Færslur: 2009 Febrúar
23.02.2009 20:42
Hálmurinn í kreppunni.
Margir okkar sem eru í byggræktinni nennum ekki að hirða hálm nema til eigin nota. Menn hafa litið á hann sem verðlausa aukaafurð og þeir sem biðja mann um hálm eiga til að snúa upp á sig og missa áhugann ef maður verðleggur hann fyrir vinnunni og plöstuninni.
Nú eru breyttir tímar því undirburðurinn fyrir hrossin er orðinn óhóflega dýr svo ekki sé sterkar til orða tekið og góður vel þurr hálmur gæti orðið verðmæt afurð ef hann er búinn í neytendavænar pakkningar. Stóru rúllurnar henta ekki fyrir fjöldann og þeim fylgir nokkur sóðaskapur á vettvangi.
Austur á Selfossi situr Finnbogi Jötunvélabóndi uppfullur af þrælgóðum hugmyndum sem tími er til að stúdera núna, þegar aðeins slær á vélabraskið.
Ef hann ræðir svo við réttu mennina og fer eitthvað eftir því sem þeir segja, getur stundum komið eitthvað af viti útúr þessu.
Hann heldur því fram að séu menn með aðstöðu til að fullþurrka hálminn. rífa hann svo niður í hæfilegar pakkningar og plasta, endar byggið sem aukaafurðin.
Hér sjást loftgötin í gólfinu á byggskemmunni okkar, þar sem bygginu er haldið köldu með öflugum blæstri meðan það bíður þurrkunar. Heitt loft uppí hálmrúlluenda gerði hálminn okkar að lúxusvöru.
Á ferð minni um Selfoss á föstudaginn tók ég söxunar og plöstunartilraunina út hjá þeim Jötunvélarmönnum.
Afrúllarinn blæs hálminum inn í baggavélina.
Afurðin skraufaþurr kemur í stillanlegum baggastærðum.
Þetta er gæðavaran. Þegar við Eyhreppingarnir markaðsetjum svo hágæðahálminn verður hann væntanlega kögglaður. Nema hvað?
Sem sagt alíslensk hágæðaframleiðsla.
Og frammarinn sem stoppaði seðlabankafumvarpið af, gerði mistök dagsins.
Skrifað af svanur
21.02.2009 21:10
Hundatamningin . Nýr áfangi.
Byrjendunum í hundatamningum sem eru að fylgjast með okkur Dáð, er bent á nýjar færslur í " Hundatamningar" hér til hægri á forsíðunni og nýtt textað myndaalbúm.
Skrifað af svanur
19.02.2009 20:38
Hitaveita og arðkröfur.
Það var korteri fyrir síðustu aldamót sem ég settist við reiknivélina og fór að reikna út hvort borgaði sig að taka þátt í því, með nokkrum félögum mínum að leggja hitaveitu til okkar.
Það kom tiltölulega fljótt að því að slökkt var á reiknivélinni enda ekki nokkur leið að reikna arðsemi útúr svona ævintýri.
Stuttu seinna hitti ég eldhugann sem startaði hugmyndinni og sagðist verða með.
Það gekk svo á ýmsu fram að borun vorið 2001, en það náðist vatn, við lögðum hitaveitu um haustið og heita vatnið var síðan að tengjast hjá okkur framundir jólin 2001.
Þetta var um 13 km. lögn til 7 bæja og þetta hefur trúlega verið með dýrustu hitaveitum landsins per notanda, sem alfarið var kostuð af einstaklingum.
Dæluhúsið niður við Kolviðarnesvötn. Þaðan liggja lagnir í 3 áttir.
Síðan þá hafa bæst við 3 notendur og 2.5 km lögn og það hefur aldrei hvarflað að mér eitt augnablik þessi ár, að þessum peningum hafi verið illa varið.
Við vorum 7 stofnendurnir , allir með jafnan hlut. Gert var ráð fyrir að hvert lögbýli fengi orku sem samsvaraði a.m.k. 35 kw. Við hönnunina kom í ljós að hitastig og þrýstingur var ákaflega misjafn milli bæja sem vænta mátti eða frá 65°hita og 6.5 kg þrýsting , niður í 48°og 1.8 kg.
Hitamismuninum var mætt með mismunandi vatnsmagni á bæ en þrýstimunurinn beið betri tíma, eða þar til menn hefðu náð sér eftir framkvæmdina, enda menn bæði sárir og móðir áður en lauk.
Um tengihúsið við Dalsmynni rennur kannski ekki lífæð búsins en breytingin yrði mikil ef hún stoppaði.
Þó það sé fínt að búa svo hátt að hægt sé að líta niður á nágrannana leiddi það til þess, að þrýstingurinn var lægstur hjá mér og hitastigið næstlægst.
Ég hef samt ekki kvartað enn.
Gærdagurinn fór í það að fara í öll tengihús veitunnar og taka út notkun/rennsli, hitastig og þrýsting, til að kanna síðan frávik frá hönnunaráætlun. Það er til marks um ánægju notenda að þetta hefur í raun aldrei verið gert skipulega frá upphafi, þrátt fyrir að öll frávik í notkun( minni notkun) frá áætlun, breytir hita og þrýstingi í lögninni.
Enda komumst við sérfræðingurinn að því, að þetta var hvergi eins og það átti að vera.
En nú er kannski komið að því í kreppunni, að setja dælur á lögnina til að jafna þrýstingsmuninn og gera þessa hamingjusömu enn hamingjusamari. Reyndar er líka verið að tala um að hækka árgjöldin sem hafa staðið óhögguð frá upphafi. En það er nú önnur saga.
Kannski verður komin dæla hér fyrir næstu aldamót, sem lyftir þrýstingnum úr 1.8 kg. í 3.5 kg.
Það er skemmtilegur og samheldinn hópur sem stendur að þessu ævintýri og það verða engar uppsagnir eða launalækkanir hjá fyrirtækinu í þessu hörmungarástandi. Það er nefnilega enginn launakostnaður í rekstrinum.
Og bloggarinn er kominn í hátíðarskap við að rifja þetta upp.
Það verður því brugðið út af vananum og hafður með einn öl í pottinn.
Megið þið svo eiga góða helgi.
Skrifað af svanur