Færslur: 2011 Ágúst

13.08.2011 21:24

Doðran , byggið og bjartsýnislottóið.

   Nú ætti maður að vera orðinn verulega taugastrekktur yfir þroskaleysi byggsins og því hve sumarið er orðið stutt í annan endann. 

 Ég er hinsvegar alveg slakur enn og þegar mér leist ekkert á þetta í úttektinni í dag hugga ég mig við að ég hafi lítið vit á þessu og svona eigi þetta að vera.



 Svona leit Juditin sem sáð var snemma í maí (fyrir frostakaflann) út. Þrátt fyrir lítinn áburðarskammt og annað árið í akrinum sem er tún í endurvinnslu þá er hún að ná of miklum áburði og er alltof gróskumikil. Ég gæti trúað að þarna sé hún um 2 - 3 vikum aftar á merinni en í fyrra.



 Skegglan sem komst ekki niður fyrr en um miðjan maí er svo ekkert til að hrópa húrra fyrir.



 Og Lómurinn sem var sáð um leið mætti vera kominn lengra á þroskabrautinni.

 Doðruakurinn sem er ófullkomin tilraun í olíuræktuninni er enn gulur yfir að líta.


 En þegar farið er að rýna í hann er hann nú ekki alslæmur.



 Það eru blettir í honum þar sem blómið er nánast farið og annarstaðar er það á fallandi fæti.



 Hérna er doðran orðin um 90 cm há og þetta lítur allt mjög traustvekjandi út, þó það verði að viðurkennast að ég hafði mjög takmarkað vit á því sem ég var að horfa á.

 Ein spurningin er sú hvort ég muni nokkurntímann losna við þessa jurt úr
akrinum??

08.08.2011 23:12

Holótt þvottabretti, hringvegur og gas, gas.

Þó það sé alltaf jafngott að komast á malbikið af holóttum þvottabrettisvegum hálendisins er það samt alltaf eitthvað sem togar mann þangað aftur.

 Það er kannski ekki skynsamlegt að leggja af stað í ferðalag á frídegi verslunarmanna en þar sem hringvegurinn var ekki á ferðaplaninu þann daginn nema rétt í gegnum Borgarnes slapp þetta allt til.

 Lundarreykjadalurinn var ekinn með viðkomu og kaffibolla í Skarði svona til að taka aðeins á  púlsinum á mannlífinu í dalnum. Uxahryggirnir voru  eknir og yfir nýju brúna að Flúðum og svo upp Þjórsárdal.


 Hér er frúin komin í fjósið að Stöng og ljóst að Norsku kýrnar í den,  hafa verið mun smávaxnari en þær sem bændurnir sem ætla sér að lifa af komandi þrengingar í mjólkurframleiðslunni láta sig dreyma um að flytja inn.



 Þessi náttúruperla "Gjáin " er í km göngufæri við Stöng og það hlakkaði í minni heittelskuðu þegar ég benti henni í bílastæðið á barmi Gjárinnar eftir að við höfðum þrammað þangað frá Stöng. Það var auðséð á Hvönninni að þarna er sauðkindin fjarri góðu gamni en staðurinn farinn að láta á sjá af ferðamannaágangi.



 Það var síðan dólað uppfyrir ferðaþjónustuna í Hólaskógi til að skoða einn af hæstu fossum landsins , Háafoss ásamt Granna, bróður hans þar sem þeir steypast niður í Þjórsárdalinn um 120 m. fall.
Ég hafði riðið þarna um fyrir nokkrum árum og fannst gaman að koma aftur á þessar slóðir.



 Þessi gististaður er svo algjör andstæða þess að gista á þjóðhátíð eða þannig.
 Það var hinsvegar dálítið langt á næstu bensínstöð þegar gasið kláraðist og varakúturinn sem átti að vera með, var glaðhlakkalegur við grillið vestur í Dalsmynni.

Svo það var ekki hellt uppá kaffi þennan morguninn.

En meira um það seinna(kannski).

05.08.2011 00:06

Einfalt og látlaust orkuver.

Menn leysa orkuþörfina með ýmsum og misdýrum hætti enda aðstæður og andagift misjöfn.

 Hérna sést uppistöðulón orkuvers.



 Og hér fyrir neðan yfirfallið og botnlokan ef hreinsa þarf úr lóninu.



 Hér sést niður gilið og vatnsrörið er fellt niður í vegslóðann.



 Orkuverið sjálft er síðan fellt inn í bergið og málið er dautt.



 Svo er náttúrulega hægt að deila um það, hvort réttlætanlegt sé að skemma þetta sköpunarverk sem gilið er með svona framkvæmd???
Flettingar í dag: 1445
Gestir í dag: 142
Flettingar í gær: 256
Gestir í gær: 13
Samtals flettingar: 403186
Samtals gestir: 36639
Tölur uppfærðar: 28.3.2024 22:21:05
clockhere