Færslur: 2010 Október

13.10.2010 09:21

Gæsaveiðin. Rólegt í Eyjarhreppnum.

 Gæsaflotinn sem heldur til í Eyjarhrepp hinum forna hagar sér ekki með hefðbundnum hætti í þessum hlýindum og logni sem ríkt hefur að mestu í haust.

 Þessi mynd er frá 2008 en þá var allt eðlilegt á svæðinu með endalausu roki og rigningu og mikilli gæsaveiði.

 Nú er erfitt að eiga við hana . Hún er slugsandi langt fram á morgun í fjörunni eða lætur sig reka fram og aftur úti á sjó og er að dóla inn á akrana síðla morguns og langt fram á dag.

 Í logninu flýgur hún hátt og gefur sér góðan tíma til að virða fyrir sér væntanlegan lendingarstað.



 Þetta er nú svona 2008 mynd enda komu þessar beint inn.



 Og voru snöggar að forða sér þegar þær fengu óblíðar móttökur.

 Þetta háttalag gæsarinnar í logninu er ekki til þess fallið að auka aflabrögð skyttnanna og Blesurnar sem blanda sér í hópinn eru svo ekki til að bæta ástandið.

 Nú er meira af Heiðagæsinni en oft áður og þar sem hún notar sama tungumál og Blesan verður þetta svo enn ruglingslegra fyrir ofurspenntar skytturnar horfandi á háflugið fyrir ofan sig farandi  með bænirnar sínar.

Rétt að hafa þær ekki eftir.emoticon



 Hér voru þær að tínast inn á tún og akra hjá mér í gær og lá við umferðaröngþveiti því þarna blöstu þær við frá þjóðveginum trúlega nokkur þúsund um það er lauk.



 Einn leigutakanna sem átti leið um fékk mikinn skjálfta í gikkfingurinn en er vonandi farinn að róast þar sem hann liggur í þessum skrifuðu orðum þarna ofan í skurði.

En það er stafalogn núna ! emoticon


11.10.2010 18:57

Taka 2. Ævintýraland og örnefni.

  Loks sér fyrir endann á smala og fjallabloggum þetta haustið þó kannski sleppi inn ein og ein eftirleit ef tilefni gefst.
 Nú er orðið býsna algengt að héðan leggi upp göngufólk inn á fjallgarðinn og sumir þeirra fara jafnvel í nokkurra nátta útilegu.
  Það er svo gaman að því að þetta fólk er búið að stúdera kort og ýmsan fróðleik um svæðið og er kannski fróðari um örnefni en margur heimamaðurinn.
 Margir rölta upp á Skyrtunnu og eins og sagði síðast er þetta auðveldasta leiðin. Hún er svo auðveld að einhverjir sneiða framhjá henni upp á tindinn.



 Svo eru það Svörtufjöll sem eru nú enn auðveldari viðureignar og margir hlaupa þar við á leið sinni niður svona til að geta bætt þeim í safnið.



 Það er ekki sama hvaðan er horft  til að telja tindafjöldann  og kannski öruggast að skreppa upp til að telja þá.

 Upp af Hvítuhlíðinni ( t.v hér fyrir neðan)  sem er held ég fyrsta örnefnið sem ég varð öruggur á, í upphafi smalaferilsins er Hvítuhlíðarkollurinn, löng bungumynduð hæð næstum lárétt. Þar mættust efsti maður úr Tungunum og sá sem kom efst austanað og eins gott að munaði ekki miklu á tíma því þá fór stundum allt í klessu.
Frameftir síðustu öld þótti leit í Dalsmynni ekki fullmönnuð nema með 7 - 9 manns. Nú finnst manni fínt að fá 3 í fjallið og 1 í fyrirstöðu á Dalsmynnisfellinu.



 Sunnan Hvítuhlíðarkollsins er Hvítuhlíðargilið með áberandi blágrýti á norðari gilbarminum sem er einstakt á svæðinu. Hvítuhlíðarkollurinn er ákaflega greiðfær endanna á milli sem kom sér oft vel fyrir fótfráa eða velríðandi smala þegar of seint var mætt í fyrirstöðuna. Nú hafa hundarnir og fjórhjólið eyðilagt öll slík ævintýri, allavega þarna.




  Hér sér svo yfir Moldarmúlann inná Leirdalinn en klettahryggurinn hér  fremst á myndinni er sjálf Geithellistungan með Grengilið til hægri við sig. Þessi tunga endar svo að sjálfsögðu í sjálfum Geithellinum sem kynntur var til leiks í síðasta bloggi.



 Reyndar fann ég aðeins skárri mynd af honum hér, en hann er nú reyndar lítið dýpri en þetta og ætti frekar að heita skúti en hellir.



 Já ekkert meira  fjallakjaftæði í bili. emoticon 

 

10.10.2010 07:06

Ævintýraland og örnefni.

Hvort heldur ég mæti í Tungurnar (Geithellistungur) þungvopnaður til að kanna hvort óvelkomin refahjón hafi tekið sér ábúð hjá mér, eða á smalaskónum að elta rollur fylgir því alltaf ákveðin notalegheit fyrir sálina að koma þar.

 Það eru um 50 ár síðan ég byrjaði að skondrast þar um í leitum með eldri systkinum og á þeim tíma hefur viðhorf mitt til landsins og alls annars, trúlega breyst miklu meira en ég geri mér grein fyrir.


 Moldarmúlinn og Leirdalurinn innan hans er  innsti hlutinn Tungnanna  en í Leirdalnum  á Núpáin upptök sín

Náttúruundrin í landinu á þessu tiltölulega litla svæði eru alveg ótrúleg og þó ég hafi eflaust á fyrstu árunum litið á þennan ævintýraheim sem eðlilegasta hlut í heimi er langt síðan ég áttaði mig á því þessi hluti alheimsins er býsna sérstakur.


 Ég hljóp  framhjá fossaröðinni framanvið Moldarmúlann í den án þess að sjá hana en núna hef ég alltaf tíma til að staldra við en mislengi samt.
Snúi ég mér við á þessum punkti og líti niður ána blasir þetta við.

.

 Ef ég hefði lagt fyrir mig jarðfræðinám  gæti ég útskýrt þetta nánar en þetta er allavega flott.

Þetta  gil hér heitir ýmist Illagil eða Moldarmúlagil og liggur sunnan Múlans og á upptök sín milli Skyrtunnu og Svörtufjalla.



Skyrtunnan er trúlega eitt af þekktustu örnefnum Snæfellsnessfjallgarðsins.
Hún kemur beint uppaf Moldarmúlanum og hér  eftir hryggnum  er greiðasta leiðin uppá hana.

 Ég velti því fyrir mér á tímabili hvort hefði orðið til á undan, þjóðsagan um tröllkonuna eða örnefnin sem tengjast sögunni en hvorutveggja hefur allavega fylgt okkur um aldir.



 Aðeins sunnar en Skyrtunnan eru Svörtufjöll og til hægri Steinahlíðarkollurinn. Milli Kollsins og myndsmiðsins er svo Illihryggur.



 Samkvæmtum kortum og öðrum heimildum heitir þetta móbergsfjall " Svartafjall" ( eða Svartfjall).
Það er hinsvegar mjög sterk málvenja fyrir því hér á svæðinu, allavega aftur til 19 aldar að talað er um það í fleirtölu "Svörtufjöll".


Hér er horft niður Grenstrípsgilið með Grenstrípinn til hægri. Neðar glittir i Núpána og uppaf henni liggja Eyjalágarnar til vesturs.



 Hér horfum við á Grenstrípsgilið úr hinni áttinni með Grenstrípinn til vinstri. Steinahlíðin og Svörtufjöll í baksýn.


 Hér sést munninn á hellinum sem talið er að Tungurnar beri nafn af. Að vísu eru tveir aðrir hellar á svæðinu en samkvæmt Kristjáni Eggertsyni ( f.1873 d. 1953) hefur þessi heitið Geithellir allavega frá því snemma á 19 öld.



 Það er svo rétt að ljúka þessari sunnudagsandagt með þessum kletti sem er þar sem Háihryggurinn ( neðri mörk Tungnanna) endar í Núpárgilinu. Og þó ótrúlegt sé hef ég ekki nafn á hann.emoticon 
 

Flettingar í dag: 178
Gestir í dag: 11
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403392
Samtals gestir: 36650
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 10:06:17
clockhere