28.06.2012 21:38

Stokkönd í kröppum dans.

Raksturinn gekk vel á skárunum sem höfðu legið óhreyfðir í rúman sólarhring í brakandi þurrkinum.

 Ég hafði kvöldsólina í augun þegar alltíeinu flaug önd uppúr flekknum rétt framan við vélina og af einhverri rælni stoppaði ég.

 Um 30 cm. til hliðar við dráttarvélina horfði ég niður á 8 egg sem lágu í skáranum í snotru hreiðri sem var þó nánast án fiðurs.

 Hér 2 dögum seinna og orðin nokkuð örugg með sig eftir stöðugt ónæði.

 Ég nuddaði augun horfði á hreiðrið, svo á öndina sem var sest í 30 m. fjarlægð og virti þetta véladót fyrir sér trúlega með nokkurri skelfingu.

 Eftir að hafa velt þessu fyrir mér fram og til baka komst ég að þeirri niðurstöðu að hún hefði legið á hreiðri sem hefði verið svo lágt í túninu að eggin hefðu sloppið við að brotna þegar sláttuvélin fór yfir þau.. Öndin hefði síðan fært þau upp í heyið og talið sig vera í góðum málum þegar þessi ógæfa helltist yfir hana á ný.

 Ég skildi eftir smá " lóð " fyrir hana þó hún yrði trúlega nokkuð berskjölduð fyrir hrafninum , allavega ef ungar kæmust upp.

 Nú er búið að rúlla, plasta, fara um og hnýta lausu endana með alla hunda heimilsins meðferðis og væntanlega verða svo rúllurnar fjarlægðar á morgun.

Þá verður friður allavega af mannavöldum meðan hreiðurbúskapur varir.

Ég skaust svo í kvöld til að heilsa uppá dömuna því kannski er þetta stokköndin mín af tjörninni sem forðar sér alltaf eitthvað afsíðis til útungunar.

 
 Hún var nú á vappi út á túni að næra sig svo ég kíkti beint á hreiðrið.



 Svona hafði hún gengið frá því eða eins og segir í ljóðinu. " labbað út og lokað á eftir sér."



 Það er nokkuð ljóst að hún ætlar ekki að splæsa meira fiðri í hreiðurgerð þetta árið enda vonandi að  afkvæmin brjótist út fljótlega.

Þá bíður þeirra harður heimur fullur af illfyglum,  byssumönnum og nefndu það bara.

Flettingar í dag: 274
Gestir í dag: 57
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418937
Samtals gestir: 38068
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 22:35:01
clockhere