Færslur: 2010 Maí
06.05.2010 02:40
Vökuvakt á sauðburði.- Myndir.
Þó ég leggi við hlustir heyri ég ekki þungu dimmu dynkina sem heyrðust í gærmorgun.
Þeir höfðu minnt mig á skot úr stórum riffli með hljóðdeyfi og mér létti nokkuð þegar ég heyrði í hádegisfréttunum að drunurnar í gosinu hefðu heyrst vestur á Mýrar.
Þá lá semsagt fyrir að dynkir úr gosi í Eyjafjallajökli hefðu heyrst alla leið yfir á Vesturbakkann.
Og ég varð dapur inni í mér þegar mér varð hugsað til kolleka minna í sauðburði á öskusvæðinu með allt lambfé á húsi og framtíðina vægast sagt í óvissu.
Guðný var enn á vaktinni þegar ég kom út og var að enda við að setja verðandi tvílembu í aðra fínu hestastíuna sína. Ég hefði nú ekki þorað því sjálfur enda langagaður í samskiptum við húsfreyjur staðarins.

Eitt var komið og hitt á leiðinni.

Kindurnar eru hættar að taka eftir því þegar mætt er á vaktina, þó allt sprytti á fætur þegar komið var í húsin í upphafi sauðburðar.

Hér hefur hún" Ömmu Hefu Grána", afastelpunnar gert sig heimakomna í rúllugrindinni en hún hafði ásamt þremur öðrum geldum gemlingum verið sett í rolluhópinn þegar fór að þrengja að í gömlu fjóshlöðunni.

Stallsystur hennar 3 sváfu svefni hinnar réttlátu við hliðina og hafa ekki hugmynd um að kannski verður þetta síðasta nóttin þeirra inni þetta vorið.

Já, svona sofa þær blessaðar saddar og sælar og er slétt sama þó bóndalufsan sé eitthvað að þvælast þarna um hánótt.
Sauðburðurinn gengur bara vel, hægt en örugglega og enn eru það einungis sæðisær og gemlingar sem fjölga sér.
Eitt lamb kom löngu dautt og tvö hafa drepist í fæðingu með ótrúlega slysalegum hætti.
Tvær fullorðnar hafa svo borið einu lambi.
Það þýðir að " einungis" 3 þrílembur eru í umferð og tveir gemlingar eru með tveimur lömbum í augnablikinu. En allar þessar fullorðnu ganga með tveimur lömbum, enn sem komið er.
Það verður trúlega ekki reynt að venja undan þrílembunum héðanaf, enda blása lömbin út á ógnarhraða í þrílembustíunni og mæðurnar á extra dekurfæði með ómældri bygggjöf.
Já þetta gengur bara vel og þó orðaforðinn sé í góðu lagi hjá mér, skortir mig lýsingarorðin yfir það hvernig vorkoman leikur við mann þessa dagana.

03.05.2010 19:53
Byggsáning á útopnu. - Dótamyndir.
Öllu akuryrkjudótinu var komið á fullan sving í fádæma blíðu enda akrarnir í einstaklega skemmtilegu vinnsluformi.

Atli Sveinn sér alveg um sáninguna einn,ef séð er um að nóg sé af fræi og áburði við hendina.
Þar sem þeir voru flestallir plægðir í haust var það tætarinn sem fór fremstur í dótaröðinni.
Þetta er 4 m. Pöttinger sem hefur reynst alveg frábærlega, þrátt fyrir óblíða meðhöndlun gegnum árin.
Fantameðferðin var toppuð þegar einn félaginn tætti með honum afleggjarann hjá sér til að brjóta upp holurnar. Fyrst hnífarnir í honum þoldu það mun fátt verða þeim að fjörtjóni nema slitið.

Jonni hafði mætt úr borg óttans til að vera á reiðnámskeiði um helgina. Þar sem hrossapestin var mætt, var talið rétt að blása námskeiðið af, því ekki væri gott að námskeiðast á hrossum sem væru hóstandi og skyrpandi.
Jonni var því settur á tætarann. Einar sem er ákaflega lunkinn samningamaður gerði við hann starfssamninginn. Hann átti að tæta frá 8 - 24 og fá hálftíma í mat tvisvar á dag. Ekki var gert ráð fyrir launum í samningnum enda verið að vinna lögskipaða frídaga og 1. maí í þokkabót.

Hér fær hann hálftíma í mat með ferðum inniföldum. Reyndar var honum sleppt um kl 22 á sunnudagskvöldið enda akrana að þrjóta.
Atli Sveinn sá um sáninguna. Hann yfirgaf búreksturinn á föstudagsmorgni og lauk sáningu í þessari lotu um hádegi í dag (mánudag). Væntanlega margbrotið hvíldarlöggjöfina með einbeittum brotavilja.

Og Einar var að valta og hljóp svo í að sjá um að ekki vantaði fræ og áburð hjá sáðmeistarnum.
Ég sjálfur sinnti búi mínu af kostgæfni en var svo í afleysingum á tætara og í áburðar og fræreddingum þegar þurfti.
Þar sem ég var stressaðastur í hópnum notaði ég símann óspart til að skamma þrælana og skapa allskonar leiðindi eins og mér einum er lagið.
Það var sáð í tæpa 50 ha. í þessari törninni og nú er búið að flóðrigna í dag .

Það er langt í að akrarnir líti svona út.- Og þó. Hér var sáðmeistarinn að uppskera Judithakur. sl. haust
Þetta er langþráð rigning og að hún skyldi koma akkúrat núna bendir ótvírætt til þess að þetta byggbjástur okkar félaganna sé guði þóknanlegt.
Nú verða teknir 2-3 dagar í að fínisera akrana sem eftir eru, ná vopnum okkar á ný og ljúka svo við að sá seinnipart vikunnar.
Þetta er lífið.

02.05.2010 20:28
Þrílembuskot í upphafi sauðburðar.
Nú er sauðburðurinn hafinn og fer rólega af stað sem betur fer.
Það eru sæðisærnar og gemlingarnir sem byrja ballið en í beinu framhaldi af sæðingum fengu hrússarnir svo að leika lausum hala í hjörðinni sér til mikillar ánægju.
Frjósemin í startinu er fullmikil fyrir smekk bændanna, því draumurinn er nú sá að fá tvö lömb úr hverri fullorðinni ær og eitt úr gemlingi.
Það væri samt trúlega leiðigjarnt til lengdar ef allir draumar rættust.
Af fyrstu 8 ánum eru 4 tvílemdar. Hinar fjórar eru hinsvegar þrílemdar og ljóst að þetta boðar mikla frjósemi þetta vorið. Og ekkert fengieldi frekar en undanfarin ár.
Það er ljóst að þó nokkra ær fá að ganga með 3 lömbum í sumar sem er vont mál þó sumar þeirra fari nokkuð létt með það..
Sem betur fer var sú níunda með einu lambi og var skellt undir hana tvílembingi undan gemlingi.
Einu sinni var talað um að fæddist mislitt lamb í Dalsmynni á þriggja ára fresti, spurning hvort nú séu þrjú ár í það næsta.
Golsótt er held ég ljótasti sauðfjárliturinn. Hann er hinsvegar í miklu uppáhaldi hjá minni heittelskuðu svo nú er bara að krossleggja fingurna og vona að Golsi stigist illa í haust.
Og hér eru gemlingarnir komnir á viðverustað sinn næstu dagana en þeir gætu svo endað úti fljótlega þegar fer að þrengjast í húsunum.
Já nú fer erfiður en skemmtilegur tími í hönd í sveitinni.
Og það vorar með miklum látum.