftur niður á jafnsléttu og kæmist hreinlega ekki af stað aftur nema eftir sértækar æfingar.

 Þessu er svipað farið með byggingarframkvæmd. Það er lagt af stað í mikilli bjartsýni og stefnt að því að ljúka verkinu með stæl á nokkrum vikum.



 Það kemur hinsvegar fljótt í ljós að svona ganga hlutirnir ekki. Iðnaðarmennirnir sem létu liggja að því að mæta í tiltekinni viku, áttu kannski við allt aðra viku í allt öðrum mánuði o.sv.frv.

 Það skemmtilega við tamningar , framkvæmdir og náttúrulega fjallgöngur, er að þegar hjólin eru farin að snúast sér maður eitthvað gerast og hægt eða hratt er hver áfanginn á fætur öðrum að baki.

 Nú fer að sjást til lands í fjár/hesthúsbyggingu Dalsmynnis sf. og þó markmiðið í upphafi hafi verið að ljúka henni miklu fyrr er samt allt í góðum gír.



 Keyrsluhurðin og áfellur utanhúss eru í farvatninu og heimasmíðaður mænisstrompur í hönnun á harða diskinum.


T.h. eru steypuplattar undir tvær gjafagrindur. Kindastíurnar verða 4 og vélgeng hlið eftir miðju húsinu til að koma taðinu/hálminum greiðlega  út.

 Stoðirnar fyrir milligerðir voru steyptar fastar í síðustu viku svo nú liggur næst fyrir að raða á þetta þiljum og hliðum sem eru nánast orðin fullmótuð á sama diski.

 Þrátt fyrir að heimavinna bændanna hafi orðið mun meiri en upphaflega var áætlað væri fjárhagsáætlunin samt farin rækilega úr böndunum ef hún hefði einhverntímann verið gerð.



 Hér verða tvær tveggja hesta stíur í fyllingu tímans ásamt athafnaplássi fyrir rúllur og allskonar.

 Hin framkvæmd sumarsins, flatgryfja í kvígueldisaðstöðu er komin á fullt líka eftir rúmlega mánaðar pásu.



 Enda samkomulag bændanna með besta móti, baukandi í sitt hvoru húsinu.

Eftir á verður þetta trúlega mesta ágætis sumar .þrátt fyrir annríkið.

Svona þegar menn fara að njóta uppskeru erfiðisins.

En djöf. ógeðslega dýrt.
 

07.10.2012 20:08

Árhring sauðkindarinnar lokað.

 Ég veit eiginlega ekki hvernig maður lýsir þeirri tilfinningu þegar síðustu lömbin renna uppá sláturbílinn og styttist í næstu hringferð með því að taka fé á hús, fengitími, vetrarfóðrunin,sauðburður o.sv.frv.


Lömbin runnu greiðlega á bílinn, orðin margreynd í rekstrarganginum.


 Í gömlu góðu dagana þegar lífsbaráttan var harðari og gildin önnur, horfði maður á eftir þeim með dollaraglampa í augunum.

 En núna ????????????????

 

Þó allur frágangur sé eftir á "fjárhúslóðinni" var lagað aðeins til svo hægt væri að setja vandræðalaust á bílinn, enda gekk það eins og í sögu. Þarna á eftir að hækka jarðveginn í dyrahæð og útbúa stall fyrir bílinn og vini mína á austurbakkanum, þegar þeir mæta til Dalsmynnisrétta að tæpu ári liðnu.

 Leitum er lokið með óvanalega góðum árangri í fyrstu tilraun og eina kindin, tvílemba sem vitað var að væri eftir í Hafursfellinu  sótt í gær.


 Hérna er Dáð að fylgja erfiðri leiðindarrollu framúr Grenstrípsgilinu ( í Tungunum).Þó þetta líti frekar sakleysislega út er gilið milli mín og kindanna dálítið skuggalegt þarna.

Á þessum slóðum, í Tungunum hafa hinsvegar birst  nokkrar kindur síðan í leitinni og vegna aðstæðna þarna þarf tvo til að ná þeim, þó hundarnir séu svona nokkurnveginn í heimsklassa.

 Það verður ekki laus dagur til þess í bráð.




 Nýi rögunargangurinn lítur alveg ótrúlega vel út eftir mikið kindarennerí síðustu dagana. Nú verður rekstrargangurinn sem hefur létt manni lífið þessa daga þó honum hafi verið fúskað upp á tæpum tveim tímum, rifinn niður.

 Ég veit alveg nákvæmlega hvernig gang á að smíða þarna en spurning hvernig gengur að koma því inní höfuðið á yngri bóndanum sem á að klára það mál.

 Þilið hægra megin verður líka tekið niður, lækkað aðeins og þar koma síðan op inní gjafagrindurnar tvær og stíurnar fjórar sem verða í húsinu.

Já, það eftir að ganga frá milligerðum, smíða aðra gjafagrindina, koma upp talíunni og aksturshurðinni og þá má veturinn koma kindanna vegna.
Flettingar í dag: 308
Gestir í dag: 22
Flettingar í gær: 2103
Gestir í gær: 503
Samtals flettingar: 417427
Samtals gestir: 37867
Tölur uppfærðar: 23.4.2024 13:40:11
clockhere