14.10.2012 07:53

Að klífa fjöll, temja hund og byggja hús.

 Í den, meðan ég nennti að safna saman fólki til að leiðbeina við hundatamningar, líkti ég tamningunni oft við fjallgöngu.

 Stundum gengi fjallgangan greiðlega en svo gæti maður lent í ógöngum eða brattri lausri skriðu þar sem maður rynni tvö skref afturábak fyrir hvert eitt áfram.



Og ef eitthvað færi virkilega úrskeiðis gæti maður fyrr en varði oltið aftur niður á jafnsléttu og kæmist hreinlega ekki af stað aftur nema eftir sértækar æfingar.

 Þessu er svipað farið með byggingarframkvæmd. Það er lagt af stað í mikilli bjartsýni og stefnt að því að ljúka verkinu með stæl á nokkrum vikum.



 Það kemur hinsvegar fljótt í ljós að svona ganga hlutirnir ekki. Iðnaðarmennirnir sem létu liggja að því að mæta í tiltekinni viku, áttu kannski við allt aðra viku í allt öðrum mánuði o.sv.frv.

 Það skemmtilega við tamningar , framkvæmdir og náttúrulega fjallgöngur, er að þegar hjólin eru farin að snúast sér maður eitthvað gerast og hægt eða hratt er hver áfanginn á fætur öðrum að baki.

 Nú fer að sjást til lands í fjár/hesthúsbyggingu Dalsmynnis sf. og þó markmiðið í upphafi hafi verið að ljúka henni miklu fyrr er samt allt í góðum gír.



 Keyrsluhurðin og áfellur utanhúss eru í farvatninu og heimasmíðaður mænisstrompur í hönnun á harða diskinum.


T.h. eru steypuplattar undir tvær gjafagrindur. Kindastíurnar verða 4 og vélgeng hlið eftir miðju húsinu til að koma taðinu/hálminum greiðlega  út.

 Stoðirnar fyrir milligerðir voru steyptar fastar í síðustu viku svo nú liggur næst fyrir að raða á þetta þiljum og hliðum sem eru nánast orðin fullmótuð á sama diski.

 Þrátt fyrir að heimavinna bændanna hafi orðið mun meiri en upphaflega var áætlað væri fjárhagsáætlunin samt farin rækilega úr böndunum ef hún hefði einhverntímann verið gerð.



 Hér verða tvær tveggja hesta stíur í fyllingu tímans ásamt athafnaplássi fyrir rúllur og allskonar.

 Hin framkvæmd sumarsins, flatgryfja í kvígueldisaðstöðu er komin á fullt líka eftir rúmlega mánaðar pásu.



 Enda samkomulag bændanna með besta móti, baukandi í sitt hvoru húsinu.

Eftir á verður þetta trúlega mesta ágætis sumar .þrátt fyrir annríkið.

Svona þegar menn fara að njóta uppskeru erfiðisins.

En djöf. ógeðslega dýrt.
 
Flettingar í dag: 876
Gestir í dag: 32
Flettingar í gær: 363
Gestir í gær: 34
Samtals flettingar: 423272
Samtals gestir: 38532
Tölur uppfærðar: 3.5.2024 17:18:46
clockhere