Færslur: 2010 Maí

17.05.2010 22:58

Þröstur minn góður..- Hreiður á stillans.

 Framan á fjósinu stendur stillans síðan í vetur.

Þegar að óbornu ærnar voru hafðar í daghólfinu lá vel við að fara stillansinn í eftirlitsferðunum.

Í einhverri af fyrstu ferðunum uppgötvaðist að þar voru uppvið vegginn tvö fullgerð hreiður með um 1.5 m. millibili.
Þessi umferð virðist hafa fælt annan ábúandann frá frekari búskaparáformum en allt í einu voru komin 2 egg í annað hreiðrið.



 Síðan bættist við eitt af öðru þar til þau voru orðin 5. En aldrei sáum við fuglinn.

Svo kom í ljós að þarna var skógarþröstur á ferðinni og nú fór hann að liggja á af mikilli natni.

 Hann var fljótur að róast við umferðina og  kom að fljótt  að því að hann var ekkert að ómaka sig við að yfirgefa hreiðrið, þó bændaræflarnir væru eitthvað að skakklappast framhjá.



 Í austanrigningunni um daginn kom í ljós að hönnunin var ekki fullkomin því það lak niðuraf veggnum á foreldrið tilvonandi, sem sýnir hér hægri vangann.



 Og hér þann vinstri en nú var hann orðinn dálítið pirraður til augnanna enda ekki eins athyglissjúkur og sumir topparnir í þjóðfélaginu.

  Nú er bara að vona að allt gangi upp hjá þeim hreiðurbúum og kettir heimilanna virði friðhelgi heimilisins.

 Það verður þó að telja býsna líklegt að þeim verði þó eins farið og offörunum í eftirmálum hrunsins ,ef þeir verða þarna á ferðinni .

 En vonandi getum við þó treyst því að rebbarnir mínir séu ekki svo ósvífnir
 að mæta á svæðið. emoticon




16.05.2010 03:47

Sauðburðarfréttir og staðan á vorinu.

 Þó norðanáttin sé að mestu gengin niður andar köldu í morgunsárið.

Og það er eiginlega slydda en ekki regndropar þessi pínulitla úrkoma sem er í gangi í augnablikinu.

 Já það hefur slegið á hitatölurnar og nú er svona hefðbundið íslenskt vor í kortunum.

Þrátt fyrir að allt hafi gengið rosalega vel í sveitinni það sem af er, og puðið verið miklu léttara en oft áður er ég samt kominn á ofurskammtana í kaffinu sem tilheyra þessum árstíma.

Það er innan við þriðjungurinn af fénu óborinn, og óvanalega margt komið út af lambánum.

Nokkur lömb hafa drepist í fæðingu en ekkert þeirra sem hafa komist á lappirnar, sem er mjög fínt.

Og af þessum 8 þrílembum eru einungis 2 sem ganga með öllum . Þær eru komnar út og fá að valsa um aðaltúnin, meira að segja með leyfi yngri bóndans sem getur orðið dálítið grassár þegar blessuð sauðkindin  er annarsvegar og beljutúnin hinsvegar.



  Frjósemin hjá gemsunum hefur líka verið í lagi þetta árið og enginn þeirra sem borinn er, mun þurfa að ganga með tveimur lömbum.

 Já það er engin þörf að kvarta og þar sem akuryrkjan hefur gengið frábærlega þetta vorið er nú verið að vinna og sá í flögin sem loka á með grasfræi.

 Samkvæmt skipuritinu átti ekki að gera það fyrr en seinnipartinn í sumar en það getur oft verið skynsamlegt að taka skipuritin upp og breyta þeim eftir því hvaðan vindurinn blæs og hvernig vorið kallar á mann.
 Ég hafði meira að segja tíma til að fara með girðingunni um tamningarhólfið mitt í gær og gera það alveg lúshelt.


 Hér var verið að ræða við nemendahóp á ýmsum aldri og eftirtektin leynir sér ekki. Það er alltaf verra í þessum bransa þegar ekki er hlustað á kennarann.

Sem
betur fer eru nokkrar ær + gemsar geldar. Þær verða teknar frá í dag, svo hundatamningarnar  geta hafist og  verið síðan framdar með eðlilegum hætti í sumar.

 Reyndar liggur ekki mjög mikið fyrir í þeim efnum aldrei þessu vant, en þar getur skipuritið breyst á einni nóttu eins og í jarðræktinni.


  Hér er áð við Breiðamerkurlónið 2008.

Hrossapestin er að ganga yfir og þá styttist í að restin af ferðahestunum verði komið á járn og farið að liðka þá.

 Já Það er ekki mjög leiðinlegt þessa dagana.emoticon

14.05.2010 03:57

Vorið góða gr... - í gamla daga.

 Ég velti því stundum fyrir mér á þessum árstíma, hvort aldrei hafi komið slæmt vor í gamla daga.

Þá er ég að tala um svona 40 ár plús aftur í tímann.

 Ekki nóg með að  í endurminningunni sé alltaf  blíða og hamingja heldur var vorið umgengist af fullri virðingu.

Öllum skólum lokið fyrir sauðburð hvort heldur á möl eða mold.

Meira að segja alþingismennirnir voru sendir heim í sauðburðinn og vorið.

Enda urðu þeir til margfalt minni vandræða þá en nú.

 Þó gránað hafi í fjöll í nótt finnst mér að þetta vor sé líkt þessum gömlu góðu.

Það var staðfest í gær þegar ég sá að byggið var farið að gægjast uppúr ökrunum.



Og barnabörn komin í pottinn hjá ömmu.



Aron Sölvi er nokkuð sáttur við það.



Óbornu rollurnar fá að viðra sig yfir daginn og hjartað hennar Höllu Sifjar, ofarlega í hlíðinni vinstra megin við skriðuna orðið vel grænt.



Þrastarhreiðrið á stillansinum sýnir útsjónarsemi foreldranna, en nú er vissara að loka skemmu og hlöðudyrum .
Annars hefst óðara mikil fuglaumferð inn, með allskonar efni til hreiðurgerðar.




 Og Móri kallinn sem hefur umgengist grenjaskyttuna af mikilli lítilsvirðingu í vetur var farinn að ergja mófuglinn verulega.

 Þegar hann toppað svo lítilsvirðinguna við gömlu grenjaskyttuna með því að bögga lambféð í túnunum gekk hann of langt.

 Já vorkoman er í góðum gír.emoticon

Nema það mætti fara að senda þingmennina heim.emoticon
Flettingar í dag: 217
Gestir í dag: 12
Flettingar í gær: 1473
Gestir í gær: 142
Samtals flettingar: 403431
Samtals gestir: 36651
Tölur uppfærðar: 29.3.2024 12:11:22
clockhere