27.12.2011 09:08

Forystusauðurinn Höttur og bóndasonurinn á Þverá.

Þegar grúskað er í gömlum sögnum og heimildum kemur alltaf eitthvað skemmtilegt upp á borðið.

 Árið var 1874 eða 5.

 Svæðið sem þeir Höttur og Guðmundur áttust við var Snæfellsnesfjallgarðurinn uppaf Núpudal, dalurinn og sveitin niðuraf honum.


 Séð inn Núpudalinn. Skyrtunna og Svörtufjöll fyrir miðju.

 Guðmundur Sigurðsson var fæddur 1852 og fluttist með foreldrum sínum að Þverá Eyjarhreppi 1861 þar sem faðir hans Sigurður Jónsson bjó síðan til dauðadags eða 5. mai 1890.

 Á þessum tíma héldu menn sauði og átti einn sveitungi Guðmundar nokkuð stóra sauðahjörð á þess tíma mælikvarða.  Um þetta leyti fór fyrir þeim hóp höttóttur forystusauður sem var orðinn nokkurra ára þegar sagan gerðist. Höttur var mikill fyrir sér og fylgdi honum jafnan hópur sauða. Hann var frár á fæti og var um sig, náðist aldrei til byggða í leitum en þegar fór að harðna á dalnum skilaði hann sér heim að húsi með hópinn.

 Eigandanum fannst nokkuð til um þetta og fengu smalar svæðisins stundum að heyra það að seint myndu þeir koma þeim höttótta til réttar.

"  Í norðaustur af botni Núpudals rísa 3 keilulagaðir tindar. Þessir tindar heitu einu nafni Þrífjöll en hver þeirra á sitt eigið heiti. Sá austasti heitir Svartfjall, sá nyrsti Snjófjall en sá vestasti Skyrtunna og er hann þeirra mestur fyrirferðar. " (Úr bókinni Bóndinn á Heiðinni eftir Gunnlaug Jónsson.)

 Það var í umhverfi Þrífjalla sem talið var að Höttur héldi sig.


Þrífjöll. Skyrtunna til vinstri. Snjófjall og Svartafjall t.h. eru toppar á samfelldum móbergshrygg. Samnefnari fyrir móbergshrygginn er Svörtufjöll.( á kortum Landmælinga Svörtufell.) Nafnið Snjófjall virðist vera nokkuð á reiki sérstaklega þegar kemur framá síðustu öld og nafnið Litla Skyrtunna fer að koma fyrir í heimildum.


 Guðmundur á Þverá sem var þarna á sínu léttasta skeiði rúmlega tvítugur ákvað að láta sverfa til stáls milli sín og Hattar trúlega haustið 1874 eða 5.

 Á leitardaginn er hann mættur til leiks í birtingu inn að Þrífjöllum og hittir þar á Hött vestan í Skyrtunnu þar sem hann fór fyrir 30 sauða hóp.

 Er skemmst frá því að segja að þar hefst mikið spretthlaup, fyrst vestur fjallgarðinn að Ljósufjöllum, þaðan til baka og síðan niður Núpudalinn. Sá sprettur endaði niður við Hrútsholt þar sem Guðmundur kemst fyrir hópinn sem snýr þá til fjalla á ný og er nú hlaupið sem aldrei fyrr, enda báðir aðilar áttað sig á því að nú var að duga eða drepast.



 Það er hér við Hlíðarhornið ofan Dalsmynnis sem Guðmundur kemst að lokum fyrir hópinn og þar með var mótstaða Hötts brotin á bak aftur. Guðmundur rak hópinn í hús á Þverá og fór síðan í smalamennskuna sem þá stóð yfir. Eigandi Hattar var mættur í Þverárrétt þegar safnið kom niður og hafði orð á því að enn hefði Höttur sinn leikið á leitarmenn.

 
Það hefur hinsvegar verið stór stund fyrir bóndasoninn á Þverá þegar hann gekk til fjárhúsanna og rak sauðahópinn í réttina.

 Talið er að bein loftlína á þeirri leið sem spretturinn stóð samfellt yfir hafi verið um 18 km. svo varlega áætlað hefur smalinn og sauðahópurinn  hlaupið 20 - 30 km. á fullri ferð.

  Það er nokkuð örugglega búið að rækta þessa hlaupagetu úr fénu á þessum 140 árum, spurning með smalana.


Heimild. Bóndinn á heiðinni eftir Gunnlaug Jónsson 1950.
 
Flettingar í dag: 182
Gestir í dag: 38
Flettingar í gær: 816
Gestir í gær: 81
Samtals flettingar: 418845
Samtals gestir: 38049
Tölur uppfærðar: 26.4.2024 15:40:45
clockhere